Svartur föstudagur

Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir

Svartur föstudagur

01.12.2015 - 10:39

Höfundar

Það er fyrir löngu orðin hefð vestanhafs að hleypa jólaversluninni af stað fyrir alvöru á fjórða föstudegi nóvembermánaðar, nánar tiltekið daginn eftir Þakkargjörðarhátíðina. Þessi föstudagur hefur af einhverjum ástæðum fengið nafnið „Black Friday“ eða svartur föstudagur. Stefán Gíslason fjallaði um þetta fyrirbæri í Samfélaginu.

 

 

Á allra síðustu árum hefur þessi siður borist víðar um heiminn og nú virðist hann vera kominn til Íslands af fullum þunga, meira að segja með svo miklum þunga að íslenskir verslunareigendur hafa ekki einu sinni gefið sér tíma til að þýða nafnið á íslensku. Síðasta föstudag var „Black Friday“ sem sagt haldinn hátíðlegur í fjölmörgum íslenskum verslunum með tilheyrandi afsláttartilboðum.

Gríðarleg velta

„Black Friday“ hefur lengi verið stærsti verslunardagur ársins í Bandaríkjunum, en svo virðist sem eitthvað sé að draga úr veltunni þennan dag og að innkaupin séu að dreifast á lengri tíma og færast úr verslunum yfir á netið. Árið 2014 var til dæmis fyrsta árið síðan í efnahagshruninu 2008 þar sem heildarsalan yfir „Black Friday helgina“ minnkaði frá árinu á undan. Árið 2014 keyptu kaupþyrstir Bandaríkjamenn þannig 11% minna þessa helgi en árið áður, talið í dollurum. Heildarveltan var sem sagt ekki nema 50,9 milljarðar dollara, en hafði verið 57,4 milljarðar árið áður. Þessar tölur eru byggðar á skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið meðal viðskiptavina, en samkvæmt þeim keypti hver viðskiptavinur að meðaltali vörur fyrir 380,95 dollara þessa helgi 2014, eða sem samsvarar rétt rúmlega 50 þúsund íslenskum krónum. Nú bíður maður bara spenntur eftir tölum fyrir árið 2015.

 Fólk deyr í hamaganginum

Þeir sem nota Internetið mikið hafa varla komist hjá því að sjá þar átakanleg en ef til vill líka pínulítið fyndin myndbönd af hegðun bandarískra neytenda á svörtum föstudegi. Það virðist sem sagt tíðkast að fólk troðist inn í stórmarkaði þegar dyrnar opnast einhvern tímann á aðfaranóttu föstudagsins, eða jafnvel á fimmtudeginum þó að Þakkargjörðarhátíðin sé reyndar enn í gangi, og að þegar inn sé komið svífist fólk einskis til að ná síðustu ódýru leikjatölvunni, örbylgjuofninum eða plastdúkkunni. Samkvæmt upplýsingum á hinni mjög svo sérstöku heimasíðu blackfridaydeathcount.com hafa 7 manns látið lífið í hamagangi í bandarískum verslunum þennan dag frá því á árinu 2006 og nákvæmlega 98 þurft að leita læknis vegna meiðsla. Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart, því að samkvæmt breskri rannsókn eru u.þ.b. 15% venjulegra viðskiptavina tilbúin að slást við aðra viðskiptavini og starfsfólk ef í húfi er afsláttur upp á 50% eða meira. Á heimasíðu Independent í Bretlandi í síðustu viku var fólki ráðlagt að vera með nauðsynlegan hlífðarbúnað þegar það færi í búðir á nýliðnum föstudegi, enda væri þetta „ekki rétti dagurinn til að vera á háum hælum“, eins og það var orðað á vefsíðunni. Já, vel á minnst, „Black Friday“ er auðvitað kominn til Bretlands, ekki síður en Íslands.

