Spurt og svarað um COVID-19

Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Aðrir kórónafaraldrar voru MERS-sýkingin í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS-sýkingin sem braust út í Kína og geisaði á árunum 2002–2003). SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en dánartíðni inflúensu.

Kórónaveirur eru þekktar úr dýraríkinu en stundum berast þær í mannfólk. Veirurnar geta borist úr sýktum dýrum í fólk.

Alls konar dýr geta borið kórónaveirur. Veiran sem orsakaði MERS-veikina, sem greindist einkum í Mið-Austurlöndum, barst upphaflega úr kameldýrum. Og veiran sem orsakaði bráðalungnabólguna SARS (eða HABL á íslensku) barst úr þefköttum.

COVID-19 er heiti smitsjúkdómsins sem nýja kórónaveiran veldur. Veiran og sjúkdómurinn voru óþekkt áður en fyrstu tilfellin voru greind í desember 2019 í borginni Wuhan í Kína.

Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.

Flestir, um 80%, ná sér af sjúkdómnum án þess að þurfa frekari meðhöndlunar eða lækningar við. Um einn af hverjum sex veikist alvarlega. Eldra fólk og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma á borð við háan blóðþrýsting, hjartasjúkdóma eða sykursýki eru í meiri hættu að þróa með sér alvarlegri einkenni. Ef fólk finnur fyrir veikindum er því bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

Veikt fólk er sérstaklega beðið um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Fólk með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verður sett í einangrun skv. nánari leiðbeiningum. Einkennalaust fólk sem hefur verið í samneyti við fólk með staðfesta eða líklega sýkingu verður sett í sóttkví skv. nánari leiðbeiningum.

Sóttvarnalæknir vill hvetja fólk á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína, til að:

  • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
  • Forðast náið samneyti við fólk sem eru með hósta og almenn kvefeinkenni.
  • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
  • Nota pappír/klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
  • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef fólk þarf að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Listi sóttvarnalæknis er uppfærður ört á vef Lændlæknisembættisins: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item39194/Skilgreind-ahaettusvaedi---Defined-high-risk-areas

COVID-19 smitast á milli fólks. Smitleið er talin vera snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og hraustur einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti sínu. Ekki hefur verið staðfest að fólk geti verið smitandi áður en einkenni koma fram en sumir fá lítil sem engin einkenni og geta þó verið smitandi.

Enginn kostnaður á að fylgja prófinu fyrir einstakling sem er prófaður.

Fylgstu vel með nýjust upplýsingum því vísindamenn vinna hörðum höndum að greiningu veirunnar og því koma sífellt fram nýjar og ítarlegri upplýsingar.

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigt fólk til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti.

Rétt er að forðast náið samneyti við fólk sem er með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta.

Grímur nýtast best þegar þeir sem eru veikir nota þær en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða viðbragðsaðila í samfélaginu þegar þeir hlúa að veikum.

Forðastu að nudda augun, nefið og munninn, þar sem yfirborð og tæki gætu verið menguð. Nudd gæti fundið veirunni leið inn í líkamann og leitt til sýkingar.

Hóstaðu og hnerraðu í handakrikann til að koma í veg fyrir að dropar berist frá þér.

Haltu þig heima ef þú finnur fyrir flensueinkennum.

Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum, ætti að nota einnota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og þvo vel hendur.

Einkenni COVID-19 líkjast helst inflúensusýkingu. Hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta eru algengustu einkennin. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID-19 en þó þekkt, líkt og við inflúensu. Eins og inflúensa getur COVID-19 komið fram í alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.

Enn er ekki búið að skilgreina nákvæmlega áhættuhópa m.t.t. alvarlegrar sýkingar. Flestir sem létust á fyrstu vikum faraldursins voru aldraðir og með undirliggjandi sjúkdóma s.s. hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki eða lifrarsjúkdóma. Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (t.d. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu. Lítið virðist vera um alvarlegar sýkingar meðal barna en upplýsingar um sjúkdómsgang hjá börnum eru takmarkaðar enn sem komið er.

Engar upplýsingar hafa borist um sérstaka hættu fyrir barnshafandi konur eða hættu á fylgikvillum meðgöngu vegna COVID-19. Engar sérstakar ferðaráðleggingar eru í gildi fyrir barnshafandi konur hvað þetta varðar, umfram almennar ráðleggingar.

Nei. Sýklalyf hafa engin áhrif á veirur. Þau virka einungis á bakteríur. COVID-19 er veirusýking og því hafa sýklalyf engin áhrif. Enginn ætti að taka sýklalyf að eigin frumkvæði til að reyna að fyrirbyggja COVID-19 smit eða til að bregðast við einkennum sjúkdómsins. Sýklalyf á einungis að nota samkvæmt ráðleggingum lækna.

Nei, enn sem komið er hefur hvorki verið þróað bóluefni né lyf sem kemur í veg fyrir eða hefur áhrif á einkenni COVID-19.

En vísindamenn vinna að þróun bóluefnis og lyfjameðferðar.

Nei. Veiran sem veldur COVID-19 og sú sem olli SARS eru skyldar en ólíkar. SARS var banvænna en ekki jafn bráðsmitandi og COVID-19.

Meðgöngutími er tíminn sem líður frá því að einstaklingur smitast af veirunni þangað til einkenna verður vart. Meðgöngutími COVID-19 er á milli 1 og 14 dagar, en algengast er að hann sé í kringum fimm dagar. Þetta mat verður uppfært eftir því sem frekari upplýsingar berast.

Nei. Það eru engar vísbendingar um að gæludýr eins og hundar og kettir hafi smitast eða geti borið með sér veiruna sem veldur COVID-19.

Það er óljóst en svo virðist sem að þessi veira hagi sér eins og aðrar kórónaveirur. Rannsóknir benda til þess að kórónaveirur lifi frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga á yfirborði.

Ef þú heldur að yfirborð, eins og borðplata eða lyklaborð, hafi mengast, hreinsaðu þá yfirborðið með sótthreinsiefni til að drepa veiruna og verja þig. Hreinsaðu hendurnar með spíra og þvoðu þær vel með heitu vatni og sápu. Forðastu að snerta augu, nef og munn.

Einnig er fólk hvatt til að sýna aðgát þegar það snertir til dæmis handrið á fjölförnum stöðum, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðarhúna.

Nei. Líkurnar á að sýkt manneskja hafi handleikið sendinguna eru litlar og líkurnar á að smitast af pakka sem hefur verið fluttur langa leið, oft við aðstæður þar sem hita- og rakastig hefur sveiflast, eru afar litlar.

Ekki er hægt að leita að veirunni hjá einkennalausum ferðalöngum þar sem hún finnst ekki í vessum fyrr en einkenni koma fram. Hitamælingar og spurningalistar til farþega frá sýktum svæðum hafa verið notaðir í fyrri faröldrum með litlum sem engum árangri. Sóttkví þeirra sem hafa verið á áhættusvæðum og leit að veirunni ef einkenni koma fram er mun vænlegri til árangurs. Veikt fólk og fólk sem hefur umgengist veikt fólk er einnig hvatt til að gefa sig fram til að það geti fengið læknishjálp og ráð um hvernig hægt er að takmarka smithættu til annarra.

Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur (er einkennalaus). Einangrun á við sjúklinga með einkenni sjúkdóms. Hvort sem um sóttkví eða einangrun er að ræða þarf að takmarka umgengni við annað fólk, sjá nánar í leiðbeiningum til einstaklinga í sóttkví eða einangrun. Heimild sóttvarnalæknis til að grípa til slíkra ráðstafana er lögð fram í 12. grein sóttvarnalaga.

Hægt er að hafa samband við Rauða krossinn varðandi aðföng eftir þörfum. Allir sem staddir eru hér á landi en þurfa að vera í sóttkví eða einangrun í heimahúsi geta haft samband við Hjálparsíma Rauða krossins í símanúmerinu 1717 eða á netspjalli á www.1717.is. Þar er hægt að óska eftir aðstoð, leita stuðnings, fá upplýsingar og ræða við einhvern í trúnaði. Hjálparsíminn er opinn allan sólarhringinn og númerið er gjaldfrjálst.

• Þeir sem eru búsettir á Íslandi og eru þátttakendur í íslensku samfélagi er hættara við að smita út frá sér hér á landi ef þeir veikjast heldur en ferðamenn. Þetta gildir bæði um íslenska ríkisborgara og erlenda sem eru búsettir hér.

• Ef erlendir ríkisborgarar sem eru hér á ferðalagi gefa sig fram vegna veikinda eða tengsla við veikt fólk með COVID-19 verða þeir einnig settir í einangrun eða sóttkví.

• Hingað er ekki beint flug frá áhrifasvæðum í Asíu og ekki er til staðar kerfi sem getur rakið ferðir fólks eftir farþegalistum flugvéla. Þessi mál hafa verið í athugun. Nú þegar áhrifa COVID-19 er farið að gæta á svæðum í Evrópu þar sem beinar flugsamgöngur eru við Ísland þarf að endurmeta stöðuna.

