*

Vændi á Íslandi

Það er gríðarmikið framboð af vændi í Reykjavík, það er auðveldara að kaupa það en ýmsan annan varning á netinu. Samt er áratugur frá því að ný lög tóku gildi, þau áttu að ná til fólks í vændi og auðvelda þeim leið út. Þá átti að útrýma nektardansi sem samt er hægt að kaupa í Reykjavík.

Hvers vegna hefur okkur ekki gengið betur og hvernig heimur er þetta, sem flestum er framandi?

Í Kópavogi hittast Rafaela, Jessica og hinar konurnar sem starfa á kampavínsklúbbnum Goldfinger heima hjá Jaroslövu Daviðsson, en þær búa flestar hjá henni þegar þær eru á landinu. Sumar þeirra hafa unnið fyrir hana í meira en áratug. Konurnar eru að gera sig tilbúnar fyrir kvöldið. Og það stendur mikið til, enda búið að selja staðinn.

Jaroslava er búin að selja Goldfinger. Aðspurð hvers vegna svarar hún: „Ég er ung þreytt kona. Ég er búin að gera nóg fyrir þennan bisness þessi 20 ár, það er bara meira en nóg.“

Jaroslava Davíðsson, fyrrum eigandi Goldfinger (Mynd: Arnar Þórisson)

Lengi vel var nektardans hluti af skemmtanaflórunni á Íslandi. „Stelpurnar voru að strippa alveg allsberar á sviðinu, það var rosa gaman það var öðruvísi stemmning“ segir Jaroslava.

Smám saman fór að bera á ýmis konar glæpastarfsemi samfara rekstri nektardansstaðanna og grunur um að þar væri vændisstarfsemi og jafnvel mansal. „Það var aldrei neitt svona á staðnum en stelpurnar náttúrulega frjálsar að gera allt sem þau vilja eftir vinnuna,“ segir Jaroslava og heldur áfram: „ég get ekki sagt að ég passi upp á þau 100% en við erum öll fullorðið fólk.“

Lögum um nektardans var breytt árið 2010. Þá var ekki lengur hægt að sækja um undanþágu til að starfrækja nektardansstaði. Nektardans var bannaður og það einnig gert ólöglegt að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru með öðrum hætti.

Samkvæmt Jaroslövu er allt frekar frjálst núna og aðspurð hvort mikið hafi breyst svarar hún: „Til dæmis það er rosa næs þegar kemur svona bachelorpartý steggjapartý, það er þegar þetta er gaman. Þá kemur strákurinn sem sko í kringum hann stelpurnar dansa og það kostar líka.“ Þær eru samt í fötum, „með alls konar svipur“ bætir hún við.

Rafaela og Jessica unnu saman á Ítalíu áður en þær komu til Íslands. Þær segja að það sé frábrugðið að vinna á hér en þar: „Af því hér má maður sitja í sófanum og spjalla við fólk en þar verður að dansa; það er allt öðruvísi. Og mun erfiðara, satt að segja.“

Á Goldfinger er hægt að kaupa allt frá vínglösum á 6.000 krónur upp í kampavínsflöskur fyrir mörg hundruð þúsund krónur, handa konunum sem þar starfa. En hvað er það sem viðskiptavinurinn fær fyrir það?

„Þú kemur og drekkur og ef þú ert tilbúinn að borga 200 þúsund eða whatever fyrir flösku og fá félagsskap. Æðislegt, það er bara hans val,“ segir Jaroslava.

Rafaela og Jessica starfsmenn á Goldfinger (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Viðskiptavinurinn borgar sem sagt fyrir félagsskap kvennanna, kvenna eins og Rafaelu og Jessicu. Þær segja starfið eiga ekkert skylt við vændi. „Fólk skilur þetta ekki; þegar fólk stendur utan við þá sér það ekki alla góðu kostina. En það er það ekki, alls ekki.“

Útsendari Kveiks fór á Goldfinger með falda myndavél og athugaði málið en honum var ekki boðið upp á nektardans.

Nektardans í boði

Í Reykjavík eru tveir kampavínsklúbbar. Verðskránni þar svipar til þeirrar á Goldfinger. Á kvöldin stendur starfsfólk fyrir utan og reynir að sannfæra fólk um að koma inn fyrir.

Margar stelpurnar ferðast frá einum klúbb til annars,“ segir Jaroslava. Hún segist ekki spyrja þær að því hvað þær geri í sínum frítíma. „Það kemur mér ekkert við,“ segir hún.

Við Tryggvagötu er kampavínsklúbburinn Crystal. Kveikur fór þangað með falda myndavél. Þar var honum boðið upp á kynæsandi dans. „Já, í V.I.P. getum við dansað og spjallað saman og það er meira út af fyrir sig“ segir stúlkan sem býður upp á dansinn. Dansinn kostar þúsund krónur á mínútu og lágmarkið er 10 mínútur. Þegar hún er spurð að því hvað æsandi dans þýði, hvort það þýði að aðeins megi horfa á eða hvort það megi gera eitthvað meira svarar hún: „Þú verður að kaupa til að komast að því.“

Nokkru seinna fór útsendari Kveiks aftur á Crystal. Í það skiptið keypti hann dans fyrir 10 þúsund krónur. Eftir að hafa reitt fram greiðsluna byrjaði kona að dansa fyrir hann. Svo hneppti hún frá skyrtunni hans og hóf að hátta sig úr. Konan fór úr næstum öllu, beraði á sér brjóstin og dansaði fyrir útsendarann. Þá bauð hún honum að kyssa sig og finna húð sína við hans. Loks bauð hún honum að sleikja á sér brjóstin.

Eigandi Crystal, Haraldur Jóhann Þórðarson, var ekki til í viðtal en sagði það vera brot á vinnureglum staðarins að selja nektardans, það væri ekki í boði af hálfu Crystal og væri brottrekstrarsök kæmist slíkt upp.

Kveikur sendi einnig mann inn á Shooters fyrir áramót til að kanna hvað þar væri í boði. Honum var meðal annars boðið að kaupa eiturlyf og vændi. Síðar fór útsendarinn með falda myndavél inn á staðinn.

Þegar inn var komið greiddi útsendarinn fyrir dans og fór með konu upp á efri hæð staðarins. Þar fóru þau inn í lokað rými, konan fór úr öllu nema nærbuxum og dansaði í kjöltu útsendarans.

„Það eiga ákveðnar reglur að gilda um þetta“

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að það sé alltaf matsatriði hverju sinni hvort það sé skýrt að nektardans sé bannaður á Íslandi. „Það fer svolítið kannski eftir því hvort þetta sé af kynferðislegum toga eða ekki.“

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Þegar henni er sýnd upptaka af dansinum sem útsendari Kveiks tók inni á  Shooters, segir hún augljóst að það sem þar fór fram sé ólöglegt. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn tekur í sama streng: „Það eiga ákveðnar reglur að gilda um þetta og miðað við þetta þá er þetta ekki í samræmi við það.“ Hann segir að miðað við það sem sjáist á myndbandsupptökunni þá hafi verið framið lögbrot á Shooters. Karl Steinar segir að eitthvað verði að gera: „Sjálfsagt væri það mjög æskilegt að við myndum gera það.“

Hulda Elsa segir að í mörg ár hafi verið boðið upp á nektardans í borginni og það verði áfram þannig. Taka þurfi fastar á málum, meðal annars með einhvers konar aðgerðarstefnu til að taka á vandanum.

Þegar Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkur er spurð að því hvers vegna þessir staðir séu með rekstrarleyfi í Reykjavík, svarar hún: „Við getum ekki komið í veg fyrir þetta, við getum ekki valið hvurslags barir opna og það er tryggt að þar séu engin lokuð rými, það er tryggt að það er farið að öllum lögum og reglum.“

Þetta er ekki rétt, því eins og Kveikur komst að, er ekki tryggt að inni á klúbbunum séu ekki lokuð rými og að þar sé farið að lögum og reglum  - eftir að úttekt borgarinnar er gerð.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkur (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Rúmum mánuði eftir að viðtölin voru tekin, eða í byrjun febrúar 2019, var Shooters lokað og lögreglan innsiglaði staðinn. Grunur leikur á að þar hafi farið fram umfangsmikil og skipulögð brotastarfsemi, ekki eingöngu vændi og nektardans heldur einnig peningaþvætti, eiturlyfjasala og mansal. Staðurinn var opnaður aftur fyrir skömmu. Þá fór útsendari Kveiks aftur á staðinn. Ekkert hafði breyst, allt var eins og áður.

Vændi um allt

Árið 2009 var ákveðið að fara svokallaða sænska leið í löggjöf um vændi, sem byggist á því að sala á vændi er leyfð en kaupin gerð ólögleg. Í greinargerð með lögunum var vændi skilgreint sem ofbeldi.

Í desember þá voru um það bil sextíu einstaklingar sem auglýstu vændi á netinu að mati Karls Steinars. „Við teljum að það sé svona dæmigerður fjöldi sem er aðgengilegur hérna á höfuðborgarsvæðinu, “ segir og hann. „Og það sem er kannski líka nýtt í þessu er að við sjáum að það er aðeins að þróast út á land.“

Karl Steinar segir að mest séu það erlendar stúlkur sem auglýsi vændi til sölu. Þær komi til landsins í ákveðinn tíma í senn, jafnvel nokkrar saman.  „Síðan er íslenski hlutinn hann er svona, ég verð reyndar að viðurkenna að líklega er vitneskja okkar á því sviði svona heldur takmarkaðri heldur en hinu.“

Sé staðan svipuð hér á landi og í Svíþjóð og Noregi má gera ráð fyrir að þrjár af hverjum fjórum konum í vændi séu erlendar, sem þýðir þá að 10 til 20 íslenskar konur séu í hópi vændiskvenna á hverjum tíma.

Ein þeirra er kona sem nefnir sig Guggu Jóns. Hún hefur selt vændi í rúm átta ár. „Þetta er bara spennandi og skemmtilegt og svo græðir maður á þessu líka“ segir Gugga.

Gugga er líklega þekktasta vændiskona landsins. Margir þeirra karla sem kaupa vændi vita hver hún er. „Mér hafði aldrei dottið þetta í hug sjálfri, að fara að stunda vændi“ segir hún. Hún hafi á þeim tíma verið þunglynd og frekar langt niðri og ekki haft neitt gaman af lífinu. „Síðan lendi ég í því í bílferð með vini mínum eitt skiptið þarna og við fórum að ræða vændi.“

Gugga lýsti því yfir við vin sinn að hún væri hlynnt vændi svo framarlega sem báðir aðilar væru því samþykkir. Hún segir að vinurinn hafi þá boðið henni peninga fyrir kynlíf.

„Mér brá alveg svakalega við að heyra þetta því að ég hafði aldrei ímyndað mér mig fara í vændi,“ segir hún.  Síðan hafi hlutirnir þróast og smám saman hafi hún farið að leita að og finna viðskiptavini á netinu.

Gugga segist fá heilmikið út úr vændi. Henni líði vel eftir á. „Eftir góðan hitting þá verð ég alveg þremur sentimetrum hærri,“  segir hún og brosir. Að sjálfsögðu sé hún á móti öllu mansali og því þegar fólk sé pínt í vændi, enginn sé hlynntur slíku.

Aðspurð hvað hún vilji segja við fólk sem segi hana fara með fleipur segir hún: „Það eru margir svo neikvæðir út í vændi og þetta er svo gamaldags hugsun finnst mér, það er alltaf hugsað þannig að mikið hlýtur manneskjan að vera langt leidd og alveg bara komin í ræsið fyrst hún fór að gera þetta. Það getur engan veginn verið bara að konan sé gröð.“

Þegar Gugga er spurð að því hvers vegna hún geri þetta ekki frítt, svarar hún: „Ja þeir vilja borga. Sko með því að borga þá ríkir svo mikill trúnaður, hann þorir kannski að spyrja mig um eitthvað sem hann hefur aldrei þorað að spyrja neina konu áður af því að hann myndi skammast sín fyrir að hún myndi halda að hann væri einhver pervert bara.“

Gugga talar algjörlega á skjön við nær alla aðra sem fjalla um vændi hér á landi. Enda er vændi ofbeldi í skilningi laganna.

„Þeir sem koma til okkar og hafa verið í vændi hafa yfirleitt flestir ef ekki allir hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi einhvern tímann á ævinni“ segir Anna Þóra Kristinsdóttir, sálfræðingur Stígamótum.

Anna Þóra Kristinsdóttir, sálfræðingur (t.v.) og Anna Bentína Hermansen, ráðgjafi hjá Stígamótum (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Í fyrstu upplifi fólk mikla stjórn, segja jafnvel að það sé æðislegt að stunda vændi„og þær selja sér þá hugmynd í fyrstu til þess að geta haldið áfram,“ segir Anna Bentína Hermansen, ráðgjafi hjá Stígamótum.

„Oft lýsa þær því þannig að það gerist kannski bara óvænt eða svona óvart að þær kannski eru einar og ætla að leita sér að félagsskap“ segir Ragna Björg Guðbrandsóttir, verkefnastjóri hjá Bjarkarhlíð. Konurnar hafi ef til vill sagt nei við einhvern til að byrja með en fái svo þá spurningu hvort þær séu til, fái þær peninga fyrir.

„fyrir konu sem er í vanda og er kannski illa sett þá getur hún stundum talið sér trú um að þetta gæti kannski gengið,“ Segir Ragna Björg.

Allar konurnar sem leita til Stígamóta segja að þær hafi farið í gegnum tímabil þar sem þær voru mjög sáttar, segir Anna Bentína, ráðgjafi. „Þar sem þær upplifðu ákveðna svona sjálfsstyrkingu í gegnum það að selja líkama sinn“ segir hún. Konurnar hafi jafnvel fengið ákveðið egópúst á því að selja vændi „en það að þú þurfir þess á þennan hátt gefur til kynna að þú hafir mjög brotna sjálfsmynd.“

Borgaði stundum með sér

Eva Dís Þórðardóttir bjó í Danmörku þegar hún var ung kona. 24 ára hóf hún störf á vændishúsum í Danmörku. Þá seldi hún fylgdarþjónustu.

„Ég náttúrulega bara bjó mér til karakter, bjó mér til persónu sem ég lék þegar ég var þarna þannig að ég gat svona svolítið bara tekið mig til hliðar og verið bara hún og hún var sexy, sæt og skemmtileg.“ Hún heldur áfram:

Eva Dís borgaði fyrir aðgengi að herbergi í vændishúsinu og greiddi hluta af launum konunnar sem vann á símanum. Til að eiga fyrir því þurfti hún að sofa hjá tveimur á vakt en hver vakt var 8 klukkustundir.

„Sko stundum kom enginn og þá borgaði maður með sér,“ segir Eva Dís, „en ég held ég hafi mest tekið 14, á einni vakt“ bætir hún við. Eva Dís segir að hefði hún verið spurð að því þá hvernig henni liði hefði svarið verið: „Þetta bara æðislegt kynlíf er æðislegt.“

Eva Dís Þórðardóttir, fyrrverandi vændiskona (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Eva Dís hafði verið beitt miklu kynferðisofbeldi á uppvaxtarárum sínum og sjálfsmynd hennar var mjög brotin. Á þeim tíma hafi hún oft farið heim með mönnum af djamminu sem hún þekkti lítið sem ekkert.  „Og mér einhvern veginn fannst bara betra að fá bara peninga heldur en að vera að já bara fara heim með einhverjum mönnum úr bænum“ segir hún.

„Í mínum huga var þetta hinn persónuleikinn sem var að gera þetta og ég gat ekki viðurkennt það fyrir einum né neinum að ég væri vændiskona. Það var bara svo ofboðslega mikil skömm og svona ógeð á sjálfri mér.“

Einn daginn þegar Eva Dís var á leiðinni heim eftir vakt mætti hún kaupanda í strætó. „Og það var bara algerlega kippt undan mér fótunum. Mér fannst ég bara ekki hafa neina stjórn á aðstæðunum og algerlega vera á hans valdi hvað hann ákvað að gera í þessum aðstæðum“ segir hún og bætir við: „Verulega óþægilegar hugsanir, þetta var verulega vont.“

Anna Bentína segir: „Þó að þú hafir í einhvern tíma jafnvel einhver ár sért með þessa mynd í höfðinu að þú sért fullkomlega hamingjusöm og þetta sé frábært þá ertu meira að selja þér þá hugmynd heldur en það sé þannig í raun og veru.“ Hún heldur áfram: „En ég vona innilega að þær sem segi þetta að þær haldi í þá upplifun því þegar þær hrynja þá verður hrunið rosalega mikið.“

Aðeins 48 sakfellingar á 10 árum

Engar stórar rannsóknir hafa verið gerðar á vændi hér á landi, hvorki áður en lögum var breytt né eftir. Það er því erfitt að fullyrða um hvaða áhrif lagabreytingin hefur haft en tilfinning þeirra sem best til þekkja er sú að eftirspurn og framboð sé sífellt að aukast.

„Við sjáum það líka bara í auglýsingum frá þeim sem eru að koma hingað til landsins og svo framvegis að það er mikið um þetta“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á Suðurnesjum.

Þessi aukning endurspeglast ekki í tölum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Frá því að lögin tóku gildi hafa 202  mál þar sem grunur leikur á kaupum á vændi verið skráð í bækur lögreglunnar. Í 48 tilvikum var sakfellt fyrir vændiskaup, þar af voru 42 sektaðir og sex fengu fangelsisdóm fyrir ítrekuð vændiskaup.

Á þessu tímabili hafa 16 mál þar sem grunur lék á að þriðji aðili væri að hagnast á vændi borist inn á borð lögreglu. Í einu slíku máli var sakfellt.

Sum árin eru afar fá mál skráð eins og árin 2014, 15, 16 og sautján. „Vændismálin eru, ekkert efst á borði hjá okkur“ segir Karl Steinar. „Í mínum augum má eflaust gera betur.“

Kaupendurnir eru að meirihluta íslenskir karlmenn. „Ekki túristarnir eins og oft hefur verið talað um. Þeir eru alla vega ekki að koma inn í okkar aðgerðum,“ segir Karl Steinar.

Samkvæmt tölum frá lögreglunni í Svíþjóð og Noregi kaupa tíu til þrettán prósent karla vændi þar. Ef þessar tölur eru yfirfærðar á Ísland eru hér þrettán til sautján þúsund menn sem kaupa vændi. Flestir eru á aldrinum 30-50 ára.

Jafn auðvelt að kaupa vændi og panta mat

„Vændi fylgir ofbeldi og rannsóknir frá Svíum hafa sýnt að 75 prósent þeirra um það bil sem kaupa vændi eru þá giftir karlmenn,“ segir Alda Hrönn og bætir við: „þetta var inni á hótelum, á gistiheimilum og svo framvegis. Núna er þetta í airbnb íbúðum meira oft á dagvinnutíma þegar nágrannarnir eru jafnvel ekki heima.“

„Það er auðvitað eitthvað sem við viljum ekki að hundruðir manna vilji á hverjum tíma að nálgast líkama kvenna og borga fyrir að misnota þær“ segir Heiða Björg.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Karl Steinar segir að þetta einstaklinga sem hafi fengist við vændi í nokkrum löndum og Ísland sé bara einn áfangastaður. „Þá eru þetta einstaklingar sem eru að koma tveir þrír fjórir saman en raunverulega enginn þeirra hefur litið á sjálfan sig sem þolanda mansals,“  segir Karl Steinar.

Um hábjartan dag í miðri viku mælum við okkur mót við nokkrar vændiskonur. Við höfðum samband við þær í gegnum síður sem bjóða vændi. Við sögðumst vera hjón að leita að smá stundargamni. Úrvalið var feykinóg og svo virðist sem það sé jafnauðvelt að kaupa vændi eins og að panta mat eða annan varning á netinu. Við förum og hittum nokkrar.

Þær fyrstu sem við hittum búa tvær saman, segjast vera vinkonur. Við vitum að í sama húsi býr þriðja erlenda konan sem stundar einnig vændi.

„Þetta er einfalt mál, maður gerir þetta fyrir peningana“ segir önnur vændiskonan. „Ég lít bara á þetta sem starf. Enginn neyddi mig til þess. Og hver sú kona sem væri í þessu tilneydd, hún talaði ekki við ykkur. Það ætti að vera ljóst að séu margir í einni íbúð þá vekur það upp spurningar. Við höfum verið í Sviss og þar er þetta bæði löglegt og öruggt. Við ferðumst yfirleitt saman og tækjum ekki þá áhættu að fara þangað sem ég væri í hættu.“

Þær biðja okkur loks um að fara, segja að umfjöllun í fjölmiðlum eyðileggi viðskiptin. Við færum okkur aðeins um set, í næstu götu. Þar höfum við mælt okkur mót við Kötju. Katja segist vera af afrískum og suðuramerískum uppruna. Draumurinn um betra líf rak hana í vændi.

Katja, starfandi vændiskona (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Þetta er líf mitt og ég er ekki ánægð með það“ segir hún og heldur áfram: „Ég á vinkonu í London og ég á vin í Kanada og vin í Bandaríkjunum; þegar ég vann í verksmiðju fékkst hún við þetta. Nú er hún í Kanada, gift kona, með börn og rekur búð. Hún aflaði fjár til að breyta lífi sí og ekki að henni líkaði það. Hver sú kona sem stendur í þessu líkar það ekki.“ Katja kemur úr mikilli fátækt, faðir hennar er látinn og hún ferðast þar sem hún gat ekki annað gert. „Mamma veit ekki hvað ég fæst við og ekki heldur bræður og systur“ segir Katja. „Ég á engan föður og fólkið mitt veit ekki af því sem ég geri. Ég borga líka fyrir nám systur minnar og bróður því ég vil ekki að þau endi eins og ég.“

Katja segist ekki ætla að selja sig lengi, í hámark tvö til þrjú ár. Hún telur þetta ekki vera framtíðarstarf sitt. „Ég vil giftast. Ég á kærasta, en hann veit ekki hvað ég fæst við. Hann veit það ekki og hann er ekki með vinnu. Svo að ég þarf að afla peninga til að geta farið að lifa. Ef ég kem upp búð, eignast börn. Ég vil eignast börn og lifa fjölskyldulífi. Mér þykir ekkert varið í þetta“ segir hún að lokum.

Að endingu hittum við Aly á hótelherbergi í miðbænum. Þegar hún er spurð að því hvers vegna hún fæst við þetta svarar hún: „Af því í heimalandi mínu kemst maður ekki af. Það er ógerlegt á launum eins manns.“ Aly er frá Moldavíu. Hún segir að þetta sé auðvelt og í þessu liggi miklir peiningar.

Hún þekkir margar sem eru í þessu starfi og telja þær almennt að þetta sé í lagi. „ Ég á ekki erfitt með þetta og mér er alveg sama. Til að þú vitir það; athöfnin tekur mest aðeins fimm mínútur og mér er alveg sama. Þú skilur. Snöggt og fljótt. Tekur ekki langan tíma og snertir mig ekki“ segir hún og heldur áfram: „Það er eins og að fara á klúbb um kvöld og drekka mikið og hittir þar einhvern og gerir eitthvað. Munurinn er sá að ég geri þetta í skiptum fyrir eitthvað og aðrar stúlkur gera það fyrir ekki neitt. Svo að þetta er það sama.“

Aly starfandi vændiskona (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Aly segist ekki finna fyrir neinu meðan á samförunum stendur. „Það er dálítið undarlegt, held ég. En ég finn ekki til neins“ segir hún. Öðru máli gegnir með kynlíf með eiginmanninum. „Þar er tilfinning.“ Aðspurð hvort henni finnst hún vera að leika hlutverk, vera tvær persónur svarar hún: „Já, tvíbura.“

Íslenskar vændiskonur

Veruleiki íslensku vændiskvennanna er aðeins annar en þeirra erlendu. Minna er vitað um þær og erfiðara er fyrir lögreglu að nálgast þær. Þær auglýsa frekar á einkamálasíðum og í einkaskilaboðum og gangverðið er svipað hjá þeim öllum.

„Ég rukka 30 þúsund kall á klukkutímann og 20 þúsund á hálftímann“ segir Gugga. „Og ekkert anal í því og ég deep throata ekki heldur og síðan er hægt að fá bara tott fyrir 15 þúsund.“

Íslensku vændiskonurnar búa í litlu samfélagi, eiga frekar á hættu að þekkjast á förnum vegi og að kúnnarnir vilji koma heim til þeirra í tíma og ótíma.

„Ég er búin að þjálfa yfir 30 stelpur“ segir Gugga. „Margar stelpur sem ég hef kynnst í gegnum þetta þær hoppa inn og út í þetta, kannski bilaði bíllinn og síðan byrja þær kannski með strák þá hætta þær í vændinu, ég veit ekki um neina sem hefur verið svona að alltaf í svona langan tíma eins og ég.“

Þessar konur, sem og karlar sem hafa stundað vændi, finna síðar fyrir mikilli skömm sem getur tekið áratugi að vinna úr, takist það á annað borð.

Anna Þóra, sálfræðingur hjá Stígamótum segir að 90% einstaklinga sem komi úr vændi upplifi skömm og 66% þeirra höfðu gert tilraun til sjálfsvígs. 70% þeirra sem hafa verið í vændi upplifa áfallastreitu.

„Áfallastreita kemur í kjölfar erfiðra atburða eins og stríðsátaka eða alvarlegra náttúruhamfara eða kynferðisofbeldis“ segir Anna Þóra. Afleiðingar vændis séu því í raun þær sömu og þegar fólk hefur lent í stríðsátökum eða náttúruhamförum. Skömmin sé gríðarleg, þá fylgi vændi mikill kvíði, þunglyndi og sjálfshatur.

„Ég fékk stundum svona ógeðshroll þú veist svona bara á sjálfri mér“ segir Eva Dís og heldur áfram: „ég var ekki alveg að átta mig á því hvað það var það var ekki fyrr en ég fór að taka þetta upp og ég fór að vinna úr þessu að ég fer að átta mig á hvað mér finnst ég ógeðsleg.“

Svo eru þær sem eiga við margþætt vandamál að stríða. Kveikur talaði við eina sem glímir við andleg veikindi og selur sig til að eiga fyrir heimsóknum til barnsins síns. Sumar vændiskvennanna eru með fötlun, aðrar sjá enga aðra leið til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

„Þegar maður er kominn út í þetta þá þá er þetta framfærslan mín“ segir Eva Dís. „Ekki labbar maður og sækir um atvinnuleysisbætur þá þarftu að gefa upp hvað þú ert búin að vera að gera.“

Gugga segir auðvelt að reikna út hverjar tekjurnar séu að meðaltali. Sé til dæmis miðað við eitt skipti á dag, alla daga mánaðarins séu það 600.000 krónur á mánuði. Af því er ekki greiddur skattur.

Gugga Jóns, starfandi vændiskona (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Svo eru þær sem selja sig fyrir næsta fíkniefnaskammt. Vændi tengist nefnilega undirheimum Íslands og þessir tveir heimar skarast oft. Einn viðmælandi Kveiks seldi bæði fíkniefni og neytti þeirra lengi vel. Hann þekkir ótal dæmi um konur sem voru neyddar í vændi til að fjármagna neysluna.

„En líka dæmi um það kannski að einhver aðili kannski skuldar mikinn pening og hann á kærustu og hún er bara tekin upp í sem þú veist hinn aðilinn sem á fíkniefnin sefur hjá henni skilurðu upp í að borga eitthvað niður skuldina“ segir hann.

„Þetta eru mikið stelpur sem eru svona hafa einangrast svolítið út af neyslunni kannski og eru ekkert með marga vini og eru mjög einmana“ bætir hann við.

Viðmælandi talar við fréttamann (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Áður en á hólminn er komið er ákveðið hvað skuli fara fram og langflestar konurnar eru með reglur og skilmála sem fara á eftir, hvað má og hvað ekki og það kemur fyrir að það er svikið.

„Kannski tekið aðeins of fast í hárið á manni og maður meiddur þannig eða kynlífið verður of harkalegt, þeir fara of djúpt eða eitthvað svoleiðis“ segir Eva Dís. „Ef þeir voru að fíla sig og að ég þurfti að meiða mig aðeins þá fannst mér það eiginlega bara skárra til þess að þeir gætu bara verið búnir og farnir.“

„Jú það var einn sem meiddi mig hann þrýsti lærunum á mér alltaf í sundur með olnbogunum meira en ég gat og hætti ekki þegar ég bað hann um að hætta“ segir Gugga. „En ég lét vita vini mína af þessu eftir á og hann hefur ekki haft samband við mig síðan. Það var talað við hann.“

Þetta hljómar eins og lýsing á nauðgun. „Já í raun og veru. Hann var að gera meira en mér fannst gott“ bætir hún við.

„Sumir geta verið harðhentir eða gert eitthvað eða ekki mætt með pening og þú veist eru að reyna að svíkja og plata og fara illa með stelpurnar þá er alltaf tekið á þeim málum“ segir hann. Þegar hann er inntur eftir því hvað hann meini með því, þá svarar hann: „Þú veist, annað hvort bara lamdir eða, eða lamdir aðallega.“

Þegar Gugga er spurð að því hvort henni hafi ekki liðið illa eftir nauðgunina svarar hún: „Jú þangað til að ég vissi að það væri búið að ræða við hann, að hann skyldi aldrei ónáða mig eða koma nálægt mér aftur, þá var þetta búið.“ Hún segir að það hafi verið pínu óþægilegt að rekast á hann í Costco um daginn, þegar hún er spurð að því hvort hún hafi séð hann aftur.

„Það eru flössin sem að koma upp í áfallastreitunni það eru þessir sem að sem að fóru yfir mörkin“ segir Eva Dís.

Skaðsemi vændis

Langflestir þolendur vændis bera þess merki í mörg á eftir. Skömmin og sektarkenndin sem fylgir er slík að erfitt getur verið fyrir fólk að sætta sig við þessa reynslu. Nema Gugga, hún er alveg klár á því að hún sé sátt við það sem hún gerir og hún hafi ekkert að skammast þín fyrir.

„Samfélagið er bara með svo ranga mynd af þessu, það er nefnilega til hamingjusama hóran og hún er ég.“ Hún heldur áfram: „Ég myndi segja að vændi hafi bjargað lífi mínu því að mér leið svo illa þarna þegar áður en ég byrjaði á þessu var svo þunglynd og var farin að spá í hvernig ég ætlaði að klára mig.“

„Þá fer ég að hugsa hvers konar samfélagi búum við í þannig að einhver þurfi virkilega vændi til að bjarga lífi sínu. Erum við ekki, erum við ekki með samfélag sem grípur fólk sem þarf á því að halda?“ segir Eva Dís. Hún segist ekki skilja hvernig fólk geti selt sig í mörg ár.

Á hótelhebergi (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Eva Dís segist þekkja til þess að konur hafi farið mjög illa út úr vændi, ekki aðeins andlega heldur einnig líkamlega. Konur hafi fengið kviðverki, óstöðvandi blæðingar og jafnvel þurft að fara í legnám.

„Það er bara allt þarna bara niðri neðst í kviðnum er bara já bara búið að taka einhvern skaða, það segir sig sjálft maður lætur hamast svona á sér sko þetta er þetta þú veist líffærin manns þola þetta bara ekkert,“ segir Eva Dís.

„Þetta er samfélagslegt vandamál og það mætti kannski stíga meira inni í hvað varðar forvarnir og leggja meiri áherslu á að þetta sé kannski bara ekkert sjálfsagt að kaupa þjónustu, sem sagt líkama annarrar manneskju“ segir Hulda Elsa og bætir við: „Að það sé einhver háttsemi sem sé ekki bara refsiverð heldur sé hún líka siðferðislega ámælisverð.

„Lögreglan virðist bara ekkert hafa einhvern veginn úrræði eða mannskap í að taka á þessum málum“ segir Eva Dís.

Nafnleysi og lágar sektir óskiljanlegar

Simon Häggström, yfirmaður hjá sænsku lögreglunni segir að það sem þurfi til að standa kynlífskaupendur að verki séu tveir lögreglumenn. „Í mörg ár starfaði ég einn ásamt lögreglukonu og við handtókum um tvö hundruð kynlífskaupendur á ári. Tveir lögreglumenn.“ En það þarf líka að ráðast að eftirspurninni.

Handtaka vændiskaupanda í Svíþjóð (Mynd: SVT)

„Hitt sem snýst um að berjast gegn eftirspurninni er bara lág refsing við kaupum á vændi“ segir Alda Hrönn. „Í nágrannalöndum okkar er sektin miklu hærri. Og það er oft á tíðum líka bundið innkomu árslaunum viðkomandi þannig að það bíti á.“

Sektin fyrir þá sem teknir eru í fyrsta sinn við kaup á vændi hérlendis er 100.000 krónur, í næsta skipti 200.000 krónur. Það eru þó kannski ekki sektirnar sem bíta mest í Svíþjóð, heldur nafnbirtingin.

„Á Íslandi, eins og dómaframkvæmdin hefur þróast að þetta í fyrsta lagi nafnleysi kaupenda, að það skuli vera leyft í þessum málum, það er eitt“ segir Alda Hrönn. „Kollegar okkar erlendis skilja ekki hvernig sú þróun hefur orðið til.“

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Simon telur að kjarni vandans séu ekki þrælasalarnir heldur að það skuli vera eftirspurn. „Að mínum dómi er lagasetningin mjög mikilvæg við það að draga úr eftirspurninni. Við sjáum að þar gegna lögin mikilvægu hlutverki. Við sjáum að fjöldi karla í Svíþjóð sem kaupir kynlíf er mun minni í dag.

„Svo finnst mér líka svo skrýtið að ég er ekki alveg viss um að samfélagið myndi líta þannig á ef maður fengi á sig dóm fyrir að kaupa vændi að hann yrði litinn jafnmiklu hornauga af samfélaginu eins og konan sem selur sig“ segir Eva Dís. „Ég efast um það“ bætir hún við.

Að hætta í vændi

Af samtölum við fjölda innlendra og erlendra vændiskvenna og könnun Kveiks má ráða að staða kvennanna er mjög veik. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem selja vændi eru í bágri stöðu, fjárhagslega og félagslega.

„Það er alltaf lausn, það er mjög mikilvægt að fólk viti það sem er í þessum aðstæðum“ segir Ragna Björg hjá Bjarkarhlíð. „Það er alltaf hægt að fá hjálp og það er alltaf hægt að komast út úr þessum aðstæðum.“

Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri hjá Bjarkarhlíð (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Þá væri rosalega gott að það væri til einhvers konar fjárhagsaðstoð“ segir Eva Dís. „Það er líka hluti af því að ég stíg fram og vil ræða þetta er að ég vil að konur sem eru búnar að vera að þessu og vilja hætta að þær geti sagt það við einhvern án þess að missa æruna.“

Í huga Rögnu Bjargar en enginn vafi á því að vændi sé kynferðisofbeldi. „Vændi er kynferðisofbeldi í mínum huga já. Og enginn vafi? Enginn vafi.“

„Einhver óstjórnleg þörf fyrir spennu“

Ef við teljum okkur vita lítið um fólk sem selur vændi þá vitum við líklega enn minna um þá sem kaupa vændi.

Viðskiptavinir Guggu eru alveg frá tvítugu upp í sjötugt, sjálf setur hún aldurstakmarkið við tvítugt. En hvað eru þeir að sækja í? „Þeir sem vilja nota svona dót, þá eru þeir undirgefnir,“ segir Gugga og bendir á ýmis kynlífsleikföng eins og svipur og handjárn. „En það er alls ekkert alltaf notað dót. Mjög oft er þetta, þeim vantar hlýju og innileika og knús faðmlög, sem þróast svo út í kynlíf.“

Þegar fyrrum undirheimamaðurinn er spurður að því hver sé aðalástæðan fyrir vændiskaupum þá svarar hann: „Kannski spennandi og fyrir þá sem eru giftir þá hefur kynlífið kannski þú veist minnkað og eiga kannski einhverja fantasíu sem að þeim langar að prófa.“ Hann segist sjálfur ekki hafa keypt vændi hér á landi en erlendis hefur hann gert það.

„Það eru svo fáir sem þora að stíga fram og segja frá sinni reynslu“ segir Ragna Björg. „Það væri til dæmis mjög athyglisvert að heyra einhvern sem kaupir vændi segja sína reynslu hvað er að gerast þar.“

„Þeir eru svo hræddir þeir læðast með fram veggjum skilurðu þeir eru að laumast það má enginn sjá þá,“ segir Gugga. „Þeir eru að brjóta lögin og margir af þessum mönnum eiga maka og þeir eru bara að stelast.“

Þegar viðmælandi Kveiks er spurður að því hvers vegna hann ákvað að kaupa vændi svarar hann því til að þetta hafi verið bara til að prófa eitthvað nýtt. Þegar hann er svo spurður að því hvernig honum hafi liðið á eftir svarar hann: „Það var allt í lagi. Ég fékk smá samviskubit, mann langar að prófa margt skilurðu þetta er bara fantasía sem að sem að margir hafa og það er fínt að vera laus við hana.“

Af Einkamál.is (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Kveikur setti upp reikning á einkamálasíðu til að komast í kynni við kaupendur. Fjöldi karlmanna hafði samband og sumir gengu hreint til verks, spurðu strax hvað kostaði. Aðrir þreifuðu aðeins fyrir sér áður en þeir spurðu um verð. Sumir voru mjög grófir í tali en aðrir mjög kurteisir. Langflestir þeirra voru giftir eða í sambúð, áttu börn og jafnvel barnabörn.

Við mæltum okkur mót við þrjá þeirra. Þeir komu allir í litla íbúð í miðbænum þar sem þeir töldu sig vera að hitta konu sem væri að selja vændi. Þegar þeir sáu hvers kyns var reyndu þeir að fela sig og hlupu á brott.

Kveikur hafði samband við alla þrjá eftir á og óskaði eftir viðtali. Einn þeirra samþykkti að setjast niður og tala við Kveik. Hann vildi ekki vera í mynd.

„Ég er giftur til þrjátíu og tveggja ára, tveggja barna faðir og ástæðan kannski fyrir því að ég er að gera þetta er sú að hjónalífið er frekar bágborið.“ segir hann.

Maðurinn segist hafa stundað framhjáhald um nokkurt skeið „en svo blundar kannski svona í manni þegar maður fær svona tilboð,“ segir hann. Hann segir að það sé mest spenna og tilhlökkun sem hann finni fyrir þegar tilboð berst. Þrátt fyrir að hafa haldið framhjá áður, segist hann aðeins hafa farið til vændiskvenna svona síðustu þrjú til fjögur árin. Honum finnst hjónabandið vera þess virði að halda í það. „Maður hugsar líka út af börnunum það er nú aðallega það.“

Fréttamaður Kveiks tekur á móti vændiskaupanda (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Verri svik en framhjáhald

Sigrún er fyrrum eiginkona vændiskaupanda. „Ég sem sagt komst að því að maðurinn minn væri búinn að vera að kaupa vændi í töluverðan tíma án minnar vitneskju. Þetta er bara svona eiginlega ennþá í þoku. En kannski fyrst bara hálfgert taugaáfall og svo náttúrulega upplifir maður líka alls konar tilfinningar, reiði og svik. Var þetta allt saman bara lygi bara alls konar svoleiðis tilfinningar sem þarf bara að vinna úr smátt og smátt.“ Sigrún og eiginmaður eiga börn saman: „Þannig að þetta er svona bara harmleikur fyrir marga einstaklinga.“

Aðspurð finnst Sigrúnu að makinn hennar hefði átt að koma og tala við hana áður en hann fór inn á þessa braut. „Óheiðarleiki er alltaf verstur“ segir hún og heldur áfram: „Ég myndi alltaf halda að það væri betra að nálgast einstaklinginn fyrst.“

Þegar vændiskaupandinn er spurður að því hvort hann hafi einhverntíman íhugað að setjast niður með eiginkonu sinni og ræða við hana svarar hann því neitandi. „Ég held ég sé, bara svona þér að segja, kannski búinn að fullreyna,“ segir hann.  

„Þetta er bara svona ófyrirgefanleg hegðun“ segir Sigrún. „Ég lít á þetta sem andlegt ofbeldi við mig og okkar samband og okkar fjölskyldu og líkamlegt ofbeldi gagnvart þessum konum.“

Vændiskaupandinn telur að það geti staðist í einhverjum tilfellum að kaup á vændi sé ofbeldi. „Þessar konur sem ég hef hitt eru allar íslenskar. Ég hef ekki farið á þessar síður þar sem eru útlenskar konur. Það er út af umræðunni um mansal og þess háttar sem kannski hræðir mann aðeins líka.“

Hann segist ekkert vita um stöðu þeirra kvenna sem hann hafi keypt vændi af né hvort þær geri það af neyð. „Auðvitað skiptir það máli ef maður vissi af því.“ Hann segist að hann hafi reynt þetta fjórum, fimm sinnum og tvisvar hafi hann labbað út þegar hann kom á staðinn. „Mér fannst bara aðstæðurnar vera þannig eins og þær væru ekki af fúsum og frjálsum vilja. Eins og ég segi ég hef ekki hugmynd um það.“

Þegar Sigrún er spurð að því hvort þetta séu verri svik en framhjáhald sem kostar ekki pening svarar hún: „Já mér finnst það af því eins og ég segi í mínum huga er þetta ofbeldi þú ert að nýta þér neyð annars einstaklings til að ná til að fullnægja einhverjum þörfum sem þú ert með og það er bara hreinn viðbjóður.“ Hún heldur áfram: „Þetta hefur bara svo ofboðslega mikil áhrif á svo marga einstaklinga þú veist, börnin, makann, foreldrana og vini og þetta setur bara tilveruna á annan endann.“

Guðrún, fyrrum eiginkona vændiskaupanda (Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Finnur vændiskaupandinn fyrir einhverri eftirsjá? „Já og það kannski bara í einhverju ástandi þá er maður í einhverju spennuástandi og langar að gera eitthvað sér svo kannski eftir því.“ Þrátt fyrir það kemur spennan svo aftur jafnvel þó að hann telji að þetta verði honum lexía. „Það er einhver óstjórnleg þörf fyrir spennu einhverja útrás“ segir hann.

Guðrún gefur ekki mikið fyrir þá útskýringu. „Þá þarf fólk bara að skoða hvaða sambandi það er í og fara þá í annað samband frekar. Það er þó alla vega svona meiri heiðarleiki við makann.

Aðspurður hvort vændiskaupandinn telji að hann muni gera þetta aftur svarar hann því til að hann geti ekki svarað því, en vona að þetta verði honum lexía, en tekur ekki fyrir að spennan gæti komið upp aftur.

„Hættið þessu bara“ segir Eva Dís. „Bara skoðið sjálfa ykkur. Í fyrsta lagi sjálfs er höndin hollust. Og í öðru lagi, bara svona innilega tilfinningarík kærleiksrík tengsl í kynlífi er svo ómetanlegt.“

Vonast eftir betra lífi

Vændi hefur bókstaflega eyðilagt líf sumra þeirra kvenna sem við ræddum við. Þær hafa borið slíkan skaða, bæði á sál og líkama, að þær eru öryrkjar, óvinnufærar, heilsulausar. Aðrar eygja enn von, þær eiga sér einfaldlega þann draum að fá að lifa eðlilegu lífi.

„Ég get ekki unnið við þetta alla ævi“ segir Kate. „Mig langar að verða kynlífsráðgjafi“ segir Gugga. „Ef ég gæti skipt um starf, vildi ég vera hér“ segir Natasha. Rafaela og Jessica vonast einnig eftir breytingum, þrá venjulega vinnu. „Við erum venjulegar“ segja þær hlæja við. Katja tekur í sama streng og bætir við: „Ég bið Guð að hjálpa mér svo að þessu ljúki. Ég vil eitthvað áþreifanlegt fyrir mig sjálfa.“

„Alla langar að eiga fjölskyldu og allt það,“ segir Aly, til afla peninga og auðvelda sér lífið. „Kaupa hús og bíl og kannski fara út í viðskipti. Meira bið ég ekki um.“

„Við ræddum þetta og okkur langar að breyta lífi okkar,“ segja Jessica og Rafaela, „en maður veit aldrei. Eitt skref í einu, nýtt ár, nýtt líf.  - Já , kannski verður lífið betra hjá okkur í framtíðinni.“