Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Elfdælska sjaldgæfasta norræna tungumálið

10.05.2015 - 12:16
Mynd með færslu
Bókasafn í Älvdalen. Mynd: Calle Eklund/V-wold - Creative Commons
Minnsta norræna tungumálið tala um 2.500 manns lengst inni í sænsku Dölunum. Elfdælska var lengi talin vera mállýska, en er nú flokkuð sem sérstakt tungumál sem málfræðingum þykir stórmerkilegt.

 

Fyrir fjórtán árum fór sænski málfræðingurinn Yair Sapir til Älvdals í Dölunum í leit að næði til að klára doktorsritgerð um orðmyndun í íslensku - en rakst þess í stað á nokkuð óvænt.

Margar litríkar mállýskur er að finna í sænsku, ekki síst í Dölunum, en tungutak Älvdælinga var ólíkt öllu sem Sapir hafði áður heyrt - þrátt fyrir að hann sé sprenglærður í norrænum málum skildi hann varla eitt einasta orð.

Hann ákvað að sérhæfa sig í elfdælsku og talar hana nú reiprennandi. Hann hefur skrifað fjölda fræðigreina um hana og stendur um þessar mundir fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Kaupmannahöfn. Elfdælska var um árabil flokkuð sem sænsk mállýska en fyrir tilstilli málfræðinga eins og Sapirs líta flestir svo á að hún sé sérstakt tungumál rétt eins og sænska, norska og íslenska.

Talið er að elfdælska hafi greinst frá fornnorrænni tungu á þrettándu eða fjórtándu öld, um svipað leyti og hin norrænu málin, og einangrun valdið því að hún þróaðist á sérstakan hátt.

Í elfdælsku eru fjögur föll - úlfur er þannig warg um warg frá wardje til wardjes - og það sem fræðimönnum þykir hvað merkilegast, þar eru ýmis orð, hljóð og einkenni norrænu sem voru horfin úr íslensku þegar Íslendingasögurnar voru ritaðar.

Einungis um 2.500 manns kunna elfdælsku. En meðfram aukinni athygli fræðimanna reyna Älvdælir sjálfir að viðhalda tungu sinni. Búið hefur verið til sérstakt ritmál, gefnar út bækur og tónlist. Þá eru grunnskólabörn í Älvdal hvött til að læra málið, meðal annars með fjárstyrkjum til duglegra námsmanna.

verai's picture
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður