„Vitanlega gerum við eitthvað vitlaust“

Fasteign er dýrasta fjárfesting flestra Íslendinga á lífsleiðinni. Hún er líka heimili okkar, hvíldarstaður og skjól. Hollt og gott umhverfi fyrir börnin okkar. En hvað ef við kaupum köttinn í sekknum?

Fyrir réttum tveimur árum keyptu Hildur Gylfadóttir og Ágúst Scheving Jónsson draumahúsið, einbýlishús í Kópavogi. Stærðin var rétt. Hverfið hentaði vel fyrir unga fjölskyldu. En þau vöknuðu upp við vondan draum þegar þau fluttu inn því húsið reyndist meingallað frá fyrsta degi.

Hildur horfir mæðulega á stóran stafla af parketi í bílskúrnum. Það hefur staðið þar frá því í ágúst 2018. Rétt eins og flísarnar og innréttingin á baðherbergið.  Þau Ágúst hafa ekki viljað ganga frá öllu á meðan húsið lekur.

Hildur bendir á parket, flísar og innréttingar sem beðið hafa í bílskúrnum frá 2018.

Ágúst og félagi hans hafa nýlokið við að skipta um alla glugga og dyr á húsinu. Þau Hildur telja víst að húsasmiðurinn hafi smíðað glugga og hurðir sjálfur en ekki tekist vel upp. Ágúst bendir á einn gluggarammann sem búið er að taka úr. „Sjáið hérna gamla gluggann. Ekki alveg rétt smíðaður. Staðsetning á þröskuldi var vitlaus og samsetningu á glugganum ábótavant. Það er bara ávísun á leka.“

Leki er ávísun á frekari vandræði, ekki síst myglu. Þegar gluggarnir voru teknir úr kom enda í ljós að þar var farið að mygla. Þetta þýðir að þau þurfa nú að rífa eitt af fáu sem þó er fullklárað; eldhúsið.

Ágúst og félagi hans gera við glugga sem þeir segja að hafi verið gallaðir.

„Nýi glugginn er kominn í en það sem við þurfum hins vegar að gera, er að opna allan vegginn. Bæði að innan og utan, þannig að það þarf að rífa frá eldhúsið. Það er sem sagt komin mygla í burðinn, burðarstoðir, mygla sem þarf að hreinsa. Þannig að það þarf að rífa hérna eiginlega allan vegginn í burtu,“ segir Hildur. Henni er ekki skemmt.

Meira að segja pípulögnin er ekki rétt frágengin. Í aðalbaðherberginu voru pípurnar settar svo lágt að engin leið var að setja baðkar á réttan stað og tengja blöndunartæki. Þegar það var lagað kom í ljós að veggurinn var illa einangraður með steinull. Að lokum var ákveðið að skynsamlegast væri að pípuleggja baðherbergið upp á nýtt.

Í bílskúrnum er svo að finna undarlega smíð, burðarbita sem er heimasmíðaður. Enginn veit hvernig hann var gerður: Límdur saman, skrúfaður saman eða eitthvað allt annað. Burðarþolshönnuður hússins vill ekki taka ábyrgð á honum. Og matsmenn telja að hann sé farinn að síga.

Í samtali við Kveik sagði verktakinn sem byggði húsið að margar umkvartanir Hildar og Ágústs væru bull, en alls ekki allar. Erfiðlega hefði gengið að reyna að ná samkomulagi við þau.

Hvers vegna er þetta svona?

Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur varð þjóðþekktur fyrir nokkrum áratugum þegar hann og kollegar hans gengu hart fram í baráttunni við alkalískemmdir í steypu, sem þá voru landlægar. Ríkharður telur tímabært að hefja álíka herferð gegn rakaskemmdum og fúski. Að hans mati er skýringin á gölluðum byggingum ekkert flókin.

Dr. Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur

„Vitanlega gerum við eitthvað vitlaust,“ segir hann og hallar sér aftur í sófanum. „Þetta á ekki að vera svona og þarf ekki að vera svona. Við gerum vitlaust. Það er bara einfalt. Við byggjum þannig hús, algjörlega andstætt reglugerðinni, sem segir: Það má ekki byggja hús sem mygla. Í raun er það alveg nóg.“

Indriði Níelsson verkfræðingur talar á sömu nótum og nefnir það sem hann kallar íslensku leiðina. „Við reynum að byggja ódýrt og af því að launakostnaður á Íslandi er mjög hár þurfum við sjálfkrafa að reyna að byggja eins hratt og mögulegt er. Og hraða fylgja mistök.“

Indriði Níelsson, verkfræðingur

Byggingarkostnaður á Íslandi er sá hæsti í Evrópu samkvæmt gögnum Eurostat. Það þarf því ekki endilega að koma á óvart að allra leiða sé leitað til að halda kostnaði niðri eða ná sem mestum hagnaði út úr framkvæmdinni.
En hvar liggja mörk hagnaðarvonar og græðgi? Ríkharður er á því að græðgi sé vandamálið.

„Ef við horfum á það sem menn eru að byggja í dag, þá eru þetta kannski verktakar að byggja. Tökum Hlíðarendahverfið, Kirkjusandshverfið, Norðurbakkann í Hafnarfirði, uppi í Urriðaholti. Þeir ráða sér hönnuði. En þeir vilja helst að hönnuðirnir taki eins lítinn pening og hægt er. Hönnuðirnir eru sumir til í það og það er náttúrulega algjör glæpur að sjá stundum hús byggð með örfáum teikningum. Og ég hef verið að taka út hús úti á landi þar sem er jafnvel engin teikning. Bara byggt út frá einhverju rissi eða einni teikningu sem er lögð inn. Sem betur fer er það að breytast. Menn eru að láta hanna hús fyrir allt of lítinn pening og þyrftu að eyða miklu meiri pening í hönnunina því það er hönnunin ræður í raun útkomunni. Mér er alveg sama hver gerir hönnunina. Hvort það er arkitekt eða einhverjir aðrir. Á endanum þarf að hanna þetta.“

Guðni Jóhannesson orkumálastjóri var áður forstöðumaður byggingatæknideildar Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi. Hann er á því að þeir sem hanna hús á Íslandi búi jafnvel ekki yfir nægilegri þekkingu. Arkitekt hugi að formfegurð, verkfræðingar fylgist með því að byggingar séu traustar og standist jarðskjálfta. „En síðan vantar þriðja þáttinn í þetta,“ segir hann. „Það er að segja, sérfræðina sem á að tryggja að byggingarnar verji sig fyrir vatni og veðrum.“

Guðni Jóhannesson er orkumálastjóri og doktor í byggingareðlisfræði

Ríkharður bendir á að sama hönnun gangi ekki endilega upp í Vesturbæ Reykjavíkur og Breiðholti. Í Vesturbænum sé víða gróið og hús varin af trjám á meðan í Breiðholtinu séu aðstæður oft aðrar og dæmi séu um að blásið hafi í gegnum sprungur á húsum, þótt vandræðalaust hafi verið að nota sömu hönnun í Vesturbænum.

Að kunna til verka

En hönnun dugir ekki til ef handverkið er óvandað. Friðrik Ágúst Ólafsson, húsasmíðameistari og viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins, segir engan vafa leika á að fúsk sé vandamál. Ófaglærðir gangi í störf iðnaðarmanna sem sé ekki gott.

Ríkharður nefnir að flokkar séu fluttir inn frá útlöndum og þar séu jafnvel á ferð fyrsta flokks smiðir, miðað við aðstæður í heimalandinu. Aðstæður hérlendis séu aðrar einkum vegna veðurs. Og þá sé mikilvægt að menn fái almennilega leiðsögn og leiðbeiningar þar að lútandi.

Og við þetta bætast byggingarefnin sem notuð eru við smíðina. Fyrir nokkrum árum var talið að byggingarefni í umferð á Íslandi væru um 5000. Í dag er talið að þau séu nærri 50.000. Alls konar lausnir, leiðir, efni og jafnvel byggingarhlutar á við glugga sem þurfa að standast íslenskt veðurfar.

Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur hjá Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, bendir á að veðurlag á Íslandi sé frábrugðið flestum öðrum löndum.

Björn Marteinsson

„Við erum með mikið slagregn. Mikinn vindhraða. Mikill og hár loftraki í útilofti, almennt. Hér er aldrei þurrt tímabil. Sérstaklega á Suðvesturhorninu rignir meira og minna allt árið. Enginn þurr mánuður, eins og aðrir geta treyst á. Og þetta gerir það að verkum saman lagt að við þurfum fyllstu aðgæslu til að tryggja gæðin.“

Egilsstaðir: Húsin sem mygluðu

Í byrjun aldar voru byggð yfir fimmtíu einbýlishús á Egilsstöðum og Reyðarfirði þar sem byggingagalla varð fljótlega vart. Þorsteinn Erlingsson húsasmíðameistari var kallaður á staðinn til að skoða leka úr lofti í hjónaherbergi. Honum varð fljótt ljóst að vandinn var umfangsmeiri en laus skrúfa eða smágat. Þegar aðstæður voru skoðaðar og opnað upp í krossviðinn í þakinu sást að viðurinn var rennandi blautur. Og í hann var komin mygla.

Þorsteinn Erlingsson, húsasmíðameistari, skoðar myglu á Egilsstöðum.

Fljótt varð ljóst að eitthvað hafði brugðist og ákveðið var að gera umbætur á fimm húsanna. Fjórum árum síðar varð ljóst að þær umbætur höfðu engu skilað og það sem verra var, flest hin húsin sem byggð voru í sömu umferð voru líka illa farin af raka og myglu.

Þorsteinn segir að ekki sé hægt að finna eina ástæðu því nánast allt hafi brugðist, frá hönnun til síðasta handtaks. Einingarnar, frá verksmiðju BYKO í Lettlandi, voru ekki samkvæmt teikningum. Hönnun á loftun þaksins á húsunum var röng, misstórir gallar voru í rakavarnarlagi nánast hvers einasta húss og einingarnar voru rangt settar saman. Það eru engar ýkjur að segja að þessi hús hafi verið gölluð. Íbúarnir veiktust, sumir alvarlega, jafnvel gæludýrin líka. Þegar rakaskemmdirnar og myglan fundust loksins var innbú margra svo mengað að það var ónýtt og engar bætur að fá.

Horft upp í myglaðar krossviðarplötur í þakinu á einu húsana á Egilsstöðum.

Íslenskir aðalverktakar, efnissalar og hönnuðir húsanna gerðu að lokum samkomulag við kaupendurna um bætur og þökin voru öll endurbyggð. Kaupendur íbúðanna hefðu getað setið uppi með skaðann sem nam að lokum nærri 200 milljónum króna, eða þurft að fara í dómsmál til að sækja bætur.

Guðað á glugga

Mjög algengt er að fasteignagallar tengist gluggum sem leka og valda skemmdum. Fáir fasteignakaupendur vita að gluggar eiga að hafa staðist þrýstivatnspróf hjá Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins.

Í eins konar slagveðurshermi eru gluggar og gler prófuð við allt að 1.100 paskala þrýsting. Til samanburðar þykir nóg að prófa við 600 pasköl í Danmörku, sem skýrist af gjörólíkum aðstæðum.

Dr. Ólafur Wallevik, forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, skoðar glugga í slagveðurshermi RB. 

Ólafur Wallevik, forstöðumaður Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, segir að á milli 20 og 25 prósent glugga standist ekki þrýstinginn. Það er hins vegar erfitt fyrir almenning að komast að því hvort gluggarnir í nýbyggingunni sem keypt er íbúð í standist þessar kröfur. Eða voru settir rétt í, sem einnig er vandamál að sögn Ólafs.

En framtíð þessara rannsókna er óviss því rannsóknarstofnunin heyrir undir Nýsköpunarmiðstöð sem verður lögð niður um áramótin og óljóst hvað tekur við. Í svörum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að rannsóknum verði haldið áfram í núverandi mynd uns önnur niðurstaða fæst. Í svarinu segir orðrétt:

„Framleiðendur byggingavara á EES-svæðinu þurfa að uppfylla kröfur samræmdra evrópskra staðla og vörur þeirra þarf að sannprófa í samræmi við nefnda staðla. Þar koma m.a. fram lágmarkskröfur um öryggi, heilsu og umhverfi sem vörurnar þurfa að uppfylla“.

Ólafur segir að evrópskir staðlar og CE-merking séu ekki trygging. „Vegna þess að jafnvel þótt þú fáir CE-merktan glugga úr einhverju landi veistu ekkert hvort hann hafi farið í vatnsþrýstingspróf. Við verðum að muna að Evrópustaðlar eru oft málamiðlun milli landa.“

Á Íslandi er enginn þurr árstími og stundum rignir upp í loft. Byggingar og byggingavörur þurfa því að standast aðrar kröfur en víða annars staðar.

Guðni tekur í sama streng: „Við erum kannski með verksmiðjuframleidda hluti sem eru framleiddir miðað við aðstæður annars staðar. Við kannski ráðum ekki nákvæmlega hvernig gerð þeirra er. Og þetta er þess vegna mjög mikilvægt. Að við séum með byggingarrannsóknir hérna sem taka á þessum hlutum.“

Undantekningarlaust voru viðmælendur Kveiks þessarar skoðunar að aðstæður á Íslandi væru þannig að hér þyrfti sjálfstæðar rannsóknir.

Eftirlitið

Flestir hafa heyrt talað um byggingafulltrúa og einhverjir jafnvel um byggingastjóra. Margir telja eflaust að þar sé á ferðinni pottþétt eftirlit sem eigi að tryggja að nýbyggingar séu í lagi.

Björn Marteinsson hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins segir að það sé ekki alls kostar rétt. Áður hafi byggingafulltrúar á vegum sveitarfélaganna skoðað hverja einustu byggingu sem reist var. Nú séu slíkar heimsóknir sjaldgæfar og það sé byggingastjórans að sinna eftirlitinu. „Þessi úttekt er framseld í vaxandi mæli til framkvæmdaaðilans,“ segir Björn. „Við sjáum aftur og aftur að það er ekki hægt að treysta einstaklingi til að hafa eftirlit með sjálfum sér.“

Samtök iðnaðarins eru frekar þekkt fyrir að berjast gegn of miklum inngripum hins opinbera og hafa mótmælt byggingareglugerð sem þau telja of íþyngjandi. Meira að segja þar á bæ er mælt með ákveðnara eftirliti og aðgerðum.

Friðrik Ágúst Ólafsson hjá Samtökum iðnaðarins.

„Við höfum verið fylgjandi því að gera tilviljanakenndar úttektir. Og að því verði fylgt eftir. Þannig ætti þetta að geta skánað,“ segir Friðrik Ágúst Ólafsson, húsasmíðameistari og viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins. Hann brýnir raustina.  „Samkvæmt lögum í dag er hlutverk byggingastjóra að vera eftirlitsmaður fyrir hönd eiganda. Í dag er hann í öfugu hlutverki við það sem hann var áður. Menn skilja ekki alveg hvert er  hlutverk byggingastjóra. Og það eru ekkert bara opinberir aðilar að mínu mati. Heldur líka þeir sjálfir. Þeir eru fastir í því að vera framkvæmdastjórar verks.“

Anna Guðrún Gísladóttir, byggingafulltrúi í Garðabæ, segir hlutverk byggingafulltrúans annað eftir breytingar á byggingarreglugerð. „Okkar eftirlit gengur út á að fá teikningar og fylgjast með því að gögnin séu samkvæmt lögum og reglum. Við komum ekki í skoðun fyrr en í öryggis- eða lokaúttekt þegar það er búið að loka öllu og allt lítur vel út í húsinu. Þá er svolítið erfitt að finna byggingagalla. Það getur enginn séð byggingagalla fyrir. En þegar upp er staðið er alveg skýrt samkvæmt byggingareglugerðinni að í nýbyggingum er það hönnuður og byggingaraðilinn og byggingarstjórinn sem eru ábyrgir fyrir því sem er að gerast.“

Anna Guðrún Gísladóttir, byggingafulltrúi í Garðabæ.

Margir viðmælenda Kveiks  vildu að almenningur gæti flett því upp hverjir stæðu fyrir framkvæmdum, hverjir hefðu verið staðnir að óvönduðum vinnubrögðum og hvaða iðnaðarmenn væru með réttindi en merkilegt nokk er hvergi hægt að nálgast þær upplýsingar í dag.

Verkfræðingurinn Indriði vill eins konar hvatakerfi svo að vandaðir verktakar njóti þess og sæti minna eftirliti  en þeir sem síður séu þekktir fyrir öguð og vönduð vinnubrögð þurfi að bera kostnað af auknu eftirliti.

„Hingað og ekki lengra!“

Urriðaholtið er ekki ódýrt hverfi. Það er vistvottað og íbúðir þar hafa einatt verið auglýstar sem lúxusíbúðir. En þar er sannarlega að finna fasteignagalla. Alls konar verktakar byggðu þar hús, frá smærri til stærri, frá fyrirtækjum með langa sögu til annarra sem viðmælendur Kveiks sögðu réttast að kalla gamaldags kennitöluflakkara.

Í einni blokkinni býr Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, ásamt konu sinni. Hann bendir á fjölda galla, stórra sem smárra. Á þaki bílakjallara eru þökur en frágangurinn er þannig að fyrir neðan lekur og þar safnast í polla. Málning flagnar. Á skilum tveggja bygginga hefur myndast stór sprunga þar sem húsin eru farin að síga hvort í sína áttina. Innanhúss er að finna ýmis ummerki þess að unnið hafi verið hratt.

„Þetta eru bara svona hroðvirknisleg vinnubrögð. Finnst manni. Ekki það sem á að vera í nýjum húsum,“ segir Ásborg Guðmundsdóttir sem býr í sama húsi. Í sumum íbúðunum lak svo mikið með gluggum að rífa þurfti upp gólfefni og skipta um glugga.

Ekki hefur verið gengið frá lóðinni þótt fjögur ár séu síðan íbúðirnar voru afhentar. Þakrenna endar uppi á miðjum vegg, sums staðar hefur ekki verið málað og það glyttir í ryðbletti í gegnum múrhúðina.

„Þegar kemur hingað þá segir maður bara: Hingað og ekki lengra!“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson efst í tröppum sem enda í miðri brekku. 

Utanhúss bendir Jón Steinar á tröppur sem liggja upp frá litlum garði en enda í miðri brekku. „Og við sjáum nú hvernig frágangurinn á þessu er. Þegar kemur hingað þá segir maður bara: Hingað og ekki lengra!“ segir Jón Steinar þar sem hann stendur í efstu tröppunni og er ekki skemmt. „Og það sem líka er vont við þetta er að byggingameistarinn sem byggir þetta, hann bara hverfur og svo er engin leið að ná einu sinni tali af honum. Maður hringir út um borg og bý en það er engin leið að ná tali af manninum. Það er eins og hann sé á flótta undan verki sínu.“

Tilraunir Kveiks til að ná tali af verktakanum sem byggði blokkina skiluðu ekki árangri.

Ábyrgð og ábyrgðarleysi

Hvert er hægt að leita með eftirlit, ráðgjöf, kröfur um umbætur? Að mati Friðriks hjá Samtökum iðnaðarins hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úrslitavaldið. Þar vilji menn ekki grípa inn í og telji sig ekki hafa lagaheimild til þess þótt aðrir séu því ósammála.

Í Fróðaþinginu ákváðu Hildur Gylfadóttir og Ágúst Scheving Jónsson að þau ætluðu ekki að sætta sig við vinnubrögðin og svaraleysi frá þeim sem byggði húsið þeirra. Þau segjast hefðu viljað meira eftirlit frá yfirvöldum og ráðgjöf um hvert þau ættu að snúa sér.

Náist ekki samkomulag um bætur gæti málið endað fyrir dómstólum. Og útkoman úr slíku er alls óvís, eins og Haukur Birgisson lögmaður staðfestir við Kveik. Haukur hefur rekið fjölda fasteignagallamála og segir kaupendur í flestum tilvikum sitja eftir með eitthvert tjón.

Haukur Birgisson, lögmaður, hefur rekið fjölga fasteignagallamála.

„Því það þarf að leggja út fyrir miklum kostnaði, lögmanns- og matskostnaði. Þú færð að minnsta kosti einhvern dóm fyrir kröfunni þinni sem er sjaldnast fyrir allri fjárhæðinni. Þá skiptir líka máli hver er gagnaðilinn. Er það traustur aðili sem er annt um orðspor sitt og er að halda áfram í þessum bransa? Eða er það aðili sem er kominn yfir í næsta verkefni og búinn að stofna nýtt fyrirtæki? Og hefur engan áhuga á að gera vel við sína fyrrum viðskiptavini? Þá siturðu bara uppi með allt tjónið,“ segir Haukur og bætir við að fæstir leggi í þessa vegferð.

Hver byggði heimili þitt?

Viðmælendur Kveiks hömruðu ítrekað á því að fasteignakaupendur kynntu sér sögu þess sem byggði því það væri oft langbesta vísbendingin um hversu vönduð smíðin væri.

Sá sem byggði hús Hildar og Ágústs var lítill verktaki sem vann, að því er þau telja, flest handverk sjálfur og er ánægður með verkið, allt annað en þau. Það hefur kostað þau bæði háar fjárhæðir og mikla vinnu að sækja bætur. Þau draga fram þykkar möppur þar sem finna má myndir, lýsingu á aðstæðum og fleira sem þau vona að styrki málstað sinn.

Hildur og Ágúst hafa rifið hluta klæðningar og fundið myglu í burðarstoðum heimilis síns.

En Hildur er ekki mjög bjartsýn. „Maður vonast náttúrulega til þess að við fáum sem stærstan hluta af tjóninu bættan. En ef þetta fer fyrir dóm, að þá veit maður aldrei hvernig verður dæmt. Þannig að það er rosa erfitt að segja. Það er held ég aldrei svo að við munum fá þetta allt saman bætt.“

Þau Ágúst hafa reitt fram þrjár milljónir króna fyrir að kalla til dómkvadda matsmenn en eru allt eins við því búin að standa eftir með stærri skuld en hefðu þau einfaldlega ráðist í allar lagfæringar á eigin reikning.

Steinullareingangrun í aðalbaðherberginu hjá Hildi og Ágústi, sem þau telja ekki standast því hún sé í raun afgangar hrúgað saman.

Staða fasteignakaupenda, neytenda, almennings er sannarlega ekki efnileg í þessu samhengi. Sumar heimilis- og fjölskyldutryggingar innihalda að vísu klausur um réttaraðstoð eða málskostnaðartryggingu sem hjálpa auðvitað við kostnaðinn.

Danska leiðin: Byggskadefonden

En til eru aðrar leiðir, eins og sú sem íslensk nefnd lagði árið 2015 til að yrði skoðuð nánar.

Björn Marteinsson arkitekt þekkir vel til. ,,Erlendis, eins og í Danmörku til dæmis, er kaupandinn eiginlega tryggður gegn svona vandamáli. Þar er Byggskadefond, sem að hann getur leitað til. Nú telur hann að það sé vandamál í húsinu hans. Það er bara skoðað og sjóðurinn greiðir ef það kemur í ljós að þetta er galli.”

Um land allt rjúka upp byggingar og ný hverfi fæðast.

Stjórnvöld ákváðu að bíða með þetta og auka frekar ábyrgð byggingastjóra í lögum sem breytt var 2018. Á Íslandi þarf því að sýna fram á að einhver tiltekinn beri ábyrgð á galla og sækja bætur, en í Danmörku nægir að sýna fram á að galli sé fyrir hendi og þá bætir trygging það.

Nánar um byggingagallatryggingu og danska Byggskadefonden.

Kveikur óskaði eftir viðtali við fulltrúa Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þeirri ósk var hafnað. Í skriflegu svari segir meðal annars að rétt sé að skoða þessar tryggingar á ný, ekki sé hægt að bíða árangurs af öðrum breytingum. Stofnunin stefni að átaki á nýju ári með auknu eftirliti, aukinni fræðslu, virkniskoðun gæðakerfa, samræmingu byggingareftirlits á landinu og markaðseftirliti með byggingavörum. Þá sé líka ljóst að veita þurfi mun meira fé til rannsókna á byggingarefnum sem notuð séu við mannvirkjagerð.

Í skriflegu svari félagsmálaráðuneytisins, sem fer með stærstan hluta þessa málaflokks, segir einnig að kannað verði hvernig auka megi tryggingavernd fasteignakaupenda og ráðuneytið ætlar að beina því til dómsmálaráðuneytisins að kanna lögbindingu ástandsskoðana við fasteignakaup og -sölu.