Þar sem Evrópa mætir Rússlandi

Sólin skín í heiði á friðsælum degi í norðausturhluta Eistlands. Fjölskyldur njóta blíðunnar við bakka árinnar Narva, börnin hlaupa eftir gangstéttinni, fullorðnir baða sig, veiða og fá sér ís. Lífið í borginni Narva er sannarlega indælt á þessum síðsumarsdegi.

Þó að það sé óneitanlega fallegt í Narva er það ekki fegurðin sem dró Kveik á staðinn heldur alþjóðleg, pólitísk staða borgarinnar. Allt til 1990 rann áin Narva í gegnum miðja borgina, sem þá tilheyrði Sovétríkjunum. En frá falli þeirra rennur nú þessi sama á milli tveggja borga. Annars vegar rússnesku borgarinnar Ivongorod og borgarinnar Narva í Eistlandi.

Narva, borgin sjálf, er líka mjög áhugaverð, því bróðurpartur íbúa, næstum því 98%, eru af rússnesku bergi brotin og rússneskumælandi. Aðrir Eistar segja stundum að borgin sé á gráu svæði. Sem sagt hálfgert einskismannsland á landamærum – sem eru líka þau landamæri Schengen-svæðisins sem eru lengst í austri og liggja að Rússlandi. Það má segja að það sé hér, sem stórveldin rekast á.

Úthverfi stórborganna

„Narva... Narva þýðir ekki neitt. En hvaða úthverfi er það eiginlega? Til vinstri er Tallinn, til hægri er Sankti Pétursborg. Frábær úthverfi og Narva sem slík táknar ekki neitt. Bara lítill bær,“ segir Sergei Trokhachev.

Sergei Trokhachev, blaðamaður í Narva. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

Sergei er blaðamaður á bæjarblaðinu í þessari sextíu þúsund sálna borg, með glæsilegu úthverfin. Skrifstofan hans er hins vegar í háhýsi sem er að hruni komið, sem er kannski líka táknrænt.

Borgin á sér langa sögu sem miðstöð kaupmanna og síðar iðnaðar. Hún var ýmist á valdi Dana, Þjóðverja, Rússa eða Svía allt fram á síðustu öld, þegar borgarbúar ákváðu í kosningu að þeir vildu tilheyra Eistlandi. Rússar hertóku borgina daginn eftir, Þjóðverjar hertóku hana í seinni heimsstyrjöldinni og Sovétmenn „frelsuðu“ hana að eigin sögn að stríði loknu.

Þeim sem flúið höfðu stríðið var meinað að snúa heim, öllum Eistum skipað burt og rússneskumælandi Sovétborgarar fluttir inn í staðinn – sem er ástæða þess að í dag eru flestir í Narva rússneskumælandi.

Vildu ekki tilheyra Eistlandi

Narva barst í umræðuna í kjölfar innrásar Rússa á Krímskaga, þar sem iðulega var sagt að Narva yrði næst. Rússneskar hersveitir myndu koma yfir ána á ný, til að „frelsa“ íbúana, með rússneskar rætur. Og kannski ekki skrítið, því eftir fall Sovétríkjanna vildi meirihluti borgarbúa annað hvort sameinast Rússlandi eða verða sjálfstætt ríki með einhverjum hætti, en ekki tilheyra Eistlandi.

„Ég segði að ég hefði sterkari taugar til Rússlands. Í fjölskyldu minni eru engir Eistlendingar. En ég er fædd hér og á eistneska vini,“ segir Oksana Lutsok.

Oksana Lutsok á rússneskan bakgrunn. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

Oksana er um margt dæmigerð fyrir yngri Narva-búa, með rússneskan bakgrunn en eru samt fæddir í Eistlandi og finnst Eistland – eða í það minnsta Narva – vera heimalandið en ekki Rússland.

Heldur hún að Rússar gætu ráðist hér inn líkt og á Krímskaga?

„Krím er hluti af Rússlandi, tilheyrir Rússlandi,“ segir hún en stoppar þegar við bendum henni á að svo hafi ekki alltaf verið. „En í Úkraínu er erfitt ástand í stjórnmálunum. Ég held ekki að slíkt gerist í Eistlandi. Það held ég ekki. Það er engin ástæða til þess.“

Svarið er sem sagt ekki alveg skýrt. En Oksana talar líka eistnesku, sem er lykillinn að samfélaginu, en það gera ekki allir.

Spenna stórveldanna sýnileg

Rússar í Eistlandi eru oftar en ekki ríkisfangslausir, með lægri laun en Eistar og atvinnuleysi þeirra á meðal er meira. Og eins og mátti kannski greina í orðum Oksönu, fá flestir þeirra fréttirnar frá rússneskum ríkismiðlum.

Yfirbragð Narva er líka mjög í anda borga austan gamla járntjaldsins, en staðreyndin er samt sem áður sú að austan árinnar, í Ivangorod, er yfirbragðið dapurlegra, ástand vega og húsa verra, tekjur lægri og því kannski skiljanlegt að þeir sem búa Eistlands-megin sækist ekki eftir sameiningu við móðurlandið lengur.

Sem þýðir hins vegar ekki að margir hafi ekki áhyggjur af Rússum og fyrirætlunum þeirra. NATO hefur sent þúsundir hermanna til Eystrasalts-ríkjanna, til að vera til taks ef eitthvað gerist. Heræfingar eru tíðar – hér er spenna milli stórveldanna, en ekki endilega á milli fólksins.

Stundum er talað eins og landamæri eigi sér langa sögu. Eitthvað náttúrulegt sem hafi alltaf verið þarna. Eðlilegt skilrúm á milli þjóða. Brúin í Narva sýnir kannski betur en margt annað að svo er einmitt ekki. Í Narva er það raunveruleikinn. Þar fer fólk á milli mörgum sinnum á dag, jafnvel, þótt það taki dágóðan tíma og sé ekki vandræðalaust.

Þessi yfirgefna verksmiðja á lítilli eyju á milli Eistlands og Rússlands hefur fengið nýtt hlutverk. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

Mannlífið brúar bilið

Þeir sem búa hér eru af rússnesku bergi brotnir og tala rússnesku og eiga sér frændur hinu megin við landamærin og í pólitísku kerfi sem er stundum í töluverðri andstöðu við það sem gildir Eistlandsmegin árinnar.

Úti í miðri ánni er ágætis dæmi um hvernig mannlífið brúar ýmsar gjár. Á eyjunni Kreenholm, mitt á milli Rússlands og Eistlands, þar sem stærsta textílverksmiðja Evrópu skapaði störf fyrir fimmtán til tuttugu þúsund manns í 170 ár, allt þar til í kreppunni 2008.

Síðan þá er hér allt tómt og svæðið er eiginlega eins og myndlíking fyrir Narva og stöðuna: Áður miðstöð stórveldis, nú yfirgefið, að hruni komið og gleymt. En nú er að kvikna líf. Í sumar var komið upp leikhúsi í einu horni einnar byggingarinnar, sem eru alls þrjár á þessari eyju.

Landlausir Eistar

Þessi tilfinningatengsl eru þó flestum Eistum framandi því fæstir þeirra hafa nokkru sinni komið til Narva. Sovétmenn skipuðu þeim jú í burtu frá borginni eftir seinni heimsstyrjöld. Og hvar eiga þá borgarbúar heima? Eistnesk yfirvöld eru að vakna til vitundar um mikilvægi þess að svarið við þessari spurningu sé „í Eistlandi“.

„Í Narva eru aðeins þrjú prósent íbúanna Eistlendingar. Aðrir koma aðallega frá Rússlandi. Svo að það eru hér tvær ólíkar menningarheildir,“ segir Ivo Loide, leiðsögumaður í Narva.

Ef maður spyr í dag Rússa í Narva hvar þeir tilheyri þá segja þeir, þykist ég vita, að þeir heyri ekki undir Pútín og heldur ekki eistnesk yfirvöld. Þeir heyri til Narva, staðnum Narva. Heimamenn í Narva og þetta er afar vænt og gott fólk. Ég get sagt margar sögur af manngæsku þess. Fullkomlega eðlilegt og gott fólk. Rokk og ról fólk, og venjulegt,“ segir hann.

Eistarnir, íbúar Narva, og Rússarnir handan landamæranna eiga sér þó sameiginlega sögu. Ekki einungis margar aldir aftur í tímann, heldur örfá ár eða áratugi. Þessi sameiginlega saga, rómantík fortíðar, virðist rista dýpra en deilur stórvelda eða tungumálaörðugleikar.

Sameinast á miðri leið

Á Kreenholm er komið að leiksýningu kvöldsins. Tvöþúsund gestir streyma yfir gamla brú yfir á iðnaðarsvæðið. Rétt handan þeirrar brúar er önnur brú, nokkrum metrum lengri, sem nær til Rússlands. Afgirt landamærabrú.

En inni í gömlu verksmiðjunni eru engin landamæri. Rússar frá Sankti Pétursborg, Narva-búar og Eistar alls staðar að eru komnir til að eiga ljúfsára stund í leikhúsinu.

Verkið, einskonar söngleikur, segir sögu Jaak Joala, Björgvins Halldórssonar þeirra Eista. Hann var einkum frægur fyrir tvennt: að hafa fyrstur komið með vestræna popptónlist austur yfir járntjaldið, og hins vegar fyrir að hafa fallið Kremlarherrum í geð, svo hann er sagður þekktasta sovéska poppstjarna allra tíma. Eða þannig segja þeir söguna í Eistlandi.

Sýningarstjórinn Piia vísar fólki til sætis og svo hefst sýningin. Eldri kynslóðin dillar sér, sú yngri kannast kannski síður við heiminn sem þarna er lýst.

Óhultur í Narva

„Mér finnst ég ekki vera Eistlendingur vegna míns rússneska hugsunarháttar. En ég er ekki sá Rússi sem býr þarna. Því ég vinn að verkefnum og á vini í Sankti Pétursborg. En þegar ég fer til Sankti Pétursborgar er ég ekkert sérlega slakur. Og kannski er það svipað þegar ég fer til Tallinn þar sem ég er eini Rússinn á meðal Eistlendinganna. Svo að það er eins. En hér finnst mér ég vera óhultur því í Narva hitti ég fólk frá ólíkri menningu og af ólíkum hugsunarhætti. Og svo er ég fæddur hér og það hjálpar auðvitað,“ segir Jevgeni Timoštšuk, menningarskipuleggjandi í Narva.

Jevgeni Timoštšu segist aðkomumaður bæði í Tallin og St. Pétursborg. (Mynd Arnar Þórisson/Kveikur)

Athygli sem Narva hefur fengið, vegna spennunnar en líka vegna menningarviðburða eins og söngleiksins, blæs nú nýju lífi í glæður mannlífsins í bænum. Sumir bæjarbúar tala um Austur-Berlínaráhrifin, það er að segja að ódýrt húsnæði, tómar verksmiðjur og fleira í þeim dúr laði skapandi hæfileikafólk til borgarinnar og í kjölfarið fylgi aðrir.

Inni í leikhúsinu er orðið dimmt, enda komið langt fram á kvöld. Slagararnir hljóma, hver af öðrum, og í glampanum frá kösturunum sést blika tár á hvarmi. Rómantík fortíðar sameinar leikhúsgestina, sama hvaðan þeir koma.

Jaak Joala, sem dó 2014, tekst að sameina fólk sem stjórnmálamenn virðast á stundum staðráðnir í að reka fleyg á milli. Þetta fólk er í það minnsta ekki að bíða eftir því að hersveitirnar ryðjist yfir brúna yfir ána Narva, hvorki til austurs né vesturs.