Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Refur skorinn á fjölskylduskemmtun

11.10.2015 - 16:26
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Þetta varð ekki virkilega slæmt fyrr en skorið var á magann og fuglinn kom í ljós. Lyktin af kæstri fjaðrasúpunni flögraði um herbergið. Samt fikruðu börnin sig nær og augun stækkuðu með hverju líffærinu sem dregið var út úr lífvana búk dratthalans.

Þórður Júlíusson, bóndi á Skorrastað í Norðfirði, tók sig til og krufði ref af sinni alkunnu snilld á tæknidegi fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í gær. Þar var margt að sjá, afkvæmi tölvuskjás og sandkassa, þrívíddarprentun, þrívíddartréskurð, skipsvél á fullum snúningi, efnafræðiundur og ýmsa tækni sem fyrirtæki á Austurlandi vinna með. Markmið tæknidagsins sem haldinn var í þriðja sinn er að kynna alla þá tækni sem unnið er með í samfélaginu og einnig að vekja áhuga unga fólksins á raungreinum, tækni- og iðnnámi.

Hér að ofan má sjá Þórð veita leiðsögn um iður refsins, einnig viðtal við Þorbjörgu Ólöfu Jónsdóttur, áfangastjóra í Verkmenntaskóla Austurlands, Viðar Guðmundsson kerfisstjóra skólans, og Svein Oddsson, forritara hjá Advania.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV