Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri hefur verið gagnrýnd að undanförnu fyrir að sitja sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um leið og hún gegnir embætti borgarstjóra. Þá hafa laun hennar líka verið í umræðunni en þau nema nú tæpum fjórum milljónum á mánuði. Landsfundur sambandsins verður á fimmtudag og spurningin er hvað Heiða Björg ætlar að gera, klára kjörtímabilið til ársins 2026 eða stíga til hliðar. Heiða Björg var gestur Kastljós í kvöld.
Ljóðalestur í heitum potti og orð rituð á rúllugardínu eru meðal viðburða hátíðarinnar Skáldasuð sem við heimsækjum síðar í þættinum.
24 stærstu sveitarfélög landsins keppa sín á milli í skemmtilegum spurningaleik. Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir stýra þættinum. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur Bjarni Guðnason. Útsendingu stjórnar Helgi Jóhannesson.
Hér eigast við lið Kópavogs og Mosfellsbæjar. Í liði Kópavogs eru Gísli Tryggvason, Kristján Guy Burgess og Helga Jónsdóttir en fyrir Mosfellsbæ keppa Kolfinna Baldvinsdóttir, Sigurjón M. Egilsson og Þórður Björn Sigurðsson.
Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Ingunn Ásdísardóttir er gestur í Kilju vikunnar. Hún ræðir um bók sína sem nefnist Jötnar hundvísir og fékk Fjöruverðlaunin nýskeð. Þetta er afar forvitnileg rannsókn á hlutverki jötna í norrænni goðafræði. Shaun Bythell rekur fornbókaverslun í smábæ á Skotlandi og hefur skrifað um það bækur sem hafa komið út á íslensku. Hann ræðir við okkur um bækurnar og bóksöluna og má teljast afar skemmtilegur en nokkuð kaldhæðinn viðmælandi. Almanak Þjóðvinafélagsins hefur komið út allar götur síðan 1874 og gerir enn - við fræðumst um útgáfuna hjá Arnóri Gunnari Gunnarssyni ritstjóra. Ljóðskáldið Ragnheiður Lárusdóttir segir frá bók sinni Veður í æðum, þar fjallar hún meðal annars um eiturfíkn dóttur sinnar. Bergþóra Snæbjörnsdóttir rithöfundur skoðar uppáhaldsbækur sínar með okkur. Gagnýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Í sama strauminn: Stríð Pútíns gegn konum eftir Sofi Oksanen, Leiðin í hundana eftir Erich Kästner og Óli K. eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur.
Íslensk heimildarþáttaröð í þremur hlutum um hönnun á Íslandi og hátíðina HönnunarMars sem var haldin í Reykjavík í tíunda sinn árið 2018. Við kynnumst lífi og starfi hönnuða í dag og köfum ofan í þessa fjörugu hátíð sem tekur yfir höfuðborgina í mars á hverju ári. Dagskrárgerð: Janus Bragi Jakobsson, Kolbrún Vaka Helgadóttir og Tinna Ottesen.
Í fyrsta þætti kynnumst við hönnunarteyminu Studio Trippin. Þær Kristín Karlsdóttir og Valdís Steinarsdóttir eru nýútskrifaðir hönnuðir og taka þátt í HönnunarMars í fyrsta sinn. Þær hafa nú þegar vakið athygli fyrir loðnar, væmnar og vellyktandi vörur sem þær hanna úr íslenska hestinum. Markmið þeirra er að fullnýta hráefni sem hingað til hefur verið hent við kjötvinnslu. Einnig förum við í bíltúr á Litla-Hraun með Búa Bjarmari Aðalsteinssyni, vöruhönnuði, sem stýrir verkefninu Stússað í steininum, sem miðar að því að efla starfsgetu fanga á Litla-Hrauni.

Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
.
Kveikur er fréttaskýringaþáttur með fjölbreyttar áherslur. Ritstjórn og dagskrárgerð: Arnar Þórisson, Árni Þór Theodórsson, Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Ingvar Haukur Guðmundsson, Jóhann Bjarni Kolbeinsson, Kristín Sigurðardóttir, og Tryggvi Aðalbjörnsson.
Jörð skelfur í eldstöðvakerfi Ljósufjalla á Vesturlandi. Kveikur spyr hvort gæti gosið þar og skoðar sögu eldvirkni á Snæfellsnesgosbeltinu.
Í seinni hluta þáttarins er fjallað um hávaða í nýbyggingum sem standa við miklar umferðargötur. Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að hann geti skaðað heilsu fólks.
Þriðja þáttaröðin um daglegt líf og hættulegt starf lögregluþjóna í Malmö og ógnvekjandi andrúmsloftið sem gerir stöðugt erfiðara að aðskilja vinnuna og einkalífið. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Bresk glæpaþáttaröð frá 2022 byggð á sönnum atburðum. Samfélagið í námuþorpi á Mið-Englandi sundrast þegar tveir íbúar þess finnast myrtir. Lögregluna grunar að morðin tengist yfirstandandi námuverkfalli. Aðalhlutverk: David Morrissey, Lesley Manville og Robert Glenister. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 16 ára.