Var margoft svangur sem barn

Um tíu þúsund börn búa við fátækt á Íslandi og talið er að allt að þrjú þúsund þeirra búi við sárafátækt og líði skort. Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að einangrast félagslega, þau fara síður í framhaldsnám og sum þeirra glíma við fátækt allt lífshlaupið.

Gunnar Ingi Gunnarsson ólst upp við fátækt. Hann flutti oft sem barn og skipti sjö sinnum um grunnskóla.

„Móðir mín var í rauninni mestan tímann einstæð, hún er öryrki þannig að hún var aldrei með neinar tekjur,“ segir hann.

Gunnar Ingi segir að hann hafi til að mynda aldrei fengið að læra á hljóðfæri eða æfa íþróttir þar sem peningar voru af skornum skammti. Þá átti móðir hans ekki alltaf fyrir mat handa fjölskyldunni. Aðspurður segist hann muna eftir því að hafa verið svangur sem barn: „Já, já, já, margsinnis, mjög oft.“

„Krakkarnir tóku alveg eftir þessu, sáu þetta alveg. Og krakkar á þessum aldri, við erum svo grimm þegar við erum börn,“ segir Gunnar Ingi. Það sem hafi jafnvel átt að vera góðlátlegt grín eða stríðni hafi endað í einelti.

„Þetta kreistir fram svolítið þessa kvíðatilfinningu sem ég upplifði á þessum tíma, að rifja þetta upp,“ segir Gunnar Ingi en það sé eitthvað sem hann þurfi að lifa með. Svona kvíði sé mun alvarlegri en fólk geri sér grein fyrir.

Gunnar Ingi segist hafa horft upp á fólk, sem alist hefur upp í fátækt, verða áfengi og fíkniefnum að bráð: „Ég gat svo sem alveg farið þangað sjálfur,“ segir hann en „flest allir festast bara í, eins og ég kalla þetta, forarpyttinum sem þau eru í.“

Fjallað verður um fátækt á Íslandi í tvöfaldri útgáfu af Kveik í kvöld, þriðjudag, klukkan 20.05.