Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kirkjan líklega með ríkið fyrir gerðardóm

12.08.2015 - 22:13
Biskupsvígsla Agnesar M. Sigurðardóttur.
 Mynd: RÚV
Kirkjuráð leggur til við kirkjuþing á föstudag að frekari niðurskurður verði ekki samþykktur. Líklegt er að viðauki við kirkjujarðasamkomulag þjóðkirkjunnar endi fyrir gerðardóm. Kirkjuráðsfulltrúi segir kirkjuna einfaldlega ekki geta meir - ekki gangi lengur að selja eignir til borga prestum laun.

Kirkjan hefur frá fjármálahruninu 2008 samþykkt viðauka við svokallað kirkjujarðasamkomulag sem hún gerði við ríkið árið 1997.  Ríkið fékk þá kirkjujarðir gegn þeirri skuldbindingu að ríkið greiddi laun presta og starfsmanna Þjóðkirkjunnar.

„Þjóðkirkjan getur ekki meir“

Niðurskurðurinn hefur verið umtalsverður - 21 prósent samkvæmt minnisblaði fjármálastjóra Biskupsstofu í október 2013.

Kirkjuráð kom saman í lok júlí - það samþykkti að leggja til við Kirkjuþing að samþykkja ekki þennan viðuaka, í fyrsta skipti frá hruni. Á fundi Kirkjuráðs í gær var síðan ákveðið að kalla saman aukafund Kirkjuþings þar sem þetta verður lagt til. Allar líkur eru á Kirkjuþing fallist á þessa tillögu.

Svana Helan Björnsdóttir, sem á sæti í Kirkjuráði, segir Þjóðkirkjuna einfaldlega ekki geta meir - þjóðkirkjan hafa mátt þola meiri niðurskurð en aðrar stofnanir. Hún hafi frá árinu 2008 - þegar fjármálakerfið hrundi - ekki lagst gegn þessum mikla niðurskurði og þannig lagt sitt af mörkunum.

Fá greitt fyrir 107 presta - ættu að vera 138

Hún segir að kirkjan hafi þurft að mæta þessum niðurskurði með sölu eigna, sameiningu sókna og uppsögnum presta - ríkið greiði nú fyrir 107 en samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu eigi þeir að vera 138. Þjóðkirkjan hafi getað haldið úti stöðugildum 126 presta með sölu eigna  - nú gangi það ekki lengur.

Svana segir þjóðkirkjuna hafa reynt að ná samkomulagi við ríkið - án árangurs. Því séu allar líkur á því að deilunni verði skotið til gerðardóms.  Eftir því sem fréttastofa kemst næst átti biskup Íslands óformlegan fund með forsætisráðherra til að ræða stöðuna og þá óskaði Kirkjuráð eftir fundi með fjármálaráðherra.  

Almannatengslafólk og lögmenn boðaðir á fund

Eins og sjá má í fundargerð Kirkjuráðs frá 28. júlí ræddi Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, þetta mál á nokkuð fjölmennum fundi í Neskirkju. Þangað var meðal annars boðað starfsfólk Biskupsstofu, forsætisnefnd kirkjuþings, fulltrúar Prestafélagsins „lögmenn og almannatengslafólk,“ eins og segir í fundargerðinni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Þjóðkirkjan dregur upp dökka mynd af stöðu sinni. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í bréfi til forsætisráðherra í nóvember á síðasta ári að sóknir landsins gætu ekki staðið af sér annað ár í niðurskurði. Niðurskurður sóknargjalda undanfarinna ára hefði takmarkað þjónustu kirkjunnar og byggingar um allt land lægju undir skemmdum. Sóknir landsins væri að hruni komnar.

Fram kom í svari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í mars á síðasta ári að heildarframlag ríkissjóðs til reksturs prestsembætta og Biskupsstofu, viðhaldsframkvæmda og sókna þjóðkirkjunnar næmi tæpum 66 milljörðum síðastliðin 13 ár - Þjóðkirkjan hefði orðið af 251 milljón vegna úrsagna frá árinu 2002.