Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ríki og kirkja þegar aðskilin

24.10.2015 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands segir að hún og margir aðrir innan kirkjunnar telji að aðskilnaður milli ríkis og kirkju hafi þegar átt sér stað. Ný skoðanakönnun frá Gallup sýnir að meirihluti landsmanna vill aðskilnað.

Kirkjuþing var sett í Grensáskirkju í morgun og stendur fram á mánudag. Meðal annars verða þar rædd fjármál kirkjunnar. Fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju eru tvennskonar. Annars vegar eru sóknargjöld sem bundin eru í lög og eru félagsgjöld allra skráðra trúfélaga á landinu. Hins vegar nýtur kirkjan afgjalds af 600 jörðum sem hún afhenti ríkinu eftir samkomulag sem gert var milli ríkis og kirkju 1997. Undanfarin ár hafa gjöldin verið skert með vilja kirkjuþings þangað til í ár að kirkjan samþykkti ekki niðurskurð þeirra. Hafnar eru viðræður milli ríkis og kirkju vegna þessa. 

Samkvæmt nýrri könnun Gallup eru 55,5% landsmanna hlynntir því að ríki og kirkja verði aðskilin. Stuðningur við aðskilnaðinn hefur aukist umtalsvert frá því í september á síðasta ári þegar 50,6% vildu skilja ríki og kirkju að.

„Ég tel og margir innan kirkjunnar að þessi aðskilnaður hafi þegar farið fram með því samkomulagi og í lögum sem fylgdu í kjölfarið sem gerð voru árið 1997. Hvað þýðir aðskilnaður, ég vil fyrst skilgreina það.“ 

Agnes segir að þjóðkirkjan ráði nú öllum sínum innri málum. Einu sinni hafi t.d. sameining prestakalla og slíkt verið rætt á Alþingi en núna eru slík mál afgreidd innan þjóðkirkjunnar.

„Það er sjálfsagt að ræða þetta bæði hvað það þýðir að aðskilja frekar ríki og kirkju og eins þá hvort að við viljum fara þessa leið að aðskilja eitthvað frekar.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV