Seldu „notaðar“ nærbuxur

Íslenskar unglingsstúlkur eru ítrekað beðnar um að senda eða selja af sér kynferðislegar myndir. Sumar hafa líka selt nærbuxur.

Seldu „notaðar“ nærbuxur

Meðal viðmælenda Kveiks í kvöld eru tvær vinkonur sem kusu sér dulnefnin Ásdís og Alexandra. Þær ganga báðar í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrrasumar fengu þær veður af því að einhverjar stúlkur í skólanum hefðu mælt sér mót við mann sem vildi kaupa af þeim notaðar nærbuxur. Ásdís ákvað að taka þátt í því og svo leiddi eitt af öðru.

Alls konar menn fóru að elta vinkonurnar á samfélagsmiðlum og biðja um kynferðislegar myndir, stundum gegn greiðslu. Til að byrja með sendi Ásdís bara myndir sem þær vinkonurnar höfðu fundið á netinu, ekki af henni sjálfri.

„En ég sendi svona nokkrum sinnum af mér. En ég sendi aldrei svona grófar. Bara svona flex, eins og það er kallað,“ segir Ásdís og á við myndir sem sýna ekki fulla nekt.

Hjá vinkonunum voru það auðvitað peningarnir sem freistuðu. „Fyrir nærbuxurnar var þetta alveg þrettán þúsund kall,“ segir Ásdís. Hún segir að þær hafi sagt að nærbuxurnar væru notaðar. „En þetta var ekkert notað,“ segir hún.

Ásdís segir að fyrir myndirnar hafi þær fengið um 3000-5000 krónur. „Það fór bara mjög mikið eftir því hver það var og svona.“

Greiðslur fyrir myndirnar fóru í gegnum greiðsluappið Aur og eftir að móðir Ásdísar óskaði eftir yfirliti yfir færslurnar á reikningi dótturinnar rann upp fyrir henni að eitthvað óeðlilegt var í gangi.

„Ég var allt í einu með pening fyrir öllu,“ segir Ásdís.

Ásdís segir að þeir sem greiddu henni hafi allt verið fullorðnir karlmenn. Mæðgurnar kærðu til lögreglu og þá dró strax úr áreitinu.

Alexandra segir að þær hafi ekki bara verið beðnar um myndir af rassi eða brjóstum. „Stundum vilja þeir bara að maður troði fætinum sínum upp í sig,“ segir hún. „Þetta er svona weird fetish og eitthvað þannig.“

Vinkonurnar segjast báðar óska þess að þær hefðu ekki gert þetta.

„Þetta var fyrir ári og ég var bara já easy money, skilurðu, gat fengið pening,“ segir Ásdís. „Síðan fattaði ég eftir á að þetta er bara mjög ógeðslegt og heimskulegt og þetta bara endar aldrei eitthvað vel.“

„Þetta gæti alltaf farið lengra ef þeir eru þannig,“ segir hún. „Þeir spyrja kannski hvar maður býr. Þetta gæti alltaf... af því þessir menn, það er eitthvað að þeim.“

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur, tekur undir þetta. „Þó að börn átti sig ekki á hættunni, þá erum við með dæmi um það að þeir fara að hóta þeim, að þeir biðja um meira, að myndirnar enda í dreifingu,“ segir Kolbrún Hrund. Hún hefur rætt mál af þessum toga við þúsundir reykvískra unglinga undanfarin ár og hefur einstaka innsýn í þessa veröld nektarmyndasendinga.

„Lögreglan er með stóran hóp íslenskra karla til rannsóknar fyrir gígantískt magn af barnaníðsefni. Stór hluti af þessu efni er myndir sem börn hafa tekið sjálf. Sem hafa bara endað þarna,“ segir hún.

Kveikur fjallar um stafræna áreitni í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.