Fatlaður þarf að sanna fötlun

31.05.2015 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átján ára piltur þarf að sanna fyrir Tryggingarstofnun að hann sé fatlaður svo hann fái örorkubætur. Hann hefur verið fatlaður frá fæðingu og móðir hans fengið ummönnunarbætur, sem hún fær ekki lengur. Hún gagnrýnir að hann fái ekki sjálfkrafa örorkubætur.

Kristján Jónsson fæddist fyrir tímann og fékk heilablæðingu í fæðingu og aðra skömmu eftir hana. Það var þess valdandi að hann fékk tvenndarlömun, sem á ensku er skammstafað CP. Hann glímir einnig við tourette, athyglisbrest, flogaveiki og kvíðaröskun. Kristján varð 18 ára í febrúar. Móðir hans sótti um áframhaldandi umönnunarbætur en var hafnað og því þurfti Kristján að sækja um örorkubætur. Það hefur gengið hægt og illa.

„Hann fer bara aftast í bunkann og ég er náttúrlega mjög ósátt við það að hann fari aftast í bunkann, vegna þess að hann er í kerfinu og búinn að vera þar í 18 ár,“ segir Inga Lóa Birgisdóttir, móðir Kristjáns. „Ég sætti mig ekkert við það að það taki marga mánuði að úrskurða það að hann sé ennþá fatlaður. Ég hefði svo viljað óskað þess að honum hefði verið batnað daginn eftir að hann vaknaði, frá því að vera 17 og orðinn 18 ára en það bara gerðist ekki.“

Kristján hefur sjálfur þurft að skrifa undir alla pappíra en hann er ólæs og óskrifandi, getur rétt svo krotað upphafsstafina sína. Inga Lóa er einnig ósátt við að öll skjöl sem hafi fylgt umsókn um umönnunarbætur dugi ekki fyrir örorkubætur. Nú þarf Kristján að hitta nýjan lækni sem á að meta hann.

„Þetta er ekki nýr einstaklingur í kerfinu, ég myndi skilja það ef svo væri, en hann er það ekki,“ segir Inga Lóa. „Þar af leiðandi á þetta ekki að þurfa að taka þrjá mánuði eins og þeir áætla með aðra sem eru nýir. Í rauninni, ef vinnubrögðin væru rétt, þegar ég sæki áframhaldandi umönnunarbætur og þeim er synjað þá á að sjálfsögðu að úrskurða svo að hann fari beint á örorku. Það eru allir pappírar til en þeir eru bara ekki á réttu eyðublaði.“

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV