Segir skipta máli að arður af auðlind skili sér til þjóðarinnar

Mikill áhugi er hjá einkafyrirtækjum að reisa vindorkuver á Íslandi. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri segir að lagarammi um auðlindanýtingu þurfi að vera þannig að arður af auðlind skili sér til þjóðarinnar.

Segir skipta máli að arður af auðlind skili sér til þjóðarinnar

Með þróun í vindorkutækni hafa vindmyllur stækkað, bæði að umfangi og afli, og vindorkuframleiðsla hefur orðið hagkvæmari. Tugir hugmynda hafa verið settir fram um vindorkuver á Íslandi. Margar hugmyndir eru frá einkafyrirtækjum.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri segir að Ísland sé í raun hluti af Evrópulöggjöf á þessu sviði. Í slíku samkeppnisumhverfi séu fleiri leikendur að koma inn. „Og það erum við að sjá hérna á Íslandi líka,“ segir hún, til dæmis á sviði vindorkunnar, og frekari þróun eigi eftir að verða í þá átt á komandi árum.

Stór vindorkuver finnast víða erlendis en ekkert stórt hefur risið á Íslandi ennþá.

Hún segir að í auðlindanýtingu skipti máli að lagaramminn sé þannig „að arðurinn af auðlindinni skili sér til þjóðarinnar.“

„Þannig að í upphafi skal endinn skoða með alla auðlindanýtingu, sama hvort það er fiskurinn í sjónum eða orkan okkar,“ segir Halla. „Þannig að vandvirkni og framsýni, það að við séum að hugsa vel fram í tímann, og passa upp á að lög og reglur styðji við okkar framtíðarsýn, það er eitthvað sem skiptir mjög miklu máli.“

Fjallað verður um hugmyndir um byggingu vindorkuvera á Íslandi og umhverfisáhrif slíkra virkjana í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld klukkan 20:05 á RÚV.