„Við tölum ekkert um þetta“

Umræðan um Hvalárvirkjun hefur haft slæm áhrif á íbúa Árneshrepps. Þetta er mat verslunarstjórans í hreppnum. Fólk sem hafi verið vinir lengi talist jafnvel ekki við.

Rúmlega helmingur þeirra sem eru með lögheimili í hreppnum kaus fólk sem er fylgjandi virkjuninni í síðustu sveitarstjórnarkosningum og tæplega helmingur kaus fólk sem er andvígt henni. Íbúar hreppnsins, sem er sá fámennasti á landinu, hafa alltaf verið samheldnir enda oft þurft að treysta á hvort annað yfir myrkustu mánuðina.

Thomas Elguezabal , verslunarstjóri í Norðurfirði, er nýfluttur í hreppinn. Hann segir að hingað til hafi áformin um Hvalárvirkjun gert lítið annað en að sundra samfélaginu.

„Jafnvel fólk sem hefur verið vinir lengi talast ekki við og það er sorglegt“ segir Thomas. „Ég tel að framkvæmdirnar hafi aðeins valdið ósætti meðal íbúanna.

Hrefna Þorvaldsdóttir, sem býr í Árnesi 2 segir að íbúar sneiði hjá umræðunni um Hvalárvirkjun.

„Við tölum ekki um þetta, við sem erum ekki sammála. En þetta er alltaf þarna,“ segir hún. Fólki hafi gengið þokkalega að taka þátt í samfélaginu en „maður finnur það og það hljóta allir að finna það að það er eitthvað sem truflar. Sem er ekki gott.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Í þættinum eru fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir skoðaðar og rætt við íbúa hreppsins um sambúðina, virkjunina og framtíð Árneshrepps sem nú stendur höllum fæti sökum fólksfækkunar.