Þetta eru áhrif stera­notkunar

Áhrif stera á mannslíkaman eru víðtæk, en misalgeng og fólk finnur mismikið fyrir þeim.

Testósterónframleiðsla líkamans minnkar og kynhvötin breytist. Frjósemi verður minni. Bólur eru algengar, slitför og og brjóstamyndun, jafnvel mjólkurframleiðsla hjá körlum. Eistun minnka og mýkjast. Sæðisframleiðslan minnkar eða hverfur.  

Lengdarvöxtur stöðvast og fullorðinn karl nær ekki fullri hæð miðað við það sem hann hefði annars gert. Vöðvar og sinar verða stífari, ör vöðvamyndun eykur hættuna á sinaslitum.  

Blóðið verður þykkara, blóðfiturnar óhagstæðar og blóðþrýstingurinn hærri – en allt getur þetta verið lífshættulegt. Hjartavöðvinn stækkar – eins og aðrir vöðvar – og líkurnar á heilablóðfalli aukast.

Það er líklegt að hárið þynnist og losni. Lifrin getur orðið fyrir skemmdum, sem getur leitt til lifrarbilunar og krabbameins. Blöðruhálskirtillinn stækkar sem veldur vandamálum við þvaglát.

Og þetta er fyrir utan andlegu áhrifin: Heilabörkurinn verður þynnri, gráa efnið í heilanum rýrnar og þetta getur haft í för með sér vitsmunaskerðingu. Skapsveiflur og einbeitingarleysi eru þekktar aukaverkanir, sem og svefntruflanir. Depurð, kvíði, þunglyndi og sjálfsvígshugleiðingar eru algengar.  

Þeir eru til sem halda því fram að fullyrðingar um áhrif stera séu blásnar upp í áróðursskyni og byggist á takmörkuðum rannsóknum.  

„Rannsóknir á notkun anabólískra stera eru mjög erfiðar,“ segir Tómas Þór Ágústsson, innkirtlalæknir á Landspítalanum, en hann er einnig í lyfjaráði ÍSÍ.

„Og það er hárrétt að við eigum ekki miklar rannsóknarupplýsingar um þennan hóp af fólki. En það eru hins vegar mjög gildar ástæður fyrir því. Ein ástæðan er sú að það er mjög erfitt að vita hvað fólk hefur verið að taka. Þannig að jafnvel ef þú gerir afturskyggnar rannsóknir, þar sem þú ert að spyrja fólk „hvað tókstu“ „tókstu stera, eða ekki“, þá í fyrsta lagi segir fólk ekki alltaf rétt frá. Og svo veit fólk ekkert alltaf hvað það var að taka. Og þó það hafi gert allt til að vita það, þá kannski var það að kaupa eitthvað allt annað en því var sagt að það væri að kaupa. Þannig að það er mjög erfitt að gera einhverjar raunverulegar rannsóknir þar sem er verið að bera saman svona ákveðna hópa.  Þannig að svona rannsóknir, maður tekur þeim alltaf með ákveðnum fyrirvara.“

Tómas segir líka að til að gera raunverulegar, klínískar samanburðarrannsóknir, þurfi að leggja fram rökstuðning fyrir rannsókninni og hvers vegna hún gæti verið hagstæð. En þar sem vitað sé að misnotkun anabólískra stera sé óhagstæð og hættuleg, fengist aldrei leyfi fyrir rannsókn þar sem þátttakendur yrðu látnir taka inn stera.

„Og þessi rök koma alltaf upp með það að það séu ekki til nógu miklar upplýsingar um þetta, að það hafi enginn rannsakað þetta. Það eru heldur ekki til neinar upplýsingar um að þetta sé eitthvað jákvætt, síður en svo,“ segir hann.

Þetta er hluti af umfjöllun Kveiks um stera, neyslu þeirra og áhrif.