Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fylgi Samfylkingar ekki minna í 17 ár

01.09.2015 - 17:59
Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll Árnason nýkjörin í embætti varaformanns og formanns flokksins á landsfundi Samfylkingarinnar 2013.
Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll Árnason fagna kjöri sem varaformaður og formaður Samfylkingarinnar á landsfundi í febrúar 2013. Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mælst minna síðan í bankahruninu og fylgi Samfylkingarinnar er hið minnsta í sautján ár samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Píratar hafa aldrei mælst stærri. Miklar breytingar eru á fylgi flokka.

Gallup kannar stuðning við stjórnmálaflokka í hverjum mánuði og er óhætt að segja að hið pólitíska landslag hafi breyst talsvert frá síðustu kosningum.

Kjörtímabilið er hálfnað og enn má sjá miklar breytingar í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Píratar, sem bætt hafa stöðugt við fylgi sitt frá ársbyrjun, bæta við sig um fjórum prósentustigum frá síðasta mánuði og mælast nú með 36 prósenta fylgi. Það er mesta fylgi sem Píratar hafa mælst með og enginn annar flokkur hefur mælst með viðlíka stuðning á kjörtímabilinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins einu sinni mælst með minna fylgi. Hann mælist nú með 21,6 prósent. Það er um tveimur prósentustigum minna en í síðasta mánuði og minnsti stuðningur sem flokkurinn hefur mælst með síðan í nóvember 2008. Þá mældist hann með einu prósentustigi minna en nú.

Vinstri hreyfingin grænt framboð bætir við sig og mælist með tæplega 12 prósenta fylgi og Framsóknarflokkurinn með um 11 prósent. Samfylkingin tapar þremur prósentustigum og mælist með níu prósent.

Fylgi flokksins hefur ekki mælst minna í 17 ár eða síðan í maí 1998 - ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis. Flokkurinn mældist með 9,3 prósent fylgi í könnun sem MMR gerði í byrjun júlí.

Björt framtíð mælist með 4,4 prósent. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu. 5,9% styðja önnur framboð.

34 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina - það er tveimur prósentustigum minni stuðningur en í síðasta mánuði. 

Könnunin var gerð dagana 6. til 30. ágúst. 4290 voru í úrtaki Gallup, svarhlutfallið var 56,9%. Af þeim sem svöruðu nefndu 76,8% einhvern flokk, 11,5% tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara og 11,7% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa. Vikmörkin í könnuninni eru 0,9-2,2%.