Glettilega sammála - en samt ekki

08.10.2015 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Samband starfsmanns við vinnuveitanda er annars eðlis en samband borgara við ríkið. Starfsmaðurinn hefur skyldum að gegna og þarf að uppfylla ráðningarsamning. Vinnustaðasamband byggir á meginreglum samningaréttar. Um slíkt samband eiga málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga því ekki að gilda.

Óskaði eftir því að frumvarpið yrði dregið til baka

Þetta er skoðun Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, sem nýverið lagði ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni nefndarinnar, fram frumvarp um að ráðningar, skyldur og starfslok opinberra starfsmanna, annarra en embættismanna, skuli ekki falla undir stjórnsýslulög. Markmið frumvarpsins er að auðvelda forstöðumönnum ríkisstofnana að ráða og reka starfsmenn en Vigdís segir hendur þeirra bundnar. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, vill að Vigdís afturkalli frumvarpið og segir það missa marks. Hún óskar eftir því að breytingar verði í staðinn gerðar á lögum um opinbera starfsmenn. Málin voru rædd á fundi sem Félag stjórnsýslufræðinga boðaði til á Kex-hosteli í dag. Mannauðsstjórar, fulltrúar stéttarfélaga og forstöðumenn ríkisstofnana fjölmenntu á fundinn.

Þunglamalegt og tímafrekt

Forstöðumenn ríkisstofnana geta, samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sagt starfsmönnum upp gerist þeir sekir um refsivert athæfi, af hagræðingarástæðum og vegna skipulagsbreytinga. Loks má segja þeim upp teljist þeir ekki valda starfi sínu en þó einungis að undangengnu áminningarferli. Fyrst þegar starfsmaður gerist uppvís að vankunnáttu, óhlýðni við yfirmann eða óvandvirkni í starfi á forstöðumaður að veita honum skriflega áminningu. Forstöðumanni er skylt að veita starfsmanni færi á að bæta sig áður en honum er sagt upp störfum. Ef starfsmaður óskar skal forstöðumaður rökstyðja uppsögnina skriflega, og ef hún er sögð tengjast vanrækslu eða vanhæfni má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra. Nánari lýsingu á ferlinu má lesa hér. Ferlið hefur verið gagnrýnt, meðal annars í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfslok ríkisstarfsmanna frá árinu 2011. Þar segir að það sé þunglamalegt og tímafrekt og leiði til þess að starfsmenn sem gerst hafa brotlegir í starfi eða reynast ekki hæfir til að gegna því öðlist ríkari vernd en til var ætlast. Því ætti að breyta lögunum og einfalda reglur um starfslok. Til dæmis ætti að endurskoða skyldu til þess að áminna starfsmann og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar kemur. Þá segir að það sé mat Ríkisendurskoðunar að stjórnsýslulög tryggi ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd í starfi.

Forstöðumenn stofnana kallað eftir breytingunni

Vigdís fullyrti á fundinum að með frumvarpinu væri verið að fylgja tilmælum Ríkisendurskoðunar. Það að aftengja lög um ríkisstarfsmenn stjórnsýslulögum væri fyrsta skrefið til þess að snúa við þróun í þá átt að opinberir starfsmenn yrðu óhagganlegir vegna vanvirkrar löggjafar. Margir forstöðumenn stofnana hafi kallað eftir þessari breytingu við sig og lýst því yfir að þeir leggðu ekki í áminningarferlið. Þá sagði Vigdís mikið um kulnun í starfi, veikindi og slæmt andrúmsloft hjá stofnunum hins opinbera, til dæmis vegna þess hversu erfitt forstöðumenn ættu með að hrófla við fólki. Þórunn er þeirrar skoðunar að frumvarpið missi marks.

Nær ekki markmiðum sínum

„Mér sýnist að það nái ekki markmiðum sínum. Það að ætla að taka stjórnsýslulögin úr sambandi við ákveðna kafla í starfsmannalögunum nær ekki þeim markmiðum, eins og ég skil þau, sem frumvarpið vill ná. Það sem fyrir liggur hins vegar er að ef við viljum endurbæta starfsmannalögin þá þurfum við að gera það, það er örugglega tímabært. Ég er hins vegar ekki sammála því að áminningarákvæðið í 44. gr. laganna sé eins mikill flækjufótur og þau lýsa í frumvarpinu.“ 

Réttmætisreglan gildir áfram

Samkvæmt frumvarpinu munu málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga ekki gilda um ráðningar og brottrekstur opinberra starfsmanna. Réttmætisreglan gildir hins vegar áfram en í henni felst að stjórnvöld verði að byggja ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Þannig sé komið í veg fyrir geðþóttaákvarðanir í starfsmannamálum ríkisins en einnig slakað á ítarlegum kröfum um málsmeðferð sem nú gilda um ríkisstarfsmenn. Þá muni reglur um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gilda áfram, þó stjórnsýslulög gildi ekki um tilteknar ákvarðanir.

„Við erum ekki að gera neinar athugasemdir við áminningarferlið í lögum um opinbera starfsmenn, við erum ekki að fara inn í lögin um opinbera starfsmenn heldur að leggja til breytingar á stjórnsýslulögum. Þetta er einungis fyrsta skrefið í því að framfylgja ábendingum Ríkisendurskoðanda, sem kemur fram í skýrslum hans um mannauðsmál ríkisins, að einfalda ráðningu og brottrekstur opinberra starfsmanna. Við erum að bregðast við því ákalli hans og það er alvarlegt af okkur sem sitjandi þingmönnum að bregðast ekki við þeim ábendingum því hann er eftirlitsaðili með framkvæmdavaldinu eins og þingmenn,“ segir Vigdís.

Þeim er bara sagt upp

Þórunn tekur undir að fylgja þurfi tilmælum Ríkisendurskoðanda eftir. „En þar segir líka að stjórnsýslulög veiti opinberum starfsmönnum fullnægjandi réttarvernd. Það er ekki verið að beita sér fyrir því að taka stjórnsýslulögin úr sambandi, hvað varðar opinbera starfsmenn eða ferlið að segja þeim upp. Eins og farið var yfir á fundinum áðan þá er ekki flóknara en svo að segja opinberum starfsmönnum upp en að það er bara gert. Það er hins vegar þegar uppsögnin á rætur í áminningarferli sem það verður flóknara og fleiri skref sem þarf að taka. Það kom fram á fundinum að mörgum finnast áminningar erfiðar í framkvæmd. Þær voru hugsaðar til þess að fá starfsfólk til að bæta sig í starfi og ættu að nýtast þannig og ég er opin fyrir því að það sé ekki að ná markmiðum sínum og þá breytum við því en við breytum því í lögum um opinbera starfsmenn. Við tökum ekki stjórnsýslulögin, lögin sem gæta réttar borgara, úr sambandi,“ segir hún. 

Á fundinum lýsti Þórunn því yfir að í ráðningarferlinu, áður en vinnuveitendasambandi er komið á, teljist umsækjendur almennir borgarar. Því hljóti þeir að geta krafist þess að málefnalega sé farið með umsókn þeirra. Þá benti hún á gagnrýni á kunningjaráðningar sem fram kom í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. 

Vigdís í skýjunum yfir vilja fundarmanna

Fundargestir voru margir hlynntir því að lög um opinbera starfsmenn yrðu endurskoðuð. Það kom Vigdísi ánægjulega á óvart. „Við vorum einungis að hugsa um að taka eitt lítið skref inn í þessa umræðu um að breyta starfsumhverfinu, eins og Ríkisendurskoðandi benti á og forstöðumenn hafa kallað eftir. Ef við breytum þessum lögum um opinbera starfsmenn fyrir jól þá er það ótrúlega stórt skref.“ Þórunn tekur ekki undir að lögin hafi verið heilög, meðlimir BHM hafi oft kallað eftir endurskoðun þeirra. Ekki sé rétt að gefa sér að opinberir starfsmenn séu mótfallnir öllum breytingum.

Forréttindi ríkisstarfsmanna nánast brot á jafnræðisreglu

Á fundinum var mikið rætt um muninn á stöðu starfsmanna á almenna markaðinum og hjá hinu opinbera. Sagði Vigdís í því samhengi að munurinn væri slíkur að hann teldist nánast brot á jafnræðisreglu. Starfsmenn hins opinbera búi við nær óskert starfsöryggi, betra lífeyriskerfi og ýmis önnur forréttindi. Þetta hafi komið bersýnilega í ljós í hruninu. Þá hafi margir misst vinnuna á almennum markaði en ríkisstarfsmenn setið sem fastast, sumar stofnanir tútnað út og jafnvel varið fjármunum til gæluverkefna. Nefndi hún Umhverfisstofnun sérstaklega í því samhengi. Þórunn og nokkrir fundargesta mótmæltu fullyrðingum um óskert starfsöryggi ríkisstarfsmanna og sögðu marga hafa þurft frá að hverfa vegna stöðugrar niðurskurðarkröfu síðustu ára. Æviráðningar heyrðu sögunni til. Vigdís sagði umframréttindi ríkisstarfsmanna þó ekki verjanleg. 

„Almenni markaðurinn og sá opinberi eru svo fjarri hver öðrum og þetta frumvarp er skref í því að færa þessa hópa saman. Vissulega eru ákveðin íþyngjandi atriði sem koma til í ákveðnum stéttum opingeira geirans en ég tel að réttindi séu orðin svo miklu meiri í opinbera geiranum að það verður að fara að færa þessa markaði saman. Þar erum við líka að tala um að fækka lífeyrissjóðum og koma upp sama lífeyrissjóðsgreiðslukerfi.“ 

Eðli opinberra annað, lögum samkvæmt

„Þórunn tók undir kröfu Vigdísar um jöfnun stöðu að einhverju leyti. „Ég er sammála því að það þurfi að jafna stöðuna á þessum mörkuðum. VIð erum að vinna að því með margvíslegum hætti, til dæmis með að sameina lífeyriskerfi og vonandi tekst það einhvern tímann. Þá erum við líka komin með markaði sem eru skyldari en þeir eru í dag. Þeir eru býsna ólíkir, líka vegna þess að eðli opinberra starfa er lögum samkvæmt ólíkt eðli starfa á almennum markaði. Þeir bera skyldur sem annað fólk ber ekki og það verður alltaf að hafa það í huga þegar rætt er um þessa löggjöf.“

Sammála um hvað þurfi að gera

Þær sögðust sammála um hvað þyrfti að gera, bara ekki um hvernig það væri gert. „Við Þórunn erum glettilega sammála um lokatakmarkið en okkur bara greinir á um leiðir,“ segir Vigdís. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi