Þegar draumaheimilið er gallað

Í bílskúr í Kópavogi stendur kona og horfir mæðulega á það sem í fyrstu virðist hrúga af alls konar dóti. En hrúgan er gólfefni og innréttingar sem beðið hafa í tæp tvö ár eftir að hægt sé að koma þeim á réttan stað.

Þegar draumaheimilið er gallað

Hildur Gylfadóttir og Ágúst Scheving Jónsson fluttu inn í draumahúsið sitt árið 2018 en fundu strax á því galla. „Fljótlega þá urðum við vör við að bæði hurðir og gluggar láku“, segir Hildur. „Voru óþétt, það blés inn. Og fleira. Það voru ekki björgunarop á gluggum. Þeir héldu ekki í opinni stöðu, eins og á að vera. Og ótalmargt fleira.“

Ágúst bætir við að smíði og samsetning glugga hafi ekki verið fullnægjandi. Fyrir vikið hafa þau rifið alla glugga úr og skipt um þá. Við þá framkvæmd kom svo í ljós að raki hafði borist í burðarstoðir sem voru teknar að mygla. Við þeim hjónum blasir að rífa veggi og hreinsa mygluna burt.

Þau gera athugasemdir við fjölmargt í húsinu: Heimasmíðaðan burðarbita. Pípulögn sem leggja varð upp á nýtt að hluta. Og svo mætti lengi telja.

Hildur og Ágúst segja að einangrun á baðvegg hafi verið haugur af steinullarbútum sem skipta hafi þurft um.

Hildur Gylfadóttir og Ágúst Scheving Jónsson fluttu inn í draumahúsið sitt árið 2018 en fundu strax á því galla.

En það er ekki einfalt að fá úr því skorið hvort umkvartanir þeirra séu raunverulegir fasteignagallar í skilningi laga. Hvað þá hvort byggingarstjóri eða hönnuður beri ábyrgð á þeim og þurfi að borga fyrir lagfæringar.

Í samtali við Kveik sagðist verktakinn, sem er lítill, aldrei fyrr hafa fengið kvartanir og helmingur þess sem Hildur og Ágúst kvörtuðu undan væri bull, en vissulega ekki allt.

En gagnrýni hjónanna snýr frekar að kerfinu og eftirlitsstofnunum en verktakanum, þótt samskipti við hann fari einungis fram í gegnum lögmenn. Þau segjast hafa leitað til byggingafulltrúa í Kópavogi og til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem hafi ekki einu sinni getað leiðbeint um rétta túlkun byggingarreglugerðar.

„Maður myndi allavega vilja að eftirlitið væri meira. Og vissulega þá er það svo, allavega samkvæmt byggingareglugerð, að byggingafulltrúi á til dæmis að hafa eftirlit með því byggingastjórar séu að fara eftir lögum og reglum og samþykktum teikningum. Við fengum staðfestingu um það frá Mannvirkjastofnun, að það væri eitt af hlutverkum byggingafulltrúa. En þeir virðast ekkert geta gert,“ segir Hildur.

Tveimur árum eftir að þau fluttu inn er því draumaheimilið enn hálfkarað. Hildur og Ágúst hafa þegar kostað til milljónum til að greiða fyrir dómkvadda matsmenn. Nú blasir við dómsmál, þar sem útkoman er óviss.

Fjallað verður um fasteignagalla og hversu flókið er að fá úr göllum greitt í Kveik í kvöld, kl. 20.05.