Þórður Júlíusson, bóndi á Skorrastað í Norðfirði, tók sig til og krufði ref af sinni alkunnu snilld á tæknidegi fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í gær. Þar var margt að sjá, afkvæmi tölvuskjás og sandkassa, þrívíddarprentun, þrívíddartréskurð, skipsvél á fullum snúningi, efnafræðiundur og ýmsa tækni sem fyrirtæki á Austurlandi vinna með. Markmið tæknidagsins sem haldinn var í þriðja sinn er að kynna alla þá tækni sem unnið er með í samfélaginu og einnig að vekja áhuga unga fólksins á raungreinum, tækni- og iðnnámi.
Hér að ofan má sjá Þórð veita leiðsögn um iður refsins, einnig viðtal við Þorbjörgu Ólöfu Jónsdóttur, áfangastjóra í Verkmenntaskóla Austurlands, Viðar Guðmundsson kerfisstjóra skólans, og Svein Oddsson, forritara hjá Advania.