*

Styttri vinnuvika: ekki hvort heldur hvernig?

Vinnan er allt. Nútímamaðurinn skilgreinir sig út frá starfinu sínu. Sprotafyrirtæki láta líta út fyrir að vinna sé leikur. Með snjallsímavæðingunni laumast vinnan með heim í rassvasanum. Vinnan göfgar manninn - að minnsta kosti í átta stundir á dag, fimm daga vikunnar. Eins og lög gera ráð fyrir. En nú vilja sumir meina að það sé allt of mikið.

Framleiðni á hverja vinnustund er ekki há á Íslandi í dag. (Mynd Kveikur/RÚV)

Í febrúar síðastliðnum lagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fram frumvarp á Alþingi um styttingu vinnuvikunnar úr 40 stundum niður í 35. Það var í þriðja sinn sem frumvarpið var lagt fram óbreytt. Það er hans ósk að með því að stytta dagvinnutímafólks megi bæta lífskjör á Íslandi og draga úr ójafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Ísland er í 33. sæti af 38 löndum innan OECD þegar kemur að jafnvægi á milli vinnu og frítíma. Hér er vinnuvikan með þeim lengri í Evrópu og hún er sú lengsta á Norðurlöndunum. Hins vegar er framleiðni á Íslandi undir meðallagi OECD ríkjanna. Þeir sem aðhyllast styttingu vinnuvikunnar halda því fram að með því að vinna skemur, en um leið betur, megi auka framleiðni þjóðarinnar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. (Mynd Kveikur/RÚV)

Samtök atvinnulífsins gjalda varhug við þessum áformum. ,,Ég vildi að ég gæti sagt við þig að það væri hægt að auka framleiðni hagkerfisins um 10% með pennastriki en því miður þá er raunveruleikinn ekki sá.“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hann segir að samtökin taki vel í að skoða styttingu vinnuvikunnar á næstu misserum en vill meina að leiðin að því marki sé í gegnum kjarasamninga, en ekki lagasetningu á Alþingi. Samtökin óttast enda að yrði frumvarpið að lögum gæti launakostnaður í landinu hækkað um tugi prósenta í einu vetfangi.

Bæði Ríkið og Reykjavíkurborg hafa undanfarin ár átt í samstarfsverkefnum við BSRB um tilraunir með styttingu vinnuvikunnar. Nú er svo komið að fjórðungur starfsmanna borgarinnar, um 2.200 manns á um eitt hundrað vinnustöðum vinnur skemmri vinnuviku án þess að laun þeirra skerðist.

Fyrstu niðurstöður benda til þess að það dragi úr bæði líkamlegu og andlegu álagi og starfsánægja aukist, þótt munurinn sé ekki marktækur alls staðar. Svo eru vísbendingar um að fjarvistum vegna veikinda fækki og það lítur ekki út fyrir að afköst dvíni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. (Mynd Kveikur/RÚV)

Stytting vinnuvikunnar hefur verið meginkrafa félagsmanna aðildarfélaga BSRB undanfarin misseri. ,,Krafan kemur kannski ekki síst í kjölfar hrunsins“, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. ,,Af því að þá fundum við að forgangsröðin var bara önnur hjá fólki. Það vildi eiga meiri gæðatíma með sér og sínum. Og út frá þessu var krafan sú að við ættum að vinna að því að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36.“

Það er næstum því hálf öld síðan að ákveðið var að vinnuvikan skyldi vera 40 stundir. Fram að því höfðu dagvinnustundir verið 44 og þá gjarnan unnið fram að hádegi á laugardögum. Síðan þá hafa orðið gríðarmiklar tækniframfarir og samfélagið tekið stakkaskiptum. Atvinnuþátttaka kvenna hefur til dæmis farið úr um það bil 50% í hér um bil 80%. Katrín Ólafsdóttir, vinnumarkaðshagfræðingur, vill meina að í dag sé engin sérstök ástæða fyrir því að vinnuvikan sé 40 stundir – að minnsta kosti ekki fyrir alla.

Katrín Ólafsdóttir vinnumarkaðshagfræðingur. (Mynd Kveikur/RÚV)

Í nútímasamfélagi séu störfin sem fólk vinnur mjög ólík. Sum störf sé lítið mál að vinna í 40 tíma, en önnur ekki – og það geti komið niður á endingu fólks í starfi. Það er að segja að hægt væri að koma í veg fyrir örorku og veikindi í ákveðnum stéttum ef unninn væri styttri vinnudagur. Og það gæti vegið upp á móti kostnaðinum sem myndi fylgja styttingunni.

Hún bendir einnig á að Íslendingar hafi nokkuð svigrúm til bætinga því þrátt fyrir að landsframleiðsla á mann sé mjög há í alþjóðlegum samanburði, þá sé landsframleiðsla á klukkustund frekar lág. Íslendingar hífi upp lífskjör sín með því að vinna mikið en þeir gætu í rauninni unnið skemur og betur.

Vinnuvikan á að vera 40 stundir í dag en lagt er upp með að stytta hana um fjóra tíma. (Mynd RÚV)

Halldór Benjamín, hjá Samtökum atvinnulífsins, óttast hins vegar að ef vinnuvikan yrði stytt með lögum myndi það ekki endilega verða til þess að heildarvinnutími fólks myndi styttast. Hann bendir á að mögulega myndi fólk vinna áfram jafn mikið, eina breytingin væri sú að yfirvinnutímum myndi fjölga. Það hafi til að mynda gerst þegar vinnuvikan var stytt úr 44 stundum í 40. Þar með væri markmiðinu ekki náð og þess vegna eigi áherslan að vera á að fækka yfirvinnutímum fyrst. ,,Yfirvinnugreiðslur eru miklu snarari þáttur á íslenskum vinnumarkaði en nokkurs staðar annars staðar. Yfirvinnugreiðslur eru um það bil 15% af heildarlaunagreiðslum á Íslandi. Sem er í raun og veru óþekkt í samanburði. Sama hvort það er við Norðurlönd eða í Evrópu annars staðar.“

En getur þá verið að umræðan um styttingu vinnuvikunnar snúist frekar um hvernig heldur en hvort hún eigi að verða að veruleika? ,, Ég held að það megi að mörgu leyti til sanns vegar færa. Og við erum alveg sammála þessu markmiði og þetta er þessi þróun sem við sjáum að mun eiga sér stað á næstu árum og áratugum. En ég held við þurfum að velta fyrir okkur hverjar eru bestu leiðirnar til að ná þessu fram.“