Vill lög sem vernda uppljóstrara

„Það ætti að vera jákvætt að borgari stígi fram og gefi upplýsingar um hugsanleg brot“, segir héraðssaksóknari. Þekkt sé að reynt sé að rægja uppljóstrara og því þurfi ákvæði í lög sem verndar fólk sem kemur upplýsingum á framfæri.

Undanfarin ár hafa uppljóstrarar um allan heim svipt hulunni af alls konar leynimakki. Hernaðarbrölt, njósnir, peningaþvætti, pyntingar og margt fleira sem venjulegt fólk á erfitt með að gera sér í hugarlund.

Lengi hefur staðið til að setja lög á Íslandi til verndar uppljóstrurum. Forsætisráðherra hefur kynnt frumvarp þess efnis sem til stendur að leggja fram á yfirstandandi þingi.

Þegar þrír stærstu bankar landsins urðu gjaldþrota í bankahruninu haustið 2008 vildi fólk fá að vita hvernig það gat gerst. Sett var á fót embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka möguleg brot innan bankanna og þótti mikilvægt að setja í lög að ríkissaksóknari gæti, að fenginni tillögu frá sérstökum saksóknara, fallið frá ákæru á hendur þeim sem hefði frumkvæði að því að bjóða bjóða lögreglu eða fá henni upplýsingar eða gögn sem gætu leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða verið mikilvæg viðbót við rannsókn mála.

Mikilvægt að fólk geti stigið fram

Þegar embætti sérstaks saksóknara var lagt niður og embætti héraðssaksóknara stofnað árið 2015 féll þessi heimild úr gildi. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að það væri æskilegt að embættið hefði sambærilega heimild og var í lögum um sérstakan saksóknara eða gæti á einhvern hátt samkvæmt lögum verndað uppljóstrara.

„Sérstaklega þegar um er að ræða harðan, lokaðan hóp. Þannig að fáir hefðu vitneskju um brot þá gæti skipt máli að hafa þann möguleika að einn gæti skorið sig úr og komið fram með upplýsingar.“

Ólafur Þór segir slíka umræðu hafa átt sér stað víða um Evrópu og flestir séu á því að það sé æskilegt að slík heimild sé til staðar og hjálpi til við að sporna gegn glæpum.

„Ég myndi vilja sjá uppljóstraraákvæði þar sem væri annars vegar hugað að þessu atriði, það er að segja hvernig honum reiddi sjálfum af við það að gefa upplýsingar, og síðan ákvæði sem að myndu gera ríkinu kleift að vernda uppljóstrara.“

Ólafur Þór segir að það sé gríðarlega mikilvægt að fólk geti stigið fram og upplýst um brot en fólk hafi hins vegar oft veigrað sér við því af ótta við afleiðingarnar.

„Vegna þess að í þeim tilvikum sem menn stíga fram þá hefur það komið upp að þeir hafi einhvern veginn orðið sjálfir miðpunktur málsins og þeir sem að hafa átt aðra aðild að brotinu hafa gert sér far um það að bera á hann sakir.“