Dagskrárliður er ekki aðgengilegur lengur

Birt þann 29. desember 2017
Aðgengilegt á vef til 29. mars 2018

Morgunútvarpið - Morgunútvarpið 29.desember

Í kjölfar hörmulegs rútuslyss við Kirkjubæjarklaustur þar sem einn farþegi lést og 12 slösuðust alvarlega hefur komið í ljós að ekki allir farþegar voru í beltum þrátt fyrir að bílbelti hafi verið í hverju sæti í rútunni. Samkvæmt lögum ber farþegum að spenna bílbelti og bílstjóra eða leiðsögumanni er skylt að upplýsa farþega um þá skyldu. Því er eðlilegt að ræða ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja á öryggi farþega og hvort rétt sé að skerpa á öryggismálum í farþegaflutningum. Við fáum Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóra Kynnisferða, til að ræða þetta við okkur. Fram hefur komið að jólagjöfin í ár var svokallað Sous Vide tæki, þar sem matur er hitaður í lofttæmdu plasti í vatnsbaði við hægan hita. Ekki eru allir jafn spenntir fyrir plastsuðunni en stór hópur heldur því fram að þetta sé eldamennska sem geti ekki klikkað. Við fáum lækninn í eldhúsinu, Ragnar Frey Ingvarsson, í heimsókn, en hann er flinkur plastsuðukokkur. Við spyrjum hann líka um það hvað maður eigi nú að elda í áramótamatinn. Í fréttum vikunnar förum við yfir það eftirminnilegasta á árinu hjá þeim Loga Bergmann, sem nú getur aftur titlað sig fjölmiðlamann því samkomulag náðist milli Árvakurs og 365 miðla í gær um afléttingu á lögbanni á störf hans, og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur lögfræðing, sem var aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Freyr Gígja Gunnarsson fer yfir það helsta úr heimi ríka og fræga fólksins eins og alltaf á föstudögum.