Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Börnin bjarga heiminum

22.04.2015 - 13:50
Mynd: Jens Þórarinn Jónsson / RÚV
Á opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar í Eldborgarsal Hörpu var atriðið Stjörnustríð 2 sett upp. Þar dönsuðu nemendur úr Klettaskóla með Íslenska dansflokknum og björguðu heiminum frá geimverum.

Um 1500 börn úr 4. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur mættu í Eldborg fyrir opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar. Þeim fannst heldur betur gaman að sjá fyrsta atriðið.

Umtalað atriði var Stjörnustríð 2 sem er dansatriði eftir Ásrúnu Magnúsdóttur. Atriðið fjallar um börn og fullorðna sem ætla sér að bjarga jörðinni eftir að hún hefur orðið fyrir árás. Þetta var ekkert venjulegt dansatriði heldur voru ljós utan úr geimnum, tónlist og sérstakt myndband sem búið var til fyrir þetta atriði.

Skemmtilegt að taka þátt

Við töluðum við þær Höllu, dansara í Íslenska dansflokknum og Eiríku, nemanda í Klettaskóla. Þær sögðu æfingarnar, sem hafa staðið síðan í febrúar, vera mjög skemmtilegar. Halla og Eiríka hafa orðið góðar vinkonur og hist tvisvar í viku til að æfa atriðið með hinum dönsurunum. 

"Hugmyndin er að þetta séu venjulegir krakkar að bjarga heiminum," segir Halla.   Eiríku fannst ferlið afar skemmtilegt og segir æfingarnar ekki hafa verið erfiðar. 

Þeir sem eru öðruvísi geta líka verið með

Við spurðum nokkra krakka úr áhorfendasalnum út í sýninguna. Þeim Davíð Goða og Heklu Sif í 4. bekk í Húsaskóla fannst atriðið vera afar skemmtilegt. Aðspurð voru þau ekki klár á merkingu verksins. Þeim þætti hins vegar svo sannarlega skemmtilegt að fá að dansa með dansflokknum ef tækifæri gæfist.

Við ræddum líka við hana Matthildi úr Ingunnarskóla, henni fannst atriðið líka skemmtilegt. Þegar við spurðum hana hvað hún héldi að verkið fjallaði um svaraði hún „að þeir sem eru öðruvísi geta líka verið með.“

Atriðið er hægt að sjá í fullri lengd hér að ofan.

 

barnahatidmargret's picture
Margrét Snorradóttir
Fréttastofa RÚV
barnahatiderna's picture
Erna Sóley Ásgrímsdóttir
Fréttastofa RÚV