Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hér á landi virðist það ekki stoppa Íslendinga þegar kemur að því að veðja. Við erum raunar sú þjóð sem veðjaði næst mest allra Evrópuríkja á síðasta ári. Einungis Íslenskar getraunir hafa sérleyfi til að bjóða upp á íþróttaveðmál á Íslandi en þrátt fyrir það fer stór og hratt vaxandi hluti þessara veðmála fer fram utan landsteinanna. Skiptar skoðanir eru á hvort leyfa eigi starfsemi veðmálafyrirtækja hér á landi. Gestir Kastljós eru Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Pétur Hrafn Sigurðsson upplýsingafulltrúi Íslenskrar getspár. Á Torginu á þriðjudag verður rætt um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi; Vill þjóðin takmarka eða auka aðgengi að áfengi? Sigríður Halldórsdóttir spurði vegfarendur í Skeifunni um málið.
Fréttatengdur skemmtiþáttur þar sem keppendur spreyta sig á misalvarlegum spurningum sem sóttar eru í glóðvolgar fréttir og gamlar í bland. Stjórnandi og spyrill er Kristjana Arnarsdóttir og henni til halds og trausts er fréttamaðurinn Birta Björnsdóttir. Framleiðsla: RÚV.
Keppendur eru Ólöf Ragnarsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Björn Þorfinnsson.
Sænskur matreiðsluþáttur í umsjón Anne Lundberg og Pauls Svensson. Þau grænvæða vinsæla rétti og skora á kokka að vinna með nýstárlegt hráefni. Jurtaríkið er einungis nýtt að hluta til matar og því er þar enn falin matarkista. Þau ferðast um Skán í leit að hinu óþekkta græna hráefni.
Árið 2016 voru fimmtíu ár síðan Ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar og á þessum fimmtíu árum hefur það sýnt ógrynni af efni allstaðar að af landinu. Í 50 ár eru níu sjónvarpsþættir sem sendir voru út frá vel völdum stöðum á landinu sumarið 2016 þar sem rifjaðar voru upp sögur og svipmyndir af sjónvarpssögu viðkomandi landshluta. Umsjónarmenn: Gísli Einarsson og Guðrún Gunnarsdóttir. Dagskrárgerð: Karl Sigtryggsson.
Íslensk heimildarþáttaröð þar sem við heyrum einstakar sögur fólks sem hefur látið gott af sér leiða á óeigingjarnan hátt í gegnum starf sitt eða daglegt líf. Í hverjum þætti eru sagðar sögur tveggja einstaklinga sem hafa lagt sig fram við að bæta og efla samfélagið á jákvæðan hátt. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir.
Við kynnumst félagsfræðingnum Ragnheiði Sverrisdóttur, eða Jonnu, sem brennur fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og gengur ávallt skrefinu lengra til að hjálpa þeim sem á þurfa að halda. Við hittum einnig Örlyg, sem hefur undanfarin ár heiðrað náttúruna með því að plokka nokkur tonn af rusli og verið innblástur fyrir aðra til að hreinsa í kringum sig.
Nýir íslenskir viðtalsþættir þar sem skyggnst er inn í líf fólks sem nýtur eftirlaunaáranna á aðdáunarverðan og jákvæðan hátt. Í hverjum þætti fáum við innsýn í líf einnar manneskju, heyrum sögu hennar, lífssýn og lærdóm sem hún hefur dregið af lífinu, auk þess sem við ræðum þær áskoranir sem fylgja því að eldast. Dagskrárgerð: Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir. Framleiðsla: Elín Sveinsdóttir.
Auri Aurangsari Hinriksson er engin venjuleg kona á níræðisaldri. Hún er fædd og uppalin á Srí Lanka en flutti til Ísafjarðar á níunda áratugnum með eiginmanni sínum, Þóri Hinrikssyni heitnum. Auri hefur verið örlagavaldur í lífi margra því hún hefur í yfir þrjátíu ár aðstoðað fólk sem leitar uppruna síns á Srí Lanka. Hún var lengi kennari á Ísafirði og lauk doktorsprófi í ensku sjötug að aldri.
Fjölskyldu- og skemmtiþáttur frá 2017-2018. Jón Jónsson fær til sín hressar fjölskyldur sem etja kappi í bráðfyndnum spurningaleikjum og þrautum. Dagskrárgerð: Rúnar Freyr Gíslason. Upptökustjórn: Vilhjálmur Siggeirsson.
Dana er 9 ára stelpa sem elskar risaeðlur. Líf hennar breytist til frambúðar þegar hún fær gefins handbók um risaeðlur, sem kennir henni ekki aðeins nýja hluti um dýrin, heldur gefur henni ofurkrafta sem gera henni kleift að sjá fyrir sér risaeðlur í raunveruleikanum.
Sænskir þættir sem fjalla um ævintýri sem eiga sér stað í sumarbúðum í Svíþjóð. Þar eru foringjarnir ekki alveg eins og fólk er flest og forvitin börn lenda í fjörugum aðstæðum, sem innihalda meðal annars boga, brjálaða geitunga og bjarnargildrur!
Skemmtiþáttur um íslenska tungu í umsjón Braga Valdimars Skúlasonar og Vigdísar Hafliðadóttur. Þátttakendur etja kappi í fjölbreyttum leikjum og þrautum. Framleiðsla: Skot í samstarfi við RÚV.
Keppendur eru Kjartan Darri Kristjánsson, Ólafur Ásgeirsson, Björn Kristjánsson og Sandra Barilli.
Gísli Marteinn tekur á móti góðum gestum á föstudagskvöldum í vetur og fer með þeim yfir helstu atburði vikunnar í stjórnmálum, menningu og mannlífi. Persónur og leikendur koma í spjall og brakandi fersk tónlistaratriði koma landsmönnum í helgarstemninguna. Stjórn útsendingar: Ragnar Eyþórsson.
Breskur sakamálaþáttur um hinn slungna séra Brown sem er ekki bara kaþólskur prestur heldur leysir glæpsamleg mál á milli kirkjuathafna. Aðalhlutverk: Mark Williams.
Þáttaröðin er hluti af þemanu Sakamálasumar.
Gamansöm sakamálamynd frá 2019 í leikstjórn Rians Johnson. Rannsóknarlögreglumaðurinn Benoit Blanc rannsakar dularfullt andlát þekkts glæpasagnahöfundar, Harlans Thrombley, sem finnst látinn á heimili sínu rétt eftir 85 ára afmæli sitt. Hin sérkennilega fjölskylda hins látna liggur öll undir grun. Aðalhlutverk: Daniel Craig, Jamie Lee Curtis og Toni Collette. Myndin er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.