Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ævaforn texti á íslensku nútímamáli

Mynd: Walter Maderbacher / Wikimedia Commons

Ævaforn texti á íslensku nútímamáli

26.03.2015 - 10:38

Höfundar

Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi rýnir í Sögu Pelópseyjarstríðsins eftir Þúkýdídes sem kom út nýlega í þýðingu Sigurjóns Björnssonar.

 

Sumt tekur sinn tíma en er vel þess virði að bíða eftir. Áreiðanlega á það við um verk Þúkýdídesar af sögu Pelópseyjarstríðsins sem ritað var fyrir um 2400 árum og hefur lengi talist til lykilverka sagnfræðinnar á Vesturlöndum. Þetta var svona „common sense‟ sagnfræði þar sem vífillengjur og hindurvitni réðu ekki ríkjum, heldur var litið til heimilda af raunverulegum atburðum og reynt að greina sannleiksgildi þeirra, auk þess sem rýnt var í orsakir og afleiðingar atburða. Þetta eru vissulega hinir þurru þræðir sagnfræðinnar þótt vafalaust sé ofmælt að Þúkýdídes sé faðir hinna pósitífísku sagnfræði eins og lesa má úr sumum ummælum um þennan merka höfund.

Sagnaritun er ein þeirra bókmenntagreina sem lengst hafa fylgt mannkyninu og tengjast ættartölum og lögbókum að einhverju leyti, en einnig epískum kveðskap sem blandaði saman einhvers konar sagnfræði og skáldskap, eins og lesa má í Ilíonskviðu Hómers. Sk. lógografar rituðu í Grikklandi forna staðbundna sögu á prósa, síðar komu fram höfundar eins og Heródótus (490-425 f.Kr.) og Þúkýdídes (460-396 f.Kr.) sem oft eru taldir til „feðra‟ sagnfræðinnar. Þúkýdídes aðgreindi sig frá þessum lógógröfum og Hómer sjálfum þótt ljóst sé að upphafshlutinn byggi á verkum hins síðarnefnda að einhverju leyti.

En Þúdýdídes var vitaskuld penni líka og það er áreiðanlega ein skýring þess að verk hans lifir enn eftir allan þennan tíma. Hann er raunar mjög nútímalegur í aðferð sinni að hafna fyrirrennurum um leið og hann hagnýtir sér þá. Hann nefnir Heródótus reyndar ekki á nafn en vitaskuld hafa þeir oft verið bornir saman og hefur Þúkýdídes gjarnan vinninginn í áreiðanleika þar sem hann er ekki blanda guðum inn í gerðir mannanna. Hann gerir sér heldur engar grillur um göfgi þeirra og hefur einmitt þótt sýna menn sem hugsa um hagsmuni með makkíavellískum rökum, þótt deilt sé um hvort Makkíavellí sjálfur hafi hagnýtt sér hann. Reyndar var það endurreisnarmaðurinn og sá sem sumir kalla föður textafræðinnar, Lorenzo Valla, sem þýddi fyrstur Þúkýdídes á vestrænt nútímamál, þannig að Makkíavellí gat áreiðanlega lesið verkið. Annar aðdáandi hans var svo Thomas Hobbes sem einnig gerði sér ekki miklar grillur um göfgi mannsins í Levíatan sínum.

Pólitíkin í verkinu hefur oft verið til umræðu og finnst mörgum að höfundur mæli fremur með lýðræði en fáræði eða einræði, en ekki eru allir sammála um það. Staðreyndin er sú að þessi stríðstími er umrótstími stjórnmálahátta, ekki síður en tiltekinna þjóða og þjóðarbrota. Efnhagslegir þættir leika einnig rullu sem athyglisvert er að sjá. Þúkýdídes gerir sér alveg ljóst að kraftar þeir sem að baki hernaðarsigra og –ávinninga búa eru flóknir og geta unnið saman, eða hverjir gegn öðrum. Máttur samstöðunnar er honum einnig ljós, eins og þegar hann vitnar til Hermókratesar Hermonssonar, hershöfðingja frá Sýrakúsu á Sikiley, en Aþeningar ráðgerðu þá innrás á eyna. Ræðan er byggð upp eftir klassískum retórískum aðferðum og þar kemur í henni að hann vill fá ákvörðun:

„Jæja þá! Hvað Aþeningum viðkemur eigum við allt undir því að taka rétta ákvörðun. En um friðinn sem allir segja að sé ákjósanlegastur er þetta að segja: Af hverju skyldum við ekki semja friðinn hér, milli okkar sjálfra?‟ (279).

Hann heldur áfram og telur upp ýmsa galla þess að togast á um völdin á Sikiley og lýkur máli sínu þannig:

„Ef við fylgjum þessari stefnu nú munum við ekki svipta Sikiley tvennu góðu: að losa okkur við Aþeninga og komast hjá borgarastríði.‟ (282). Tvöföld neitunin er glæsilegt retórískt bragð þótt vissulega hefði ég viljað vera laus við samsettu sögnina „munum svipta‟.

Eitt skemmtilegt sérkenni höfundar er hvernig hann notar einmitt ræður framámanna til að sýna viðhorf þeirra og áhrif á söguna. Hér er vitnað til þeirra beint eins og ræðan liggi fyrir skriflega, en vafalaust hefur skáldæðin eitthvað verið til hjálpar hvað sem Þúkýdídes hefur um Hómer að segja í upphafinu. Í fyrstu bók mælir t.d. Períkles mjög makkíavellískt með stríði við Spartverja þegar hann segir:

„Nú er að ákveða sig: annaðhvort að láta undan áður en skaði er skeður eða ef við förum í stríð – sem mér að minnsta kosti sýnir best – að gera það með þeim fasta ásetningi að láta aldrei undan hverju sem við er borið, miklu eða litlu, og óttast ekki um eigur okkar. Því að krafa frá jafningum, sem beint er að nágrönnum, hvort sem hún er mikil eða lítil – í stað dómsúrskurðar – jafngildir þrældómi.‟ (100)

Þetta gæti bara verið Snorri goði eða einhver ámóta og sýnir vel hversu sammannleg valdapólitík allra alda er. Reyndar skýrir Þúkýdídes í „aðferðafræðikafla‟ sínum, ef svo má segja, hvernig hann notar ræður:

„Ég bæti því við að hvað varðar ræður sem ýmsir fluttu annaðhvort í upphafi orrustu eða eftir að hún var hafin, hefur mér orðið örðugt að muna nákvæmlega og orðrétt það sem sagt var og ég sjálfur heyrði og enn fremur það sem aðrir sögðu mér frá eftir ýmsum heimildum. Þess vegna eru ræðurnar skráðar á því máli sem mér virtust ræðumenn hafa tjáð sig á um málefnin sem til skoðunar voru og á þann hátt sem best hæfði aðstæðum enda þótt ég hafi alltaf fylgt eins nákvæmlega og mögulegt var merkingu þess sem sagt var í raun og veru.‟ (34-35)

Athyglisverð nálgun, en Snorri Sturluson rökstuddi notkun sína á kveðskap í Heimskringlu ekki ólíkt þessu, muni ég rétt. Þýðandinn, Sigurjón Björnsson, líkir honum við Sturlu Þórðarson í inngangi sínum, ekki beinlínis stílsins vegna, heldur fremur vegna stöðu sögumannsins sem bæði var þátttakandi og stóð álengdar um leið. Það er vitanlega margt líkt hægt að sjá með texta Þúkýdídesar og Sturlungu og Heimskringlu raunar einnig, en það er kannski aukaatriði, miklu merkilegra er að þessi mikilvæga bók er komin út á íslensku, loksins, loksins. Raunar hefur orðið hljóðlát lítil bylting að þessu leyti á undanförnum árum; við höfum fengið þýðingar á Heródótusi, Dante, Óvíd og núna Þúkýdídes, allt voru þetta skallablettir á snautlega hærðum kolli íslenskrar menningar. Lítil bylting sem vafalaust má að einhverju leyti þakka arftaka Þýðingasjóðs í formi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en einkum og sér í lagi, þeirra þýðenda sem lögðu á sig að takast á við þessi stórvirki fyrir lítinn frama eða fé. Útgefendur eiga einnig hrós skilið fyrir að gefa út svo lítt gróðavænleg verk sem ég er þó viss um að eignist fleiri lesendur en flest önnur þegar tímar líða.

Sigurjóni hefur tekist mjög vel að koma þessum ævaforna texta á íslenskt nútímamál og takast á við gildrur þýðingar á íslensku á öllum þessum nöfnum og heitum sem ekkert samkomulag er um hvernig eigi að skrifa á íslensku, til þess er hreinlega of lítið til á málinu um þessi efni. En við Íslendingar eigum að þakka fyrir þessa litlu bókmenntabyltingu í útgáfu klassískra rita við upphaf 21. aldar; kannski er það merki um það við eigum eftir að komast til einhverra bjargálna í þessu efni þegar líða tekur á öldina. Það var tími til kominn.