Vill skylda landeigendur til að stofna félög

Umhverfisráðherra telur koma til greina að skylda landeigendur til að stofna félög um land sem er í sameign. Ekki sé sanngjarnt að örfáir einstaklingar geti komið í veg fyrir að vilji allra hinna nái fram að ganga, til að mynda um hvort friðlýsa eigi svæði eða ekki.

Vill skylda landeigendur til að stofna félög

Í Kveik í kvöld er fjallað um friðlýsingar, en afar hægt hefur gengið að friðlýsa þau svæði sem Alþingi hefur samþykkt að eigi að vernda með ýmsum hætti. Forstjóri Umhverfisstofnunar, sem ber ábyrgð á því að framfylgja samþykktum Alþingis, segir jarðir í fjölmennri sameign hafa tafið mjög framgang friðlýsinga.  

„Það er þannig í dag að jarðir eru að brotna upp, þannig að land sem var einu sinni í eigu eins aðila eða einnar fjölskyldu er núna komið í eigu kannski hundrað manns – og í óskiptri sameign,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

„Sem þýðir það, í raun og veru að þú þarft að fá samþykki hvers eins og einasta landeiganda fyrir friðlýsingunni og nákvæmlega þessum friðlýsingarskilmálum til þess að þeir gangi í gegn. Þetta er það sem við höfum líka lent í miklum vandræðum með.“

Umhverfisráðherra segir kominn tíma til að breyta leikreglum, svo örfáir landeigendur geti ekki staðið gegn vilja allra hinna.

„Það meðal annars væri skoðandi að mínu mati að landeigendur þurfi í svona tilfellum að mynda með sér félög. Og það sé hægt að hafa einhverjar reglur varðandi ákveðna ákvarðanatöku svona líkt og er í húsfélögum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

„Það er kannski ekkert sanngjarnt að einhver einn eða tveir landeigendur geti komið í veg fyrir að vilji allra hinna nái fram að ganga, jafnvel vilji sveitarfélagsins og vilji Alþingis, það er að segja sá vilji að friðlýsa.“

Nánar verður fjallað um friðlýsingar og hægagang í málaflokknum í Kveik í kvöld kl. 20:00.