Segir áhugaleysi foreldra aðalvandamálið

Rafíþróttadeild Ármanns var stofnuð fyrr á árinu. 30 til 40 börn mæta tvisvar í viku í húsakynni Ground Zero á Grensásvegi og spila tölvuleiki undir leiðsögn þjálfara. „Við viljum að allir einhvern veginn labbi héðan út sem betri manneskjur en þeir voru fyrir æfinguna.”

Segir áhugaleysi foreldra aðalvandamálið

Þetta segir Arnar Hólm Einarsson, þjálfari hjá Ármanni og einn eigenda Rafíþróttaskólans. Þá gildi einu hvort það sé vegna þess að krakkarnir hafi lært einhverja nýja brellu í leiknum sínum, kynnst einhverjum liðsfélaga í Ármanni örlítið betur eða jafnvel bara tekið nokkrar hnébeygjur. Arnar segir að æfingarnar séu vel kryddaðar af íþróttabrag. „Venjuleg æfing hjá okkur er kannski svona 65 til 70% fyrir framan skjáinn. Restin er líkamlegar æfingar, leikir eða heilaleikfimi.”

Hulda Sólveig Jóhannsdóttir er móðir eins iðkanda. Hana langaði til þess að sýna áhugamáli sonar síns áhuga og virðingu - og skapa jákvæðan ramma utan um tölvuleikina.

„Sem foreldri þá vill maður náttúrulega að börnin séu í einhverjum hópi og samsami sig með einhverjum og rækti áhugamálin sín. En svo eru þau bara jafn ólík og þau eru mörg og við erum búin að prófa ýmislegt með þessum yngsta. Og hann hefur bara ekki fundið sig. Þannig að af hverju ekki að æfa þá þetta og styðja barnið í því sem að það hefur áhuga á?”

Arnar segist vel skilja að margir foreldrar óttist að missa börnin sín á kaf í tölvuleiki en ítrekar mikilvægi þess að foreldrar sýni áhuga. Hann tekur dæmi um foreldri sem á þrjú börn.

„Einn er á skíðum, einn er í fótbolta og einn er í tölvuleikjum. Þú ferð á völlinn og þú ferð og rennir þér en þú spilar enga tölvuleiki og þú sinnir aldrei þessu áhugamáli eða spjallar um það við krakkann þinn. Hvað er líklegast að verði vandamál? Nú auðvitað tölvuleikirnir.”

Hann segir ábyrgðina liggja hjá foreldrum. „Þið þurfið að virða þetta sem áhugamál krakkanna ykkar. Vegna þess að þetta er aðalvandamálið í dag, tel ég, að foreldrar eru ekki að sýna þessu áhuga.”

Nánar verður fjallað um þessi mál í Kveik í kvöld klukkan 20:05.