Sóttvarnalæknir, í samráði við stjórnvöld, hefur vald til að beita ýmsum ráðum til að sporna við útbreiðslu farsótta, skv. sóttvarnalögum. Afar mikilvægt er að sóttvarnaviðbrögð séu í samræmi við áhættumat og vega þarf áhrif viðbragða á móti áhrifum farsóttarinnar. Sóttvarnalæknir, almannavarnir og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að ekki sé ástæða til að loka landinu nú. Mögulegt er að smit berist hingað með ferðamönnum en reynsla annarra Evrópulanda hefur sýnt að mesta smithættan er frá fólki með náin tengsl við íbúa landsins, þ.e. öðrum íbúum landsins sem smitast hafa af COVID-19 með einhverjum hætti. Ef landinu er lokað komast Íslendingar sem staddir eru erlendis ekki heim og öll aðföng og útflutningur stöðvast. Möguleikinn á þessu úrræði er í stöðugri endurskoðun í samræmi við áhættumat hverju sinni.

Ef áhættumat sóttvarnalæknis breytist á þann veg að greina þurfi áhættuhópa á landamærum með skipulegum hætti er unnt að taka hér upp tímabundið landamæraeftirlit og beina þá slíkum málum í viðeigandi farveg. Það getur þá falið í sér aðgerðir á borð við læknisrannsóknir, einangrun eða sóttkví á grundvelli hættumats eða heimila för einstaklinga inn í landið með upplýsingum um hvert það eigi að snúa sér ef einkenni koma fram.

Á þessum tímapunkti hefur ekki þótt ástæða til að loka landinu né bendir áhættumat til þess að upptaka tímabundins landamæraeftirlits myndi bera árangur við að hefta útbreiðslu veirunnar. Afar mikilvægt er að sóttvarnaviðbrögð séu í samræmi við áhættumat og vega þarf áhrif viðbragða á móti áhrifum farsóttarinnar.

Að sama skapi er brýnt að fylgst sé grannt með stöðu mála og að undirbúningur þeirra aðgerða sem hér hafa verið nefndar sé hafinn svo hægt sé að bregðast við með skjótum hætti ef til þess kæmi. Möguleikinn á þessum úrræðum þarf að vera og er í stöðugri endurskoðun í samræmi við áhættumat á hverjum tíma. Í því sambandi er mikilvægt að hafa sérstöðu Íslands í huga, þá sérstaklega m.t.t. smæðar landsins og innviða til að takast á við útbreiðslu faraldar á borð við COVID-19.

Einstaklingur sem hefur umgengist veikan einstakling með COVID-19 hefur verið útsettur. Með því er átt við að hafa verið innan við 1–2 metra frá veikum einstaklingi meðan hann var með hósta eða hnerra, eða hafa snert hann, sofið í sama rúmi, dvalið í sama húsnæði eða verið í samafarartæki. Heilbrigðisstarfsmenn sem sinna sjúklingum með COVID-19 hafa líka mögulega verið útsettir en notkun hlífðarbúnaðar við slík störf minnkar verulega smithættu. Einkenni COVID-19 koma fram innan 14 daga frá smiti, svo aðeins þeir sem hafa verið útsettir innan 14 daga eru álitnir í hættu á að veikjast.

26 einstaklingar hafa verið greindir með COVID-19 á Íslandi. Þeir eru allir í sóttkví og búið að rekja smitleið þeirra. Ef þú hefur verið á ferðalagi undanfarna 14 daga á svæðum þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp eða á einhvern hátt komist í snertingu við einstakling með sjúkdóminn, en hefur engin einkenni sjúkdómsins nú, er þér bent á að hafa samband við [email protected] til að fá nánari leiðbeiningar um smitgát og eftirlit. Sóttvarnalæknir mælist til þess að þú haldir þig heima í 14 daga eftir að þú fórst frá helstu áhættusvæðum

Neytendastofa birti svar við þessu á vef sínum:

Ferðamenn eiga alltaf rétt á að afpanta pakkaferð, hvenær sem er áður en ferð er farin. Seljandi á þó rétt á að halda eftir þóknun eða staðfestingargjaldi í samræmi við skilmála ferðarinnar. Á því er undantekning ef óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður eru á ferðastað sem geta t.d. verið farsótt eða sjúkdómar. Í þeim tilvikum á ferðamaður rétt á að fá fulla endurgreiðslu. Þessar aðstæður þarf að meta í hverju tilviki út frá aðstæðum á ferðastað.

Neytendastofa hefur ekki tekið stjórnvaldsákvörðun þar sem tekin er afstaða til þess hvenær sjúkdómar á ferðastað teljist óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður. Á þessu stigi er því ekki hægt að svara þeirri spurningu með afgerandi hætti. Leiða má að því líkur að ef heilbrigðisyfirvöld vara almennt við ferðalögum til viðkomandi staðar eða ef ferðabann er í gildi, sé um að ræða óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður.

Ef aðstæður ferðmanns eru þannig að honum er af heilsufarsástæðum ráðlagt að ferðast ekki til viðkomandi staðar, þrátt fyrir að ekki sé litið svo á að óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður séu þar, getur ferðamaður athugað forfallatryggingar sínar.

Ákveði ferðaskrifstofa að aflýsa ferð ber henni að endurgreiða ferðamönnum að fullu.