Telur Samgöngustofu hafa farið að lögum

Fyrir viku greindum við frá vopnaflutningum flugfélagsins Atlanta frá Austur-Evrópu til Sádi-Arabíu, þaðan sem allt bendir til þess að vopnin berist í hendur illvirkja í Jemen og Sýrlandi.

Nokkrum spurningum er þó enn ósvarað og fleiri hafa vaknað í kjölfarið: Hvað var um borð í vélum Atlanta og hversu margar voru ferðirnar?

Þá er frekar erfitt fyrir dauðlega að skilja umræðu um hvort alþjóðasamningar hafi verið brotnir – eða eiginlega hvort þeir hafi einhverja raunverulega þýðingu. Og svo er það spurningin: hvað var eiginlega um að vera hjá Samgöngustofu þegar þessir flutningar voru samþykktir?

Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari við mannréttindadómstól Evrópu. (Mynd Stefán Drengsson/RÚV)

Hvað með vopnasölusamninginn?

Eitt af því sem deilt hefur verið um, er vopnasölusamningur Sameinuðu þjóðanna frá 2013. Íslendingar beittu sér fyrir því að í samningnum yrði ákvæði um bann við sölu vopna sem beita ætti gegn konum og börnum. Ísland var líka meðal fyrstu ríkja til að fullgilda þennan samning. En í umræðunni í kjölfarið hefur verið nokkuð óljóst hvort það hafi einhverja raunverulega þýðingu. Eru svona alþjóðlegir samningar kannski bara gott kynningarstarf en að öðru leiti alveg þýðingarlausir?

Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari við mannréttindadómstól Evrópu, segir að þó íslenska ríkið sé búið að fullgilda þjóðréttarsamninga, fyrst með því undirrita þá og síðan með fullgildingu, þá verða þeir ekki sjálfkrafa hluti af íslenskum lögum.

„Til þess að það geti orðið þá þarf að lögfesta þá. Maður gæti þá kannski haldið að þeir hefðu enga þýðingu úr því að svo er og þessi tiltekni samningur sem þú nefnir hefur ekki verið lögfestur, hann hefur verið fullgiltur. Hann hefur hins vegar viss réttaráhrif í landsrétti sem að í fyrsta lagi felast í því að það ber að túlka og skýra íslensk lög til samræmis við sáttmálann ef það er hægt. Nú ef það er ekki bein andstaða við íslensk lög þá ber íslenskum stjórnvöldum að túlka og skýra þau lög sem þeim er falið að framfylgja, til dæmis tilteknar stofnanir ríkisins, skýra og túlka þau til samræmis við skuldbindingar í slíkum samningum,“ útskýrir hann.

Samgöngustofu ber að hafa vopnasölusamninginn til hliðsjónar við ákvarðanatöku sína. Gallinn er að eftirlitið með því að svona samningar séu virtir er afar takmarkað. „Auðvitað ber þeim að gera það í einhverjum siðferðilegum og lagalegum skilningi. En hver viðurlögin eru við því ef það er ekki gert það er svo annað mál. Þjóðréttarsamningar, þessi er engin undantekning, eru margir þannig að þetta kerfi er mjög veikburða,“ segir Davíð Þór um það.

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu. (Mynd Stefán Dregnsson/RÚV)

Samningurinn ekkert leyndarmál

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, segir aðspurður um hvort stofnunin hafi tekið tillit til vopnasölusamningins við samþykkt undanþágubeiðna til vopnaflutninga: „Ja, það hefur verið farið alveg fyllilega eftir þeim reglum sem hafa verið settar bæði af flugöryggisstofnun Evrópu og Alþjóða flugmálastofnuninni sem við erum aðili að. Og við erum reglulega eftir eftirliti þessara alþjóðlegu stofnana.“

Auk þess að vera flugöryggissérfræðingarnir er Samgöngustofa líka framkvæmdaaðilinn fyrir hönd íslenska ríkisins; armur ríkisins þegar kemur að þessum málum öllum. Var ykkur hér ljóst að þetta væri gagn sem þið ættuð að hafa til hliðsjónar? Er þetta eitthvað sem þið höfðuð þekkingu, vitneskju um?

„Ég ætla ekkk að svara yfir þekkingu frá Flugmálastjórn allt frá 2005,“ segir Þórólfur. Þegar honum er bent á að samningurinn sé frá 2013 og að hann þurfi ekki að svara til um þekkingu svo langt aftur svarar hann: „En þeir sem hafa sinnt þessu verklagi hafi unnið þetta verklag svipað frá 2005. Og hafa sinnt því af trúmennsku. Og auðvitað hafa þeir smásaman kunnað að lesa þessar farmskrár. Og sá aðili sem um þetta fjallar hjá okkur, hann þekkir alveg enska heitið fyrir klasasprengjur og veit að það er bannað. Bara svona sem dæmi.“

En, var því miðlað til ykkar, vissuð þið hér af þessum vopnasölusáttmála og að hann hefði einhverja snertifleti við ykkar starfsemi?

„Ja, það hefur ekki verið neitt leyndarmál, þeir opinberu ríkissamningar sem eru hér og við erum með lögfræðideild sem yfirfer skuldbindingar ríkisins og skuldbindingar okkar. Við eigum reglulega samráðsfundi með ráðuneytunum. Og ég tel að það verklag sem að ber að taka upp með breyttri pólitískri sýn, það sé til hins góða og ég held að við eigum nú að horfa fram á við frekar heldur en að fara kannski að leita að einhverju sökudólgum í þessu máli. Ég er ekki á þeim stað,“ segir hann.

Lengri útgáfu viðtalsins má nálgast hér.

Lengri og ítarlegri umfjöllun um vopnaflutningana má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar er meðal annars rætt við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um vopnaflutningana.