Tugir þurfa að hætta námi

Framhaldsskólar sem bjóða upp á iðn- og verknám ráða ekki við aukna aðsókn að óbreyttu. Skólameistari segir starfsnámsskóla lengi hafa reynt að vekja athygli stjórnvalda á þessu, en 45 nemar í bíliðnum gætu þurft að hætta námi.

Tugir þurfa að hætta námi

„Við getum ekki tekið á móti þessu. Ég er með 117 manns í grunndeild bíliðna en ég get bara tekið 72 áfram. Hinir verða bara að hætta,“ segir Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla

Áratugum saman hefur það verið stefna hins opinbera að reyna að fjölga í þeim hópi sem velur iðn- og verknám að loknum grunnskóla. Síðustu misseri hefur verið unnið töluvert kynningarstarf í þessum tilgangi.

Ekki verður pláss fyrir alla nemendur í bílgreinanámi í Borgarholtsskóla á næsta ári. (Mynd Kveikur/Freyr Arnarson)

„Og hvað gerist? Það fyllist allt núna. Í fyrra byrjuðum við að finna fyrir þessu að þessi herferð er að skila sér. En þá erum við ekki tilbúin“, segir Ársæll.

Hann bendir til að mynda á nauðsyn þess að stækka aðstöðuna í bíliðngreinum, ekki bara vegna fjölgunar nemenda heldur einnig vegna breytinga í faginu.

„Það eru til dæmis komnir rafmagnsbílar, þeir hellast hér inn og það þarf að gera við þá og umgangast á ákveðinn hátt. Það er ákall úr fjöldanum öllum af starfsnámsskólum og búið að vera lengi, að við þurfum að stækka. Þegar ekki er aðsókn, þá hlustar enginn. Svo kemur mikil aðsókn og þá er ekki búið að gera neitt“, segir Ársæll.

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans. (Mynd Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir að í því ástandi sem ríkt hafi í ár hafi mikil áhersla verið lögð á að taka fleiri nema inn. Ríkisstjórnin hafi veitt til þess auknu fé í vor. Það dugi þó ekki til.

„Við tókum 400-450 í viðbót en það gengur samt töluvert af. Þetta gerist ekki á einni nóttu. Ég gat ekki bætt við 800 nemendum bara svona.“

Fjallað verður um breytingar á iðn-og verknámi í Kveik í kvöld klukkan 20:05