Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Horfi til aðstöðu þeirra sem hingað koma

27.08.2015 - 19:26
Erlent · Innlent · Afríka · Asía · Flóttamenn · Evrópa
Mynd: RÚV.is / Skjáskot af vef
Íslensk stjórnvöld horfa til aðstöðu þeirra flóttamenn sem hingað koma, segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. Hún segir að áhersla verði lögð á að taka á móti þeim sem gætu átt erfiðar uppdráttar annars staðar: einstæðar mæður, hinsegin fólk og fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda.

„Við höfum þegar talað um það að á næstu tveimur árum viljum við taka á móti samtals fimmtíu kvótaflóttamönnum. Við höfum líka verið að taka á móti flóttamönnum sem hælisleitendur. Það er sértaklega horft til stöðu þeirra sem koma frá Sýrlandi og líka fólk sem hefur ekki sótt um vernd í öðrum löndum, að það fái hæli hér," sagði Eygló í sjöfréttum sjónvarps.

Félagsmálaráðherra sagði mikilvægt að fara yfir það hvað Íslendingar geti gert í viðkomandi löndum; nágrannaríkjum Sýrlands, Afganistan og Pakistans sem eigi í miklum vanda vegna flóttamanna. Sömu sögu sé að segja af Ítalíu og Grikklandi.

Aðspurð hvort til greina kæmi að Íslendingar tækju á móti fleiri flóttamönnum en þeim fimmtíu sem fyrr var minnst á svaraði Eygló: „Við höfum lagt áherslu á hvernig við tökum á móti flóttamönnum og líka þann hóp sem kemur til okkar. Við höfum lagt áherslu á að horfa til einstaklinga sem eru í sérstaklega erfiðri stöðu og sem við teljum að okkar samfélag geti tekið vel á móti." Þar nefndi hún einstæðar mæður og hinsegin fólk, einnig einstaklinga sem þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda. „Þetta er oft það fólk sem á hvað erfiðast með að koma sér á milli landa og þarf þessvegna á aðstoð að halda."

Eygló fagnaði því hversu miklum vilja forsvarsmenn sveitarfélaga hefðu lýst til að taka á móti flóttamönnum í frétt RÚV í gær. Þar var rætt við sveitarstjórnarmenn víða um land.