 Afslættirnir blekkja

Eflaust ganga innkaupin langoftast friðsamlega fyrir sig á svörtum föstudegi, bæði austanhafs og vestan, sérstaklega þó á netinu. Engu að síður er full ástæða til að velta fyrir sér skuggahliðum þessa dags. Ein skuggahliðin er sú að afslættirnir eru oft ofmetnir, þannig að kannski gerir fólk ekki eins góð kaup og það heldur. Og jafnvel þótt einhver einn hlutur sé keyptur á feykigóðum afslætti vilja gjarnan aðrir mun óhagstæðari slæðast með, „fyrst maður er nú byrjaður að versla á annað borð“, eins og það er stundum orðað. Vestanhafs þykjast menn líka hafa séð þess dæmi að hluti af þeim vörum sem seldar eru þennan dag séu framleiddar sérstaklega til þess arna og hafi sloppið við eitthvað af því gæðaeftirliti sem gildir fyrir sams konar vöru almennt. Hvorug þessara skuggahliða skiptir kannski verulegu máli í umhverfislegu tilliti og því verða þær ekki gerðar frekar að umtalsefni hér. Þriðja skuggahliðin varðar umhverfið hins vegar miklu. Það liggur sem sagt fyrir að a.m.k. einhver hluti neytenda kaupir meira þennan dag en hann hefur not fyrir. Krónurnar sem sparast vegna afslátta eru þá fljótar að hverfa og þegar upp er staðið hafa bæði kaupandinn og Móðir Náttúra tapað á viðskiptunum. „Black Friday“ er sem sagt dagur sóunar í lífi margra, bæði austanhafs og vestan. Í íslensku og evrópsku samhengi má segja að „Black Friday“ hafi komið á versta tíma þetta árið hvað þetta varðar, því að síðasta vika var einmitt Evrópska nýtnivikan. Reykjavíkurborg og fleiri aðilar efndu til ýmissra viðburða í þessari nýliðnu viku til að vekja athygli á mikilvægi þess að draga úr sóun. Og á sama tíma kepptust einhverjir íslenskir neytendur við að sóa hluta af peningunum sínum í eitthvað sem þá vanhagaði ekki um. Engin leið er að segja til um það, án rannsókna, hversu margir neytendur fóru yfir strikið í íslenskum verslunum á föstudaginn, en svo aftur sé vitnað í breskar rannsóknir óttuðust 10% breskra neytenda, sem spurðir voru í síðustu viku, að þeir myndu eyða um efni fram þennan dag. Hugsanlega er yngra fólk í meiri hættu en þeir sem eldri eru, en í aldurshópnum 18-34 ára höfðu 19,4% áhyggjur af þessu sama.

Neysla sem kostar

Innkaup umfram þarfir eru ekki einkamál þess sem kaupir. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að minna á að í dag hefst einmitt loftslagsráðstefnan COP21 í París. Þar þurfa þjóðir heims nauðsynlega að ná samkomulagi um verulegan og skjótan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og er jafnvel haft á orði að þetta sé síðasta tækifærið til að koma í veg fyrir að meðalhitastig á jörðinni hækki um meira en 2°C og loftslagsbreytingar af mannavöldum fari þar með endanlega úr böndunum. Í þessum málum þurfa stjórnvöld vissulega að draga vagninn, en hver einasti jarðarbúi ber samt ábyrgð á sínum hluta losunarinnar.

Óþarfakaup

Þegar talað er um losun gróðurhúsalofttegunda frá daglegu amstri venjulegs fólks kemur heimilisbíllinn yfirleitt fyrst upp í hugann, enda ganga flestir bílar á Íslandi enn þann dag í dag fyrir jarðefnaeldsneyti sem er þeirrar náttúru að fyrir hvern lítra sem brennt er sleppa 2,3-2,7 kíló af koltvísýringi út í andrúmsloftið. En bíllinn er ekki eini sökudólgurinn því að næstum allt sem við kaupum hefur líka stuðlað að losun þar sem það var framleitt eða á leið sinni þaðan til okkar. Og í þokkabót á það eftir að stuðla að enn meiri losun á meðan við notum það og þegar það verður að úrgangi að notkun lokinni. Óþarfi, hvaða nafni sem hann nefnist, er versti sökudólgurinn því að öll sú losun sem hann hefur valdið er eðli málsins samkvæmt alveg óþörf. Í hvert sinn sem við kaupum óþarfa leggjum við okkar af mörkum til verri lífsskilyrða fyrir okkur sjálf, fjölskyldur okkar, vini, annað fólk, aðrar lífverur og síðast en ekki síst þá sem okkur þykir vænst um, nefnilega börnin okkar og afkomendur þeirra.

 Hver á mesta draslið á endanum?

Hvers vegna í ósköpunum kaupir fólk þá óþarfa, annað hvort á svörtum föstudegi eða einhverjum öðrum degi? Óþarfi lætur okkur ekki líða betur og peningarnir sem við reiðum af hendi fyrir hann eru fengnir í skiptum fyrir tíma sem við hefðum getað notað sjálfum okkur og okkar nánustu til miklu meira gagns og gleði. Líður einhverjum í alvöru betur ef hann á fullar geymslur af gagnslausum hlutum? Eða erum við kannski þátttakendur í einhverri keppni? Við þessum spurningum er kannski ekki til neitt einfalt svar, en svarið gæti þó hugsanlega falist í þessari limru, sem ég get ekki stillt mig um að láta fljóta með í lokin:

Strax í bernsku keppnin harða hefst

um hagvöxt, bara um leið og færi gefst.

Og mörgum liggur á,

því mótið vinnur sá

sem á mest af drasli þegar hann drepst.