Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Reyna að bjarga hval úr háska

15.08.2015 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: Guðlaugur Ottesen Karlsson - Icewhale
Mynd með færslu
 Mynd: Icewhale
Mynd með færslu
 Mynd: Guðlaugur Ottesen Karlsson - Icewhale
Hópur fólks er lagður af stað út á Faxaflóa til að reyna að hjálpa hnúfubak sem er fastur í net og að því er virðist illa særður. Talið er að líklega séu hátt í tveir mánuðir síðan hvalurinn festist í netinu og ferðamenn í hvalaskoðun hafa orðið hans varir síðustu tvær vikurnar.

„Við gerum okkur fyllilega grein fyrir að hann er mikið flæktur," segir María Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands. Því er ekki öruggt að hægt sé að losa hnúfubakinn en það verður reynt í dag og næstu daga. Leiðangursmenn héldu á haf út í morgun en höfðu ekki komið auga á hvalinn þegar fréttastofa ræddi við Maríu Björk um klukkan ellefu.

Tilraun var gerð til að hjálpa hvalnum fyrir nokkrum vikum en án árangurs. Þá freistaði Landhelgisgæslan þess í síðustu viku að hjálpa hvalnum og tókst að skera á hluta netsins nærri sporði dýrsins. Nú eru komnir til landsins sérfræðingar frá The International Fund for Animal Welfare og The British Diving Marine & Life Rescue á vegum Alþjóðahvalveiðiráðsins í samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækin Eldingu, Special Tours og Whale Safari. Sérfræðingarnir komu með búnað sem nýttur hefur verið erlendis til að bjarga hvölum í sama vanda.

Talið er að netið sem hvalurinn er fastur í sé grásleppunet eða annað fíngert net. Stórt sár hefur myndast neðan við sporðinn þar sem margvafið fínt girni hefur grafið sig djúpt inn í holdið og verður einn erfiðasti hluti aðgerðarinnar að losa um netið á því svæði, samkvæmt upplýsingum frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV