Dagskrárliður er ekki aðgengilegur lengur

Birt þann 17. júlí 2016
Aðgengilegt á vef til 15. október 2016

Að horfa á tónlist - Rínargullið(2 af 11)

Rínargullið er fyrsti hluti af fjórum í lengsta tónverki sögunnar sem Wagner nefndi Der Ring des Nibelungen eða Hring Niflungsins. Wagner byggði verkið að stórum hluta til á þeim heiðna goðsagnaarfi sem varðveittist á Íslandi. Í þættinum eru leikin sýnishorn úr verkinu undir stjórn mismundandi hljómsveitarstjóra, m.a. Christian Thielemanns sem haldið hefur um tónsprotann á undanförnum sumarhátíðum, í Hhátíðaleikhúsi Wagners, við flutning á Hringnum. Thielemann tók við sem stjórnandi hinnar virtu sinfóníuhljómsveitar í Dresden árið 2012, en það var hljómsveitin sem Wagner stjórnaði hvað lengst. Marek Janowski stýrði Staatskapelle hljómsveitinni í Dresden í fyrstu stafrænu upptökunni af Hring Niflungsins, en upptakan fór fram árið 1980 og valin er hans útgáfa í þættinum á hinu fræga Es-dúr upphafi verksins. Enski tónlistarfræðingurinn og Wagner-sérfræðingurinn, Deryck Cooke, greindi leiðarstefin í Hringnum og flokkaði í stefja-fjölskyldur og hann fær að taka til máls í þættinum. Flest tóndæmin eru úr hinum fræga Solti-Hring en þessi fræga upptaka fór fram í Vínarborg á árunum 1958 til 1965 undir tónlistarstjórn Sir George Solti. Cooke gerði síðan sína stefjagreiningu árið 1967 og fylgdi hún síðan þessari frægu metsölu upptöku bresku hljómplötuútgáfunnar Decca. Ekki nóg með það heldur skrifaði upptökustjóri verksins, sá frægi John Culshaw, heila bók um upptökuna, en hún heitir Ring Resounding. Í þættinum er gerð textagreining á hinu illskiljanlega upphafi verksins: „Weia! Waga! - Woge, du Welle, - walle zur Wiege! - Wagalaweia! -Wallala – weiala - weia!“ Sjaldgæfasta tóndæmið í þættinum er frá uppsetningu í Bayreuth, frá árinu 1955 sem er fyrsta stereó upptakan sem gerð var af Hringnum; Joseph Keilberth stjórnaði þá Hátíðahljómsveitinni í Bayreuth. Þessi útgáfa verksins, var ekki gefin út fyrr en 50 árum eftir að hún var tekin upp, vegna ýmiskonar lagaflækja. Einnig er leikin upptaka þar sem James Levine stjórnar hljómsveitinni í Metropolitan óperunni.