„Spillingin drepur blátt áfram fólk“

Rannsókn namibískra yfirvalda á Samherjaskjölunum er þegar sú umfangsmesta spillingarrannsókn sem fram hefur farið í landinu. Kveikur fór til Namibíu og kannaði viðbrögð við afhjúpunum Samherjaskjalanna og kynnti sér nánar stöðu fólksins í landinu.

Forstjóri ACC, namibíska embættisins sem fer með rannsókn spillingarmála, hefur í rúmt ár rannsakað starfsemi íslenska fyrirtækisins Samherja í Namibíu  og ásakanir um mútugreiðslur, fjársvik, skattsvik og peningaþvætti. Að umfangi er málið hið stærsta í sögu Namibíu.

„Þegar upphæðin sem rætt er um er höfð í huga; þá er það í samhengi við efnahag okkar mikið fé. Og þess vegna tökum við á þessu máli sem prófmáli og við höfum hafið það ferli og beðið um aðstoð og samstarf svo að hægt verði að rannsaka málið almennilega,“ segir Noa.

„Við undirbúum nú að setja okkur í samband svo að þau geti útvegað okkur gögn. Eins og ég sagði hafa beiðnirnar verið sendar.“

Shinovene Immanuel, blaðamaður The Namibian. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Eldfimt mál

Dagblaðið, The Namibian er eldra en sjálf þjóðin sem það kennir sig við, stofnað árið 1985 og er stærsta dagblað landsins. Sjálfstæð blaðamennska hefur ekki alltaf átt upp á pallborð stjórnarherra í landinu.

SWAPO-flokkurinn beitti ríkisvaldinu gegn The Namibian fyrir nokkrum árum og bannaði stofnunum ríkisins að auglýsa þar. Á tímum sjálfstæðisbaráttunnar voru aðgerðir þáverandi stjórnarherra gegn blaðinu ekki svo diplómatískar.

Shinovene Immanuel er blaðamaðurinn sem fjallaði um Samherjaskjölin fyrir The Namibian. Hann segir að ritstjórnin þurfi að fara varlega. „Það voru vangaveltur hvort um hótanir væri að ræða en svo er ekki og kannski er það enn í gangi en við reynum bara að fara varlegar og ætíð að vera á varðbergi,“ segir hann.

Grunsamlegt ríkidæmi

Í fjölmiðlum í Namibíu hefur því verið velt upp síðustu daga hvers vegna yfirvöld litu framhjá þeirri augljósu staðreynd að fámennur hópur manna hafi komist í gríðarlegar álnir á meðan þeir voru flestir opinberir starfsmenn.

Myndir af glæsihúsum „hákarlanna“ og flottræfilshætti eins þeirra hefðu átt að vekja spurningar. Fremstur í flokki var „hákarlinn“ Tamson. Hann var fastagestur í rappmyndböndum á einhverjum glæsikerranna sinna og keypti sér nýja Benz-bíla reglulega, jafnan með einkanúmerum.

Tangeni, ritstjóri The Namibian. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Ég efast um að margir þeirra geti sannað hvernig þeir efnuðst svona skjótt nema þá í gegnum svona tilfæringar,“ segir Tangeni Amupadhi, ritstjóri The Namibian og Shinovene tekur í sama streng.

„Við vissum ekki af því en höfðum samt vísbendingar um hve auðugir þeir væru að verða en vissum ekki hve auðugir. Meira að segja þegar við fjölluðum um James [Hatuikulipi] og frænda hans í blaðinu, um húsin tvö. Það dregur upp mynd af hve fjáðir þeir voru orðnir, hve mikið þeir höfðu auðgast á fáeinum árum,“ segir hann.

„Ég fékk símtal í dag frá náunga sem sagði að það væri ekki öll sagan. Því að þarna væri bara um eitt hús að ræða af tveimur. Að annað væri við ströndina og hitt erlendis. Rætt var um fasteignir í London. Svo að þetta er það mikið, að ef við höldum umfjölluninni áfram þá fáum við heilsteyptari mynd.“

Nýtt sjónarhorn

Eftir uppljóstranir síðustu vikna hafa margir beint sjónum að boðuðum áformum sjávarútvegsráðherrans, Esau um breytingar á úthlutun kvóta í landinu sem áttu að ganga í gegn á allra næstunni.

Þvert á fullyrðingar Samherjamanna um að þeir hafi ætlað sér að hætta starfsemi í Namibíu telja blaðamenn Namibian að fyrirhugaðar breytingar ráðherrans hafi átt að verða til að styrkja stöðu Samherja enn meir og tryggja Íslendingunum enn meiri kvóta.

„Breytingarnar sem gerðar voru á úthlutun kvóta og veiðiréttindum, þær sem nú áttu að taka gildi, voru slíkar að umsvif þeirra hefðu aukist enn frekar ef Samherjaskjölin hefðu ekki litið dagsljósið,“ segir ritstjórinn Tangeni.

Púslin raðast saman

Eins og fram kom í Kveik fyrir hálfum mánuði virðist sem breytt lög um kvótaúthlutun árið 2015 hafi verið samin af „hákörlunum“ og ráðherranum í þeim eina tilgangi að koma kvóta til Samherja. Um þetta ræddu Samherjamenn opinskátt og hlutuðust auk þess til um lagasetninguna þegar þeir mötuðu ráðherrann og "hákarlana" á hugmyndum til að réttlæta hin breyttu lög. Kynntu þeim íslenska ákvæðið um hámarkskvótaeign. Það sama og Samherji vildi að yrði túlkað eins vítt og hægt var hér uppi á Íslandi.

Tangeni segir að aðilum í sjávarútvegi hafi verið brugðið að sjá hversu nánir Samherjamenn virðast hafa verið ráðherranum.

„Sumir sem starfa í sjávarútvegi hafa tjáð okkur að þeir teldu þennan hóp eftirlæti ráðherrans en það hélt áfram að breytast. Næsti hópur Namibíumanna komst í uppáhald og svo næsti. Nú fyrst er verið að púsla þessu öllu saman og að ráðherrann hvatti þá til að starfa með Samherja. Þeir vissu ekki hver af öðrum en eina stundina voru þeir í náðinni og þá næstu komnir út í kuldann. Svo að endurskipulagning stóð yfir á ferlinu til þess að hygla einu eða tveimur stórum fyrirtækjum og Samherji var annað þeirra,“ segir hann.

Graham Hopwood, framkvæmdastjóri IPPR í Namibíu. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Engar viðvörunarbjöllur

Þetta kveikti þó ekki viðvörunarbjöllur hjá ACC. „Enginn hefur leitað til okkar út af mútum eða svindli. Svo að við vorum grunlausir um spillingu; að einhver ætlaði sér að breyta lögunum til gagns fyrir þröngan hóp innan Namibíu eða fámennan hóp útlendinga og fyrirtækja þeirra,“ segir framkvæmdastjórinn Noa.

Graham Hopwood, framkvæmdastjóri IPPR í Namibíu, segir uppljóstrunina hafa varpað ljósi á ákvarðanir sem höfðu áður ekki endilega þótt óeