Vill ekki að börnin noti snjallsíma

Haraldur Þorleifsson, stofnandi tækni- og hönnunarfyrirtækisins Ueno, telur það blasa við að takmarkanir verði settar á notkun snjalltækja í framtíðinni, líkt og gert var í tengslum við reykingar. Hann segir að við höfum enn ekki gert okkur grein fyrir því hvað við höfum í raun og veru búið til.

Vill ekki að börnin noti snjallsíma

Haraldur Þorleifsson er stofnandi tækni- og hönnunarfyrirtækisins Ueno, en meðal viðskiptavina voru Google, Facebook og önnur stórfyrirtæki í vef- og snjalltækaheiminum.

Það vakti mikla athygli þegar Haraldur seldi fyrirtækið til eins stærsta samfélagsmiðils heims, Twitter. Söluverðið hleypur á milljörðum þó að nákvæm tala fáist ekki gefin upp.

Haraldur starfar nú fyrir Twitter. En þrátt fyrir að hann lifi og hrærist í heimi samfélagsmiðla og snjalltækja, vilja hann og kona hans, Margrét Rut Eddudóttir, ekki að börn þeirra noti slík tæki.

„Dóttir okkar er tíu ára. Ég held hún sé bara ein af fáum í sínum bekk sem er ekki komin með snjallsíma og ég held að það verði ekkert næstu árin,“ segir Haraldur.

Með þessu tekur Haraldur undir með fjölmörgum stjórnendum og frumkvöðlum í tæknigeiranum, svo sem Steve Jobs, stofnanda Apple; Bill Gates, stofnanda Microsoft, og Sundar Pichai, framkvæmdastjóra Google, sem hafa lýst því hvernig þau takmarka eða koma alveg í veg fyrir notkun barna sinna á snjalltækjum.

„Þessi tæki eru mjög erfið fyrir fullorðna,“ segir Haraldur. „Við verðum mjög auðveldlega háð þessu, og börn þá bara enn þá frekar. Ég held að við séum ekki enn þá búin að gera okkur grein fyrir því hvað við erum búin að búa til í þessum geira.“

Hann bendir á hversu stutt er síðan snjalltækin urðu til.

„Og á svona fimmtán árum þá er allt lífsmynstrið breytt hjá fólki. Það kæmi mér ekki á óvart að einhvern tímann í framtíðinni yrðu settar einhverjar takmarkanir á það hvernig þessi tæki eru notuð,“ segir Haraldur og ber saman við þær miklu takmarkanir á tóbaksreykingum sem hafa verið settar.

Rætt verður við Harald í Kveik á RÚV í kvöld.

Þar kemur meðal annars fram að hann hefur nú snúið sér að tónlist og von er á hans fyrstu sóló plötu. Hann gefur út undir listamannsnafninu Önnu Jónu Son til minningar um móður sína, Önnu Jónu Jónsdóttur, sem lést í bílslysi árið 1988 þegar Haraldur var tíu ára.

„Ég var búinn að vera að leita eftir því hvernig ég ætti að minnast hennar. Og tónlistin er svolítið hliðarspor í því sem ég hef gert. Mér fannst eins og það væri gott að hafa einhvern sér hjúp yfir því. Einhvers konar „imposter syndrome“ pæling: ef ég set þetta undir annan hatt þá kannski þori ég að gera meira,“ segir Haraldur.

Kveikur er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:05.

Sigurður Guðmundsson er upptökustjóri plötunnar. Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / RÚV.