*

Tíunda hvert barn utan höfuð­borgar­svæðis með offitu

Á sumum svæðum á landsbyggðinni er offita barna tvöfalt algengari en á höfuðborgarsvæðinu. Barnalæknir segir tölurnar sláandi háar.

Tíunda hvert barn utan höfuð­borgar­svæðis með offitu

Heilsuvernd skólabarna skimar fyrir frávikum í vexti og þroska grunnskólabarna í fjórum árgöngum ár hvert. Niðurstöður nýjustu skimunar sýna að sífellt fleiri börn glíma við offitu.

Á höfuðborgarsvæðinu er tæplega fjórðungur yfir kjörþyngd, þar af um fimm og hálft prósent með offitu. Utan höfuðborgarsvæðis er hlutfall barna yfir kjörþyngd að nálgast þriðjung og offita er á sumum svæðum tvöfalt algengari en á höfuðborgarsvæðinu. Að meðaltali glímir nær tíunda hvert barn utan höfuðborgarsvæðis við offitu.

„Sem er ofboðslega há tala ef þú horfir á það að 10% af börnunum okkar skili sér út í fullorðinslífið með offitu. Það er eiginlega svolítið sláandi há tala,“ segir Tryggvi Helgason, barnalæknir og sérfræðingur í offitu barna.

Tryggvi segir ekki einfalt að skýra þennan mun milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggða.

„Það er sums staðar verra aðgengi að ferskvöru. Það er sums staðar minna úrval af hreyfingu fyrir börnin. En það er líka sums staðar lægra menntunarstig. Það er sums staðar meiri fátækt á landsbyggðinni. Og þetta eru allt þættir sem, sérstaklega úti í heimi, er búið að staðfesta vel að hafa áhrif, að ef það er framboð, þá eykst hlutfall offitu.“

Tryggvi segir þörf á mun markvissari aðgerðum til að sporna gegn fjölgun barna með offitu en beitt hefur verið hingað til.

Ása Sjöfn Lórensdóttir, fagstjóri hjá heilsuvernd skólabarna, segir vandann fyrst og fremst samfélagslega áskorun.

„Það er í höndum okkar sem samfélags að styðja við og efla heilsu allra, þar á meðal barnanna okkar. Við vitum til dæmis að félagslegur ójöfnuður getur haft áhrif á þróun þessa heilsuvanda. Og börn hafa mismunandi aðgengi að heilbrigðum lífsvenjum. Það eru margar lýðheilsuaðgerðir sem hægt er að ráðast í til að efla heilsu. Og ég vil sjá þetta svolítið áþreifanlegra.“

Á undanförnum árum hafa Heilbrigðisyfirvöld staðið fyrir ýmsum heilsueflandi aðgerðum og verkefnum.  Í aðgerðaáætlun sem vinnuhópur skilaði þáverandi velferðarráðherra árið 2013 eru lagðar til forgangsaðgerðir til að draga úr tíðni offitu á Íslandi, en meirihluti þess sem varðar börn hefur enn ekki komist til framkvæmda.

Í janúar á þessu ári sendi Alma Möller, landlæknir, minnisblað til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, þar sem hún vakti athygli ráðherrans á umfangi vandans, og lagði til að skipaðir yrðu tveir hópar sérfræðinga til að gera tillögur að aðgerðum, bæði á sviðum forvarna og meðferðar gegn offitu. Ekki hefur verið skipað í starfshópana enn.

Fjallað verður um offitu barna í fyrsta Kveiksþætti vetrarins sem er á dagskrá RÚV í kvöld kl. 20:05.