Virkjanirnar sem þurfa ekki að fá samþykki Alþingis

Virkjanir sem eru innan við 10 megavött þurfa ekki að fara í gegnum umfangsmikið mat rammaáætlunar og fyrir Alþingi. Sumar þeirra geta þó haft verulega neikvæð umhverfisáhrif.

Suður undan Vatnajökli, nærri Kirkjubæjarklaustri, rennur Hverfisfljót.

Lengst af rann það reyndar ekki þá leið sem það fer nú, en feikilegur hraunstraumur í Skaftáreldum í lok 18. aldar flæmdi fljótið úr sínum gamla farvegi, og nú fellur það í mikilúðlegum flúðum og fossum niður á láglendi. Og hér hefur eigandi jarðarinnar Dalshöfða hug á að virkja fljótið, við fjallið Hnútu.

Hér er hægt að horfa á umfjöllunina. Myndin er tekin við Lambhagafossa í Hverfisfljóti.

Kveikur gekk um fyrirhugað virkjunarsvæði Hnútuvirkjunar með Jónu Björk Jónsdóttur, líffræðingi og náttúruverndarsinna.

Spurð hvers vegna hún sæki á þetta svæði nefnir hún kraftinn í fljótinu. „Hvernig maður sér ána móta móbergið. Maður sér flúðirnar, fossana, og heyrir kraftinn, dynkina. Svona hraunið, formin, litirnir,“ segir Jóna Björk. „Þetta er bara dásamlegur staður.“

Samkvæmt skipulagsuppdrætti yrði fljótið beislað með tveimur stíflum. Vatn yrði leitt í þrýstipípu rúmlega tveggja kílómetra leið niður að stöðvarhúsinu og þaðan aftur út í farveg fljótsins.

Virkjunin yrði allt að 9,3 megavött, og myndi raska svæði þar sem lítil ummerki finnast um mannskepnuna. Þar finnast ekki hús, þjóðvegir, tún eða skurðir — en mikil náttúra.

Enda eru virkjunaráformin umdeild. Jóna Björk var varamaður í sveitarstjórn í tvö kjörtímabil og hefur barist gegn Hnútuvirkjun.

„Mér finnst það að brjóta undir sig land, eins og hér, sem er svona algjörlega óspjallað, ósnert, mér finnst það bara ekki rétt, landsins vegna,“ segir hún.

Jóna Björk Jónsdóttir hefur barist gegn Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti.

Það er Ragnar Jónsson, landeigandi og ábúandi á Dalshöfða, sem vill nýta fljótið til orkuvinnslu, fyrst og fremst til að nýta hlunnindi jarðarinnar, segir hann: „Til tekjuöflunar náttúrulega.“

Ragnar segir að jörðin bjóði ekki upp á mikla möguleika sem landbúnaðarjörð, vegna lítilla ræktunarmöguleika út af hrauni og fjöllum.

Hnútuvirkjun, sem Kjarninn hefur fjallað um, fékk falleinkunn hjá Skipulagsstofnun þegar hún fór í umhverfismat. Niðurstaðan var að hún myndi hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif.

Spurður hvort þetta breyti ekki forsendunum fyrir að virkja fljótið segir Ragnar að þegar þurfti að fara í umhverfismatið hafi hann lagt upp með að fara eftir þeim lögum og reglugerðum sem eru í landinu. Þeim hafi hann „fylgt út í það ýtrasta.“

Lambhagafossar í Hverfisfljóti.

Neðan við fyrirhugaða stíflu eru fossarnir Faxi og Lambahagafossar, og rennsli í þeim minnkar eðli málsins samkvæmt þegar hluti jökulvatnsins verður leiddur frá stíflunni niður á láglendi í röri, í stað þess að vatnið streymi fram árgljúfrið.

Mikilfenglegustu klettamyndanirnar eru þó ofan við stíflusvæðið og þeim verður ekki raskað.

Jóna Björk segir þó að það skerði upplifunina að þegar horft sé á svæðið ofan við stífluna verði stíflugarður, vegur og mjög raskað umhverfi fyrir neðan.

Klettamyndanir ofan við fyrirhugaða stíflu Hnútuvirkjunar. Horft niður í áttina að stíflustæðinu.

„Þannig að þessi upplifun sem er núna, hún verður ekki áfram,“ segir hún. „Fyrir mig skiptir það máli og fyrir mjög marga skiptir það máli.“

„Þetta verður náttúrulega allt annað land,“ segir Jóna Björk. Hún heldur að það verði ekki svipur hjá sjón. „Þetta er of stór fórn fyrir of lítið.“

Ragnar landeigandi telur aftur á móti að þarna myndu opnast miklir möguleikar fyrir ferðamenn, „sem eru algjörlega ónýttir. Og menn eru nú að tala um það í öðru orðinu að það þurfi að dreifa ferðamönnum meira,“ segir hann.

Ragnar Jónsson, landeigandi og ábúandi á Dalshöfða í Skaftárhreppi, vill virkja Hverfisfljót.

Allar hugmyndir um virkjanir sem eru 10 megavött eða stærri þurfa að fara í umfangsmikla úttekt í verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda, sem er í daglegu tali kölluð rammaáætlun. Virkjunarkostir fara þá fyrir sérstaka verkefnisstjórn sem er umhverfisráðherra til ráðgjafar við undirbúning tillagna til Alþingis um hvaða svæði á Íslandi á að nýta til orkuvinnslu og hver á að vernda. Alþingi á svo lokaorðið.

En virkjanir undir 10 megavöttum, eins og Hnútuvirkjun, þurfa ekki að fara í gegnum rammaáætlun. Þær geta samt sem áður þurft að fara í gegnum umhverfismat hjá Skipulagsstofnun, þær þurfa að fá virkjunarleyfi hjá Orkustofnun, fara í skipulagsferli hjá sveitarfélagi og fá framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi hjá sveitarfélaginu.

Hnútuvirkjun var á tímabili fyrirhuguð sem allt að 15 megavatta virkjun, og hefði þá þurft að fara í gegnum rammaáætlun. En áformin voru minnkuð niður í allt að 9,3 megavött. Í umhverfismatsskýrslu sem var unnin fyrir landeigandann segir að við nánari skoðun og útreikninga hafi komið í ljós að erfitt yrði að ná 15 megavatta afli og að nýjar mælingar sýndu að hagkvæmasta afl væri um 9 megavött.

Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti var á tímabili fyrirhuguð sem 15 megavatta virkjun og hefði þá þurft að fara í gegnum rammaáætlun og fyrir Alþingi.

Í umhverfismati fyrir Hnútuvirkjun sagði Skipulagsstofnun í skorinorðu áliti sínu að fyrirhuguð Hnútuvirkjun og forsaga hennar sýndu veikleika þess að nota uppsett afl sem viðmið um hvaða framkvæmdir skuli teknar fyrir í rammaáætlun:

Umfang fyrirhugaðrar 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti er að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun. Um er að ræða framkvæmd sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.

Spurð hverju menn hefðu verið bættari með að Hnútuvirkjun færi í gegnum rammaáætlun segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, að virkjanir sem fara í rammaáætlun sæti samanburðarmati af hálfu faghópa og verkefnisstjórnar. „Rammaáætlun er auðvitað líka bindandi áætlun stjórnvalda og hún er afgreidd af Alþingi,“ segir hún.

Kveikur á ferð við Hverfisfljót með Jónu Björk Jónsdóttur náttúruverndarsinna.

Á þessu ári veitti sveitarstjórnin í Skaftárhreppi landeigandanum framkvæmdaleyfi til að reisa Hnútuvirkjun.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands í skipulagsferli virkjunarinnar segir að ekki hafi verið tekið mið af áliti Skipulagsstofnunar heldur haldið áfram með virkjunaráformin að miklu leyti óbreytt. Ef Hnútuvirkjun verði að veruleika verði umtalsverðum einstökum náttúruverðmætum raskað, að stórum hluta á óafturkræfan hátt.

„Þetta er þeirra álit,“ segir landeigandinn Ragnar um álit Náttúrufræðistofnunar. „Ég er náttúrulega ekki sammála þeim,“ segir hann. „Ég tel að þetta sé ekki eins mikið rask eins og menn telja.“

Klettamyndanir ofan við fyrirhugaða stíflu, á svæði sem yrði ekki raskað, en Jóna Björk telur að upplifunin af svæðinu myndi skerðast ef virkjað verður.

„Fagstofnanir okkar, sérfræðingarnir okkar, benda á að þetta hefur mjög neikvæð áhrif,“ segir Jóna Björk. „En sveitarfélagið getur bara hunsað það,“ segir hún, „og farið með þetta alla leið.“ Að hennar mati ætti það ekki að vera hægt, segir hún.

Ásdís Hlökk segir að svigrúm sveitarfélaga sé mjög mikið. Hin almenna regla í skipulagsmálum, bæði á Íslandi og erlendis, sé að ákvarðanir eigi að taka af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum, að öllu jöfnu, sem næst borgurunum. Að því leyti sé þetta hið besta fyrirkomulag.

„En það sem okkur vantar í okkar stjórnkerfi skipulagsmála er að það sé hægt að grípa inn í,“ segir hún. „Að ríkisvaldið geti gripið inn í þegar það þarf. Eða einstakir virkjunarkostir geti verið gripnir af rammaáætlun þegar það þarf.“

Fyrirhugað virkjunarsvæði Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti.

Skjálfandafljót fellur af hálendinu niður í Bárðardal í Þingeyjarsýslu og áfram til sjávar, í fossum og flúðum. Frægastur er Goðafoss, mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Og ofar er Aldeyjarfoss, rómaður fyrir stuðlabergsmyndanir.

Landsvirkjun vildi beisla orkuna sem er fólgin í fallvatninu með stíflum ofan við Aldeyjarfoss. Alþingi hafnaði þeim hugmyndum í sumar þegar það samþykkti þriðja áfanga rammaáætlunar og setti þær í verndarflokk.

En Skjálfandafljót kann að verða virkjað, eins og Kjarninn hefur fjallað um, því einkafyrirtæki vill reisa þar virkjun sem fellur utan rammaáætlunar, og þyrfti ekki leyfi Alþingis.

Virkjunarhugmyndin kallast Einbúavirkjun. Þetta yrði rennslisvirkjun án hefðbundins uppistöðulóns, sem myndi nýta fallhæð í flúðum sem eru um átta kílómetra fyrir ofan Goðafoss.

Einbúavirkjun myndi nýta fall í flúðum í Skjálfandafljóti, um átta kílómetra fyrir ofan Goðafoss.

Einbúavirkjun ehf. vill beisla fljótið með sérstöku yfirfalli, veita vatni fram hjá flúðunum í skurði að stöðvarinntaki og svo rynni það frá stöðvarhúsinu aftur út í fljótið.

Rennsli um flúðirnar myndi skerðast verulega.

Gunnlaugi Friðriki Friðrikssyni, ábúanda á Sunnuhvoli í Bárðardal og stjórnarmanni í Landvernd, hugnast ekki að straumurinn í flúðunum minnki.

„Þetta er alveg stórfenglegur staður og mikið, magnaður staður að upplifa,“ segir hann. Ef fljótið verði virkjað verði stór hluti flúðanna þurr marga mánuði á ári.

„Ég held að okkar hagsmunir til langs tíma hljóti að vera þeir að gefa framtíðarkynslóðum Skjálfandafljót óvirkjað,“ segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur Friðrik Friðriksson er mótfallinn virkjun í Skjálfandafljóti.

Jörðin Kálfborgará á land að væntanlegri Einbúavirkjun. Bóndinn, Helgi Hallsson, hefur ekki áhyggjur af flúðunum.

„Þær eru margbreytilegar. Og þær verða kannski bara enn margbreytilegri fyrir þetta,“ segir hann.

Helgi og eiginkona hans, Jóhanna Jónsdóttir, myndu hafa tekjur af Einbúavirkjun og eru eindregið stuðningsfólk hennar.

Teikning úr umhverfismatssýrslu af aðveituskurði Einbúavirkjunar.

En Helgi og Jóhanna eiga ekki bara vatnsréttindi í fljótinu heldur myndi stór hluti mannvirkja líka vera á þeirra jörð. Og þau yrðu áberandi: átta metra breiður og um níu til 12 metra djúpur aðveituskurður virkjunarinnar myndi skerast í gegnum túnið neðan við bæinn.

„Hann auðvitað hefur sína ókosti,“ segir Helgi um skurðinn. „Fer hér um túnbletti aðeins,“ segir hann. „En ekki það að það gerir jörðina ekkert óbyggilega fyrir það.“

Áætlað er að uppsett afl Einbúavirkjunar verði 9,8 megavött, og að hún gæti framleitt raforku sem er á við notkun um 20 þúsund meðalheimila.

Heimarafstöð í Svartárkoti í Bárðardal.

Bárðdælingar hafa lengi nýtt vatnsafl til raforkuframleiðslu. Byrjað var að setja upp heimarafstöðvar þar fyrir 1930 og enn framleiða sumir bændur rafmagn sjálfir, eins og í Svartárkoti. En Guðrúnu Tryggvadóttur, bónda þar, hugnast ekki áætlanir um Einbúavirkjun.

„Þetta er náttúrulega bara 9,8 megavatta virkjun, en hún er samt, svona ef við setjum þetta í samhengi við heimarafstöðvar að þá er þetta samt stór virkjun,“ segir hún.

„Þetta er náttúrulega bara rétt fyrir ofan Goðafoss sem er friðlýstur,“ segir Guðrún. „Þetta bara breytir verulega ásýndinni líka í dalnum.“

Friðrika Sigurgeirsdóttir á Bjarnastöðum á ekki land að Einbúavirkjun en er eindregin stuðningsmanneskja hennar.

„Ég er bara spennt fyrir þessum áformum. Ég hef alltaf gaman af að það sé gert eitthvað,“ segir Friðrika. „Og ég hef þá trú að þetta sé til bóta fyrir sveitarfélagið og samfélagið hérna, að við stöðnum ekki alveg framkvæmdalega séð.“

Friðrika Sigurgeirsdóttir, bóndi á Bjarnastöðum í Bárðardal, er eindregin stuðningsmanneskja Einbúavirkjunar.

„Ég sé ekki að Goðafoss sé ónýtur, þó það sé búið að friða hann, þó það sé búið að lána vatnið í tvo og hálfan kílómetra hér uppi í dal áður en það kemur í hann,“ segir Friðrika. „Ég sé engin neikvæð umhverfisáhrif við þetta.“

Meðal annars kemur fram í niðurstöðu Skipulagsstofnunar í umhverfismati að umfangsmikil og óafturkræf áhrif yrðu af röskun á eldhrauni.

„Ég sakna þess nú ekki neitt,“ segir Helgi á Kálfborgará. „Við eigum nóg af því hérna.“

Hann kveðst ekki verða mikið var við efasemdaraddir um Einbúavirkjun í sveitinni. „Ég skynja þær mjög lítið,“ segir hann.

Einbúavirkjun er ekki eini virkjunarkosturinn af þessari stærðargráðu í Bárðardal, því umdeildar hugmyndir hafa verið settar fram um allt að 9,8 megavatta virkjun í Svartá, sem rennur í Skjálfandafljót. Friðrika á Bjarnastöðum myndi hafa tekjur af þeirri virkjun.

„Hún náttúrulega væri kannski lífeyrissjóðurinn okkar til framtíðar,“ segir Friðrika. „Hún myndi breyta því að þessi jörð kannski fer ekki í eyði með okkur.“

Hún segir að enginn sé að taka við búskapnum. „Nei. Hér er ekkert til að lifa af þegar menn hætta að eltast við rollur.“

Foss í Eyjardalsá í Bárðardal.

Anna Guðný Baldursdóttir býr að Eyjardalsá. Þegar Kveikur var í Bárðardal í sumar var að rísa virkjun í bæjaránni.

„Til lengri tíma verður minna vatn í fossinum,“ segir Anna Guðný. „Hvort það verði til þess að hann verði ekki jafn glæsilegur er alveg spurning. Hann er rosalega misjafn milli daga og milli árstíða hvort eð er. Þannig að hann verður kannski þá meira jafnari.“

„Þetta rask mun ekki trufla mig, þannig lagað,“ segir hún um virkjunina í Eyjardalsá.

Virkjun var að rísa í Eyjardalsá þegar Kveikur var í Bárðardal í sumar.

Þótt deilt sé um Einbúavirkjun og Svartárvirkjun virðist Eyjardalsvirkjun, sem verður með 0,7 megavatta uppsett afl, minna en einn tíunda af áætluðu afli hinna, mæta lítilli andstöðu, ef nokkurri.

„Þetta er það sem við getum kallað svona heimavirkjun, þó hún sé mjög stór heimavirkjun,“ segir Gunnlaugur á Sunnuhvoli. „En Einbúavirkjun er á allt öðrum skala,“ segir hann. Hún sé miklu miklu stærri og passi alls ekki inn í nærumhverfið.

Anna Guðný Baldursdóttir segir að raskið sem verður af Eyjardalsvirkjun á hennar jörð trufli hana ekki, þannig lagað.

Landeigendur á Eyjardalsá eiga líka land að fyrirhugaðri Einbúavirkjun. Samið hefur verið við þá um að virkjunin verði reist, en Anna Guðný og eiginmaður hennar eru nýbúin að kaupa jörðina, af foreldrum Önnu Guðnýjar, og hún skrifaði því ekki undir sjálf.

Hún kveðst ekki vita hvort hún hefði skrifað undir. „Ég kann vel við bara, þú veist, fólkið sem býr í kringum mig,“ segir hún.

„Þótt að ég hafi einhverja skoðun þá getur maður svona velt fyrir sér, sko, hvar stendur hún fyrir mér á móti því að gera vel við náungann.“

Anna Guðný kveðst þó ekki vera alfarið á móti Einbúavirkjun. „En þetta er svona… Þetta er mjög stór virkjun.“

Núverandi virkjanir á Íslandi sem eru á bilinu 5 til 9,9 megavött.

Á Íslandi hafa verið reistar átta vatnsaflsvirkjanir sem hafa uppsett afl á bilinu 5 til 9,9 megavött. Þar af eru fimm í opinberri eigu og þrjár í einkaeigu. Sú fjórða á vegum einkaaðila rís nú í Vopnafirði.

Virkjunarhugmyndir sem Kveikur tók saman. Þetta er ekki endilega tæmandi listi.

Orkustofnun heldur ekki sérstaka skrá um virkjunarkosti í þessum stærðarflokki, en Kveikur tók saman átta hugmyndir sem hafa verið settar fram. Þrír af kostunum eru á vegum orkufyrirtækja í opinberri eigu en fimm á vegum einkaaðila. Þetta er ekki endilega tæmandi listi. Hugmyndirnar eru mislangt komnar og óvíst að virkjun rísi á öllum þessum stöðum.

Hólsvirkjun í Dalsmynni í Fnjóskadal, sem var gangsett árið 2020, er 5,5 megavött.

Í Dalsmynni í Fnjóskadal, um hálftíma akstur frá Goðafossi, stendur Hólsvirkjun, gangsett árið 2020. Hún er dæmigerð fyrir virkjanir í þessum flokki að því leyti að raforkan sem hún framleiðir fer ekki beint í tiltekna verksmiðju, heldur er hún seld á almennan markað.

Fyrirtækið sem reisti Hólsvirkjun, Arctic Hydro, er í eigu íslenskra og erlendra fjárfesta, en upphaf þess má rekja í Dalsmynni. Framkvæmdastjórinn, Skírnir Sigurbjörnsson, er ættaður af svæðinu.

Hólsvirkjun er reyndar minni en bæði fyrirhuguð Einbúavirkjun og Hnútuvirkjun, 5,5 megavött. Þessar framkvæmdir ollu ekki háværum deilum, en eins og allar stórar framkvæmdir hefur virkjunin áhrif á nærumhverfið.

Skírnir kveðst alls ekki sjá eftir landinu sem fór undir mannvirkin. „Mér finnst þetta bara stórkostlegt.“ Hann segist koma reglulega upp að virkjuninni, mjög stoltur.

Arctic Hydro var að reisa nýja virkjun í Þverá í Vopnafirði þegar Kveikur kom þangað í sumar.

Framkvæmdir við næstu virkjun Arctic Hydro, sex megavatta Þverárvirkjun í Vopnafirði, voru í fullum gangi þegar Kveikur kom á framkvæmdasvæðið í sumar.

Með framkvæmdunum er votlendi raskað og mannvirki reist á lítt snortnu svæði.

„Vissulega inngrip, já,“ segir Skírnir.

Neðan við stífluna fellur Þverá um mikilfenglegt gljúfur með ljósum líparítmyndunum.

„Ef þú ert að skoða gljúfrin, þá sérðu ekki hingað upp eftir,“ segir Skírnir.

Milli stíflunnar og stöðvarhússins fellur Þverá um gljúfur með ljósum líparítmyndunum.

Allar þessar virkjanir og virkjunarkostir, Hólsvirkjun, Þverárvirkjun, Einbúavirkjun, Svartárvirkjun og Hnútuvirkjun, eiga það sameiginlegt að hafa uppsett afl innan við 10 megavött, og þurfa þess vegna ekki að fara í gegnum rammaáætlun og fyrir Alþingi. Ákvörðunarvald er í raun hjá sveitarstjórn.

En sumar slíkar virkjanir og virkjunarhugmyndir eru bara rétt fyrir neðan 10 megavatta mörkin.

Einbúavirkjun er áætluð 9,8 megavött, Svartárvirkjun í Bárðardal líka, og Hnútuvirkjun allt að 9,3 megavött. Orkubú Vestfjarða hefur hugmyndir um 9,7 megavatta virkjun í Þjóðbrókargili norður á Ströndum. Sumar eru enn nær mörkunum: Brúarvirkjun, sem HS Orka reisti á Suðurlandi, er 9,9 megavött, og Hagavatnsvirkjun ehf. vill reisa allt að 9,9 megavatta virkjun við samnefnt vatn sunnan Langjökuls. Og Arctic Hydro vill reisa 9,9 megavatta Geitdalsárvirkjun á Austurlandi.

Ásdís Hlökk, fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, segir að 10 megavatta stærðarmörkin virki óhjákvæmilega hvetjandi fyrir aðila sem séu að huga að virkjun einhvers staðar í kringum 10 megavöttin að halda sig neðan við þau.

Spurður hvort Arctic Hydro stilli stærð fyrirhugaðrar Geitdalsárvirkjunar af í 9,9 megavöttum til þess að komast hjá því að þurfa að fara í rammaáætlun segir Skírnir framkvæmdastjóri: „Eigum við ekki að segja sem svo að við séum að fikra okkur upp í efri mörkin til þess að geta farið þangað.“ Hvort virkjunin verði átta eða níu megavött þurfi að koma í ljós.

Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro.

Afgreiðsla þriðja áfanga rammaáætlunar tafðist í mörg ár hjá ríkisstjórn og Alþingi, áður en henni lauk loks í sumar.

„Þetta er náttúrulega eitt afsprengi af því í rauninni að rammaáætlun er ekki að virka.“ segir Skírnir. „Bara því miður.“

„Þá fara menn að leita eftir kostum í rauninni sem eru þarna fyrir neðan.“

Á Íslandi eru flestar virkjanir í eigu opinberra aðila. Og arður af þeim rennur í opinbera sjóði. Þegar einkafyrirtæki verða umsvifameiri rennur mögulegur arður í auknum mæli til einkafjárfesta.

„Þetta er ofboðslega erfitt að koma þessu á laggirnar,“ segir Skírnir. En eftir að virkjunin sé komin í gang sé ávöxtunin „ekki gífurlega há,“ en hún sé „rosalega örugg, og hún er fyrirséð,“ segir hann.

Stöðvarhús Hólsvirkjunar niðri við þjóðveginn í Dalsmynni í Fnjóskadal.

Skírnir vill ekki segja mikið um arðsemina af virkjunum eins og Hólsvirkjun. „Eigum við ekki að segja að hún sé ásættanleg fyrir mig,“ segir hann. „Við erum ekki að fara að tala um prósentur eða tölur eða eitthvað.“

Helgi bóndi á Kálfborgará í Bárðardal gefur heldur ekki upp hve miklar tekjur þau hjónin myndu hafa af Einbúavirkjun ef hún verður reist. „Það eru allverulegar. En ég ætla ekki að tjá mig meira um það á þessu stigi,“ segir hann. Það sé bundið í samningi að þau eigi að þegja yfir því.

Helgi Hallsson á Kálfborgará segir að það sé bundið í samningi að hann megi ekki segja hve miklar tekjur hann fengi af Einbúavirkjun.

Spurður hvort þau verði stóreignafólk ef virkjunin verður reist segir hann að þau geti sjálfsagt farið í nokkrar heimsreisur, ef þau vilji eyða í það.

Gunnlaugur á Sunnuhvoli, sem leggst gegn virkjuninni, tekur undir að jákvæð samfélagsleg áhrif á borð við að landeigendur geti fengið tekjur af virkjuninni skipti máli.

„Já, þau gera það að sjálfsögðu,“ segir hann. En það segi þá kannski svolítið um samfélagið „að við þurfum þá að ganga á okkar kannski heilögustu verðmæti“ til að bændur geti lifað af í landinu.

„Hér eru náttúrulega allir mjög tekjulágir,“ segir Friðrika á Bjarnastöðum. „Það er bara staðreyndin. Og við höfum náttúrulega í gegnum árin verið snillingar í því að komast af með lítið. Þess vegna erum við hér ennþá,“ segir hún. „Og þegar við eygjum kannski einhverja framför þá er hún stoppuð af einhverjum utanaðkomandi.“

Helgi á Kálfborgará segir að allt sem sé gert hljóti að skila einhverju út í samfélagið. „Bara að ábúendur þessara jarða hafi kannski aðeins meira í vasanum þýðir það að þeir gera kannski eitthvað,“ segir hann. „Það er ekki víst að þeir fari allir bara til Kanarí og liggi þar.“

Flúðir á virkjunarsvæði fyrirhugaðrar Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti. Rennsli um flúðirnar skerðist verulega ef virkjunin verður reist.

Sú var tíð að leyfi Alþingis þurfti fyrir öllum virkjunum sem voru stærri en 2 megavött. En því var breytt með nýjum raforkulögum eftir aldamót. Þá var markaðsbúskapur líka innleiddur í íslenskri raforkuframleiðslu: samkeppnisumhverfi að erlendri fyrirmynd.

„Það þýðir að leikendur geta selt raforku inn á kerfið, eins og hverja aðra vöru á markaði,“ segir Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. „Þannig að það skapar hvata fyrir ólíka aðila, fjölbreyttari hóp einkaaðila, að fara í framkvæmdir, af því að salan á grænni orku er ábatasöm.“

Forsvarsmenn Arctic Hydro stefna að því að fyrirtækið verði leiðandi einkaaðili á íslenskum raforkumarkaði.

Skírnir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segist alltaf hafa staðið í þeirri meiningu að samkeppni sé drifkraftur allrar framþróunar. „Það að ríkið sé hérna með þrjú fyrirtæki í raforkuframleiðslu, Orkusöluna, Orkubúið, Landsvirkjun, það finnst mér bara vera gjörsamlega, algjörlega út úr kú,“ segir hann.

„Ég vil sjá frekari samkeppni.“

Goðafoss í Skjálfandafljóti.

Nú er verið að endurskoða aðalskipulag fyrir Þingeyjarsveit. Í núgildandi skipulagi segir að sveitarfélagið sé á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót en afstaða sveitarstjórnarinnar í nýju skipulagi á eftir að koma í ljós.

Helgi á Kálfborgará segist ekki eiga eftir að sjá eftir fljótinu eins og það er í dag. „Það er endalaust hægt að sjá eftir kannski landinu,“ segir hann. „Ég sé ekkert eftir þessu fljóti.“

„Þetta fljót sko mun sýna sig eins og það er núna suma daga, þó að þessi virkjun verði.“

Framkvæmdaleyfi fyrir Hnútuvirkjun í Hverfisfljóti hefur verið kært til úrskurðarnefndar.

Þótt Hnútuvirkjun sé komin með leyfisbréf frá Skaftárhreppi eru framkvæmdir ekki hafnar. Leyfisveitingin hefur verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, og nú er niðurstöðu beðið.

„Má maður brjóta land sem maður á á ósjálfbæran hátt?“ spyr náttúruverndarsinninn Jóna Björk. „Það held ég að sé stóra spurningin og mitt mat er það að við megum það ekki. Við eigum að vernda landið og skila því áfram í sem bestu ástandi.“

„Mér finnst ég nú vera frekar umhverfissinni,“ segir landeigandinn Ragnar. „Og vil að það sé gengið vel um landið.“ En hann segist líka vilja að landið sé nýtt, „okkur til framdráttar.“

Fossinn Faxi í Hverfisfljóti. Rennsli í honum skerðist ef fljótið verður virkjað.

Ragnar segist ekki munu sjá eftir landinu ef Hnútuvirkjun verður reist. „Af því að ég þekki landið mjög vel og sé það alveg fyrir mér, hvernig það verður á eftir, þegar þetta verður búið.“ Það sé ekki vond sjón að hans mati.

Sveitarstjórnin í Skaftárhreppi var klofin. Minnihlutinn lagðist alfarið gegn virkjuninni.

„Auðvitað skapast deilur um virkjunarframkvæmdir,“ segir Halla Hrund orkumálastjóri. Þær hafi sést víða á Íslandi, sama hvort deilt sé um stórar virkjanir eða smáar.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri.

„Deilur eru kostnaður fyrir samfélög sem að getur verið mikill,“ segir hún. Sá kostnaður sé sjaldnast tekinn inn í jöfnurnar sem séu notaðar þegar horft sé á það hvort að verkefnin séu arðbær eða ekki.

„Við höfum ýmis tækifæri til að gera hlutina sérstaklega vel þegar kemur að orkuskiptum, af því að við erum til dæmis komin svo langt í því ferli,“ segir Halla.

„Það eru stór tækifæri fyrir Ísland á að ná niðurstöðu um stór mál eins og orkuskiptin samtímis því að hafa haldið í þau verðmæti sem ósnortin náttúra er.“

Við Hverfisfljót.