Lúpínusláttur ber árangur

12.11.2015 - 21:30
Mynd með færslu
Reitur þar sem ekkert var gert.  Mynd: Náttúrustofa Vesturlands - Facebook
Niðurstöður mælinga í tilraunareitum staðfesta að árangur hefur náðst í útrýmingu á ágengum plöntutegundum í Stykkishólmi, þó mismikill eftir tegundum. Stykkishólmsbær, í samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands, hefur undanfarin ár unnið að því útrýma ágengum plöntutegundum í bæjarlandinu, lúpínu, skógarkerfli, Spánarkerfili og risahvönn.

Mestur árangur hefur náðst gegn lúpínu, útbreiðsla hennar hefur dregist mikið saman og eru svæði sem áður voru þakin lúpínu á góðri leið með að breytast í graslendi. Þetta kom fram í erindi Róberts A. Stefánssonar, forstöðumanns Náttúrustofu Vesturlands á líffræðiráðstefnu Líffræðifélags Íslands í síðustu viku.

Erfitt að ráða við kerfilinn

Til að útrýma tegundunum er lúpínan slegin einu sinni á ári við lok blómgunartíma, kerflar slegnir þrisvar á hverju sumri og risahvannirnar eru grafnar upp. Verst gengur að útrýma kerflinum en það er nánast búið að útrýma risahvönninni, að undanskildum einum stað.

Sláttur hentar betur en að eitra

Á líffræðiráðstefnunni var einnig fjallað um samanburðarrannsóknir á eyðingu lúpínu í Stykkishólmi. Að þeirri rannsókn stóðu Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands og Náttúrustofa Vesturlands. Samhliða skipulögðum slætti lúpínunnar var ráðist í tilraun þar sem borinn var saman árangur á því að slá lúpínuna annars vegar og beita plöntueitri hinsvegar. Tilraunin var gerð á afmörkuðum tilraunareitum. Niðurstaða tilraunarinnar var sú að í þeim reitum þar sem var slegið og eitrað mátti strax, eftir eitt ár, sjá marktækan mun á þekju lúpínunnar, einnig var mestur fjöldi plöntutegunda í slegnu reitunum. Munurinn svo á eitruðum og slegnum reitum var helst sá að eitraðir reitir reyndust gróðursnauðari en þeir slegnu.

Mörg sveitarfélög til aðgerða

Í erindi Róberts vakti hann athygli á því hversu mikilvæg samvinnan við samfélagið er, í aðgerðum sem þessum. Hann benti einnig á skort á lagaheimilidum til að framfylgja aðgerðum sem þessum á einkalóðum - ef eigendur þeirra eru mótfallnir aðgerðunum. Fjölmörg sveitarfélög hafa tekið til þeirra ráða að hefta útbreiðslu lúpínu og kerfils í nágrenni við byggðir. Má þar nefna auk Stykkishólms, Húsavík, Hveragerði og Ísafjarðarbæ.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi