Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Glöð að aðrir fái það sem hún fékk ekki

15.09.2015 - 10:51
Mynd: Mynd af facebook-síðu Sólveig / Sólveig Hreiðrún Stefánsdót
Þegar Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir sá auglýst að Krabbameinsfélag Austurlands og Starfsendurhæfing Austurlands væru komin í samstarf og ætluðu að opna sameinlega aðstöðu í Miðvangi 1-3 á Egilsstöðum, klippti hún auglýsinguna út og hengdi upp á vegg.

Hún ætlaði ekki að missa af opnuninni síðasta föstudag. Þetta var eitthvað sem hún hafði beðið eftir; að aðrir þyrftu ekki að takast á við krabbameinið fjarri ýmiskonar faglegri aðstoð. „Maður er í lausu lofti og maður veit ekkert í hvorn fótinn á að stíga og allur stuðningur er mjög mikilvægur,“ segir Sólveig sem býr á Egilsstöðum og greindist með brjóstakrabbamein árið 2012.

Sólveig fékk stuðning aðallega frá konu sem greindist á sama tíma og annarri sem greindist nokkrum árum áður. Sólrún nefnir að sig hafi helst skort sálfræðiaðstoð og aðstoð við slökun sem geti verið mjög mikilvæg krabbameinssjúkum.

Bylting í þjónustu við krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra á Austurlandi

 „Krabbameinsfélag Austurlands er tiltölulega fámennt félag og því miður undanfarin ár þá höfum við ekki geta veitt okkar skjólstæðingum þá þjónustu sem þeir raunverulega þyrftu á að halda. En með samning sem við höfum gert við Starfsendurhæfingu Austurlands þá getum við boðið okkar skjólstæðingum að labba hér inn hvenær sem er og að taka þátt í námskeiðum og endurhæfingu,“ segir Alfreð Steinar Rafnsson, formaður Krabbameinsfélags Austurlands. STARFA, starfsendurhæfing Austurlands sér um þjónustu fyrir VIRK starfsendurhæfingasjóð. STARFA og Krabbameinsfélag Austurlands reka nú sem áður segir í fyrsta sinn sameiginlega ráðgjafamiðstöð á Egilsstöðum. Samstarfið er gjörbylting fyrir krabbameinssjúka á Austurlandi en hingað til hefur þeim boðist afar takmarkaður stuðningur í fjórðungnum. Til greina kemur að útvíkka samstarfið enn frekar og bjóða gigtveikum aðgang.

Hlustið á viðtölin úr Morgunútvarpinu á Rás 1

Rúnar Snær Reynisson fréttamaður var við opnun nýrrar glæsilegrar aðstöðu á Egilsstöðum síðasta föstudag. Í Morgunútvarpinu á Rás 1 í morgun ræddi hann við Lindu Pehrsson, framkvæmdastjóra STARFA, Alfreð Steinar og Sólveigu Heiðrúnu. Hlusta má á viðtölin hér að ofan. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV