Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Lifandi jólatré umhverfisvænni

17.12.2012 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir sem vilja vera umhverfisvænir kaupa sér lifandi jólatré en ekki gervijólatré. Þetta er á meðal leiðbeininga Umhverfisstofnunar til þeirra sem vilja vera umhverfisvænir og halda græn jól.

Jólin eru ekki bara hátíð ljóss og friðar, þau hafa á síðari árum verið hápunktur neyslusamfélagsins og jafnvel sóunar. En allir sem halda jól, geta með hægum vanda dregið úr sóun og færst nær því að halda græn jól.

Ef við byrjum á sjálfum jólapakkanum þá er þjóðráð að gera umbúðirnar að hluta af gjöfinni og láta umbúðirnar lifa áfram.

Bergþóra Hlíðkvist Skúlasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að fólk gæti reynt að pakka inn í eitthvað sem hægt er að nota aftur. Þegar pappír er valinn þá sé frekar hægt að velja pappír sem hægt er að endurvinna heldur en mikið gylltan eða litaðan pappír.

Bergþóra bendir á að hefðbundinn jólapappír sé ekki endurvinnanlegur og hún ráðleggur fólki að nota garn, tímaritapappir og heimatilbúna skreytingu í stað borða og blóma sem búin séu til úr gerviefnum.

Ný könnun sýnir að meirihluti Íslendinga notar gervijólatré og rétt um 40 af hundraði nota lifandi jólatré. Margir halda að það sé umhverfisvænna að nota gervijólatré en lifandi jólatré en það er ekki endilega svo. Gervijólatré eru flest framleidd í Asíu. Í framleiðsluna er notuð hráolía og svo eru þau flutt um hálfan hnöttinn.

„Þú þarft að eiga plastjólatréð í svona 20 ár til að jafna út umhverfisáhrif þeirra á móts við lifandi tréð,“ segir hún.

Bergþóra segir að út frá umhverfissjónarmiðum sé betra að velja íslenskt jólatré, bæði vegna frétta af sjúkdómum í þeim erlendu og eins vegna mengunar sem fylgi því að flytja útlensk tré til landsins.

Og það er aldeilis hægt að vera umhverfisvænn þegar kemur að jólamatnum. Besta ráðið er að vera fyrirhyggjusamur og skipuleggja innkaupin til að draga úr sóun og nýta afgangana betur. „Það eru gríðarlega verðmæti sem fara í tunnuna á hjá okkur á Vesturlöndum, bara í mat. Það er talið að allt að þriðjungur í ruslatunnunni sé matur og kannski jafnvel meira þegar það er keypt til svona stórhátíða, þá fyllum við ísskápinn,“ segir Bergþóra.

Hún segir að fólk verði meðvitaðra um umhverfi sitt með hverju árinu sem líður.