Dagskrárliður er ekki aðgengilegur lengur

Birt þann 10. janúar 2017
Aðgengilegt á vef til 10. apríl 2017

Morgunútvarpið - Flosi Þorgeirsson glímir við þunglyndi, Stjórnarandstaðan,

Tónlistarmaðurinn Flosi Þorgeirsson, sem meðal annars spilar með hljómsveitinni HAM, hefur lengi glímt við mjög alvarlegt þunglyndi. Á gamlárskvöld rankaði hann við sér eftir að hafa fallið í andlegt kviksyndi, eins og hann orðar það á Facebook, og vart þvegið sér eða borðað í marga daga. Í dag einblínir hann á hvernig hann getur náð bata. Sjómannaverkfallið hefur nú staðið yfir frá því fyrir jól. Sjómenn fjölmenntu við karphúsið í gær þar sem samningafundur var til að sýna samstöðu með sinni samninganefnd og mótmæla kjörum sínum. Þórhallur Julian Dagsson, einn skipuleggjanda mótmælanna, heimsótti þáttinn en hann segir sjómenn ætla ekki að mæta til vinnu verði sett lög á verkfallið. Þingmennirnir Svandís Svavarsdóttir úr VG og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mæta til okkar og ræða um nýju ríkisstjórnina út frá sjónarhóli stjórnarandstöðunnar. Við spurðum meðal annars um hvort vantraust verði lagt fram á ríkisstjórnina á næstunni. Grétar Eyþórsson, stjórnmálafræðingur, fór yfir pólitíska sviðið og hvers ný ríkisstjórn má vænta á næstu dögum og mánuðum. Stjörnu-Sævar (Helgi Bragason) flutti sinn vikulega pistil. Nokkuð hefur verið fjallað um vanlíðan ungs fólks, en þunglyndiseinkenni og kvíði hafa aukist meðal þess aldurshóps. Ein af þeim lausnum sem lagðar hafa verið fram er að þjálfa núvitund hjá ungu fólki og flétta það jafnvel inn í skólastarf. Við ræddum við Bryndísi Jónu Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá Núvitundarsetrinu og kennara í Flensbrgarskólanum. Þegar eftirhátíðablúsinn og skammdegisþunglyndið læðist upp að manni í janúar er ekkert betra en að ralla frá sér leiðindin. Nema ef vera skyldi að ralla í þágu góðs málefnis, en gullið tækifæri til þess gefst í kvöld þegar Emilíana Torrini, Hildur, Hjálmar og Emmsjé Gauti spila á góðgerðartónleikum í þágu Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra. Við ræddum húllumhæið við Gauta Þey Másson.