Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tregi og tilfinningar— ★★★★½

Mynd: Hrútar / Vimeo

Tregi og tilfinningar— ★★★★½

27.05.2015 - 09:35

Höfundar

Kvikmyndin Hrútar segir tilfinningaríka sögu af næmni og einlægni. Hún er bæði fyndin og sorgleg og spilar á tilfinningaskalann svo áhorfendur hrífast með.

Fylgst er með bræðrunum Kidda og Gumma sem búa í sitt hvoru húsinu á sömu jörðinni, en hafa ekki talast við í fjörtíu ár. Báðir eru þeir einhleypir og stunda sauðfjárrækt og þrátt fyrir að vera ólíkir eiga þeir það sameiginlegt að elska kindurnar sínar og metast um að eiga besta féð. Þegar riða greinist á bænum þarf að skera allt sauðfé í dalnum og áfallið er mikið. Áhorfendur fylgjast með því hvernig bændurnir takast á við áfallið með mismunandi hætti og hvaða áhrif það hefur á búskap á svæðinu, samskipti fólks og lífsviðhorf.

Þeir Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson leika bræðurna og tekst frábærlega vel upp. Leikurinn skipar enda stærsta hlutverkið í þessari mynd því ekki er mikið um djúp eða löng samtöl, heldur liggur sagan að stórum hluta í næmri og fínlegri túlkun leikaranna og ýmsum smáatriðum sem leikstjórinn Grímur Hákonarson hefur sérstakt auga fyrir. Þetta er íslensk samtímasaga úr sveitinni og hún snertir á ýmsum þáttum s.s. þræðinum á milli bónda og bústofns, bræðraböndum, óuppgerðum fjölskyldumálum, hvernig fólk tekst á við áföll í lífinu og hversu langt menn eru tilbúnir að ganga til að vernda það sem þeir elska.

Tónlist Atla Örvarssonar smellpassar við frásögnina og leikmynd, búningar og umgjörð eru öll vel gerð. Kvikmyndataka og klipping eru ekki síður vel heppnaðar og margar senur sjónrænt eftirminnilegar. Ekki er hægt að láta hjá líða að nefna kindurnar sem leika stórt hlutverk í myndinni og standa sig frábærlega.

Hrútar er áhrifarík mynd með séríslensku yfirbragði og hún mun án efa njóta vinsælda víða um heim. Sagan er tregafull en um leið falleg og skilur við áhorfendur í spurn þegar ljósin kvikna. Eftirminnileg mynd sem fylgir manni út úr rökkvuðum bíósalnum.

Stjörnur: 4½ af 5