24 stærstu sveitarfélög landsins keppa sín á milli í skemmtilegum spurningaleik. Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir stýra þættinum. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur Bjarni Guðnason. Útsendingu stjórnar Helgi Jóhannesson.
Fljótsdalshérað og Garðabær keppa í undanúrslitum.
Í garðinum með Gurrý sýnir Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur áhorfendum réttu handtökin við garðyrkjustörfin og fer í áhugaverðar heimsóknir. Dagskrárgerð: Björn Emilsson.
Heimsókn í garð Margrétar Frímannsdóttur. Gróðursetning skrautplantna við inngang Garðyrkjuskólans á Reykjum.
Ferðaþættir þar sem leikarinn Örn Árnason bregður sér í hlutverk leiðsögumanns og ferðast um áhugaverða staði við þjóðveginn eða örskammt frá. Frikki Frikk, tökumaður og ljósmyndari, er fylgdarsveinn Arnar í þessum ferðum og saman sýna þeir fram á að stundum er óþarfi að leita langt yfir skammt. Léttir þættir þar sem fjallað er um náttúru, sögu og menningu.
Í þættinum förum við frá Ólafsvík að Svörtuloftum. Við skoðum fallega fjárrétt í Ólafsvík, heimsækjum Svöðufoss, aftökustað Björns ríka, Skálasnaga og Snæfellsjökul.

Karla er 8 ára kjúklingur, sem hefur það að markmiði að halda öllum ánægðum, svo lengi sem það kemur ekki niður á lífi hennar. Hún elskar skólann sinn og alla vini sína. Hún leggur hart að sér til að þóknast öllum, en stundum ganga hlutirnir ekki alveg eins og áætlað var. Í þessum þáttum eru félagsleg samskipti og tilfinningar þeim tengd könnuð út frá heimi krakkanna. Hvað er rétt og hvað er rangt? Getur maður átt fleiri en einn besta vin?
Fjölskyldu- og skemmtiþáttur frá 2017-2018. Jón Jónsson fær til sín hressar fjölskyldur sem etja kappi í bráðfyndnum spurningaleikjum og þrautum. Dagskrárgerð: Rúnar Freyr Gíslason. Upptökustjórn: Vilhjálmur Siggeirsson.
Þættir sem fjalla um hringrásarhagkerfið, þar sem hlutir og hráefni fara í hring og eins manns rusl verður annars fjársjóður. Umsjón: Sigríður Halldórsdóttir og Freyr Eyjólfsson. Framleiðsla: Republik.
Hvað er hringrásarhagkerfi? Við fáum svar við því. Einnig veltum við fyrir okkur verðmætunum sem eru fólgin í öllum textílnum í kringum okkur og hittum hugmyndaríkt fólk sem leitar leiða til þess að nýta hann vel og lengi.
Heimildarmynd frá 2023 eftir Rut Sigurðardóttur. Ungt par teflir skuldastöðu sinni og sambandi í tvísýnu er þau feta í fótspor forfeðra sinna og gera út trilluna Skuld á handfæraveiðum. Framtíð þessarar elstu atvinnugreinar þjóðarinnar er óviss og virðist sem einungis einstaka sérvitringur stundi þetta basl, eða hvað? Fylgst er með trillunni Skuld á strandveiðivertíð, áhafnarmeðlimunum Kristjáni og Rut og lífinu á höfninni meðan á vertíð stendur.

Helstu fréttir dagsins af innlendum og erlendum vettvangi. Alla daga, árið um kring.

Íþróttafréttir.
Önnur þáttaröð þessara bresku spennuþátta um rannsóknarlögreglukonuna Rachitu Ray. Þegar hjúkrunarfræðingur og foringi alræmdra glæpasamtaka eru myrt í skotárás við sjúkrahús í Birmingham tekur Ray við rannsókn málsins. Í fyrstu lítur þetta út fyrir að vera átök glæpagengja en eftir því sem rannsókninni vindur áfram kemur í ljós að málið er mun margslungnara. Aðalhlutverk: Parminder Nagra, Gemma Whelan, Patrick Baladi og Jan Puleston-Davies. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Önnur þáttaröð þessara bresku gamanþátta um parið Peter og Katy sem snúa heim til Englands úr sumarfríi í Frakklandi með sýrlenska flóttamanninn Sami í bílskottinu, þeim óafvitandi. Þau leyfa Sami að búa hjá sér á meðan hann sækir um hæli á Englandi og reynir að aðlagast lífinu á nýjum stað. Aðalhlutverk: Rufus Jones, Rebekah Stanton og Youssef Kerkour. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Fjórða þáttaröð þessara þýsku glæpaþátta um lögreglumanninn Gereon Rath frá Köln sem rannsakar undirheima Berlínarborgar á fjórða áratug síðustu aldar. Kreppan mikla er skollin á og nasistar á leið til valda. Aðalhlutverk: Volker Bruch, Liv Lisa Fries og Lars Eidinger. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 16 ára.
Önnur þáttaröð þessara dönsku gamanþátta. Lífið í sinfóníuhljómsveit hjá stórri danskri menningarstofnun er ekki alltaf dans á rósum. Hljómsveitarstjórinn Jeppe forðast ágreining eins og heitan eldinn, en það reynist oft erfitt þar sem sérvitri og ósveigjanlegi klarinettuleikarinn Bo lendir sífellt í árekstrum við stjórnendur og annað tónlistarfólk. Aðalhlutverk: Frederik Cilius Jørgensen, Rasmus Bruun og Neel Rønholt. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.

Helstu fréttir dagsins af innlendum og erlendum vettvangi. Alla daga, árið um kring.