Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Framlög ríkisins renni í einn tónskóla

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir - RÚV

Framlög ríkisins renni í einn tónskóla

04.06.2015 - 18:01

Höfundar

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, segir koma til greina að ríkið veiti einum tónskóla á höfuðborgarsvæðinu fjármuni til að bjóða upp á tónlistarnám á framhaldsskólastigi.

Ríkið myndi þó draga úr fjárframlögum til annarra tónskóla á móti. Skólastjórar tónlistarskóla á landsbyggðinni gagnrýna þessar hugmyndir harðlega.

Árið 2011 gerði íslenska ríkið samkomulag við sveitafélögin um að leggja fé til reksturs tónskóla landsins. Vegna þessa samkomulags hefur ríkið lagt 250-300 milljónir króna í rekstur tónskóla á ári hverju og auðveldað tónskólum víðsvegar um landið að bjóða upp á framhaldsnám í tónlist. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, segir þó að þetta fyrirkomulag hafi ekki gefið góða raun.

„Það endurspeglast meðal annars hér í Reykjavík. Rekstrarstaða margra tónskólanna er hörmuleg og gjaldþrot blasir við mörgum þeirra," segir Illugi og tekur fram að slíkt fyrirkomulag gangi ekki til frambúðar.

Þess vegna telur hann nauðsynlegt að endurskoða rekstur tónlistarskólanna að þessu leyti. Hann minnir á að samkvæmt lögum er það í verkahring sveitarfélaga að reka tónskóla á framhaldsskólastigi.

„Ég vil stilla þessu þannig upp að segja við sveitarfélögin: Verkefnið er hjá ykkur samkvæmt verkaskiptasamkomulagi og tekjuskiptingu og slíku. Við erum tilbúin að setja aukafjármuni, og það verða þá að vera aukafjármunir," segir Illugi. Hann segir koma til greina að verja þeim aukafjármunum til að reka einn ríkisrekinn tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu. Hann telur að slíkur skóli gæti örvað tónlistarlíf í landinu og búið vel að nemendum sem hyggjast leggja tónlistina fyrir sig. Þessi skóli yrði á framhaldsskólastigi og þar gætu nemendur sótt sér stúdentspróf í tónlist.

Illugi tekur fram að þetta yrði ekki gert í sparnaðarskyni, markmiðið sé ekki að draga úr framlögum ríkisins til tónlistarkennslu, heldur að verja þeim á annan máta.

Sameining FÍH og Tónskóla Reykjavíkur?
Ein hugmyndin sem er á teikniborðinu er að sú að sameina Tónlistarskóla Reykjavíkur og Tónskóla FÍH. Ríkisframlögin gætu runnið inn í þann skóla. Kjartan Óskarsson, skólastjóri tónlistarskóla Reykjavíkur, segir að menntamálaráðherra hafi viðrað þær hugmyndir og bæði forsvarsmenn FÍH og Tónskóla Reykjavíkur hafi tekið vel í þær. „Þetta myndi styrkja tónlistarnám á landinu. Vorum tilbúnir að taka þátt í þessu," segir Kjartan.

Illugi segir að enn sé of snemmt að slá einhverju föstu. „En þetta væri mjög spennandi, vegna þess að þar værum við að setja saman svolítið ólíkar áherslur í tónlistinni, annars vegar hinar rythmísku og hins vegar hinar klassísku. Ég held að það gæti verið mjög áhugaverð nálgun að vera með það saman í einni skólastofnun," segir hann.

Skólastjórar tónskóla á landsbyggðinni hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna þessar hugmyndir og telja þær stofna tónlistarkennslu á landsbyggðinni í hættu.

Tengdar fréttir

Menntamál

Ekkert framhaldsnám í tónlist úti á landi