Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Töldu framlag Íslands „ógn við öryggið“

Mynd: KÍM / KÍM

Töldu framlag Íslands „ógn við öryggið“

06.05.2015 - 23:26

Höfundar

Borgaryfirvöld í Feneyjum sendu Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar bréf þar sem fram kom að lögreglan teldi framlag Íslands á Feneyjatvíæringinum „ógn við öryggið.“ Þetta kemur fram í úttekt New York Times um mosku Christoph Büchel sem nú rís í Feneyjum.

New York Times hefur bréfið undir höndum. Þar segir að lögreglan í Feneyjum hafi meðal annars gert athugasemdir við staðsetningu moskunnar og talið að hún væri mikill hausverkur. 

Moskan stendur nærri göngubrú við síki. Lögreglan í Feneyjum taldi að erfitt yrði að hafa mikla öryggisgæslu á þessu svæði - það væri nauðsynlegt í ljósi þeirrar hryðjuverkaógnar sem stafaði frá öfgatrúarhópum.

New York Times fullyrðir enn fremur að forsvarsmenn Feneyjatvíæringsins hafi sem minnst viljað vita af framlagi Íslands. Enginn frá listahátíðinni svaraði skilaboðum blaðsins þegar leitað var eftir viðbrögðum.

Fram kemur í umfjöllun New York Times að Büchel og Nína Magnúsdóttir, sýningarstjóri sýningarinnar, hafi eftir þetta bréf ráðfært sig við lögfræðinga. Eftir fundarhöld hafi verið ákveðið að halda áfram með verkið.

Hamad Mahamed, sem á að stýra bænastarfi moskunnar, segir í samtali við New York Times að moskan sé mikilvægt verkefni fyrir samfélag múslima. „Þarna gefst okkur tækifæri til að sýna fólki hvað íslam snýst raunverulega um - það eru ekki myndirnar sem sýndar eru í fjölmiðlum.“

Fram kom í tilkynningu Kynningarmiðstöðvarinnar í síðasta mánuði að moskan verði í yfirgefinni kirkju frá 10. öld. Þetta er fyrsta moskan í Feneyjum en hún er unnin í nánu samstarfi við samfélög múslima á Íslandi og í Feneyjum.

New York Times segir að Büchel hafi leitað mánuðum saman að samstarfsaðila í Feneyjum. Þegar hann hafi loksins fundið kirkjuna hafi borgaryfirvöld bannað honum að breyta henni að utan.  Hann hafi til að mynda ekki mátt setja upp lágmynd með orðunum Allahu akbar eða „Allah er mikill“. 

Büchel hefur sjálfur sagt að hann vilji með verkinu vekja athygli á pólitískri „stofnanavæðingu aðskilnaðar og fordóma, hvar sem er í heiminum.“

 Á myndskeiði sem fylgir fréttinni má sjá svipmyndir ítalska sjónvarpsins frá tvíæringnum. Sýningin verður opnuð almenningi á laugardaginn kemur og verður opin til sunnudagskvölds 22. nóvember.