Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ófremdarástand við bensíndælur á Djúpavogi

12.10.2015 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: Gauti Jóhannesson - Bensíndælur á Djúpavogi
„Menn hafa verið að hlaupa undir bagga og taka bensín úr sláttuvélabrúsum til að þeir sem eru í virkilegri neyð komist áfram,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps. Íbúar hafa fengið sig fullsadda af tíðum bilunum á einu bensínstöð staðarins.

Fólk missir af flugi

N1 á dælur sem standa við matvöruverslun Samkaupa en þær eru komnar til ára sinna. Íbúum gremst að fá tilkynningar um eldsneytisafslátt en að koma svo að biluðum dælum. Yfir háferðamannatímann hafa tíðar bilanir valdið miklum vandræðum og fólk misst af flugi frá Egilsstöðum.  „Fólk sem hefur verið búið að skipulegga ferðir suður til Reykjavíkur hefur ekki komist. Við höfum verið með túrista sem ætla lengra en hafa orðið strandaglópar,“ segir Gauti.

Uppskera hland og mannaskít

Hann bendir á að benísdælunum fylgi ófögnuður. Erlendir ferðmenn dragi þá ályktun að þar sem séu bensíndælur séu salerni. Algengt sé að ferðamenn kasti af sér vatni utan í veggi matvörubúðarinnar og geri stykkin sín í görðum þar í kring. „Það er alveg klárt að hluti af því vandamál sem við höfum átt við að stríða má rekja til þess að dælurnar eru þar sem þær eru. Það er engin spurning,“ segir Gauti og bendir á að ekki hafi tekist á fá N1 til að taka þátt í kostnaði við almenningssalerni þar skammt frá. Ítrekaðar óskir um úrbætur hafi engu skilað. Starfsfólk Samkaupa eigi alla hans samúð en það þurfi að taka á sig skammir vegna þessa.

Binda vonir við samkeppni

Gauti telur að eldsneytissala á Djúpavogi ætti að standa undir betri þjónustu. „Það er alveg ljóst að yfir háferðamannatímann þá þá er mikið selt af eldsneyti úr þessum dælum með lágmarks tilkostnaði. Fólk er orðið langþreytt á þessari stöðu,“ segir Gauti. Hann bendir á að nú sé unnið að unnið að nýju deilskipulagi á Djúpavogi og hugmyndir séu um að skipuleggja nýja bensínstöð í bænum.  „Allir þeir sem eru tilbúnir að veita okkur þjónustu á sómasamlegu verði eru velkomnir þegar og ef af því verður.“

Uppfært: 13.10.2015 kl. 13:45

Samkvæmt upplýsingum frá N1 er það á áætlun hjá fyrirtækinu að skipta um eldsneytisdælur á Djúpavogi. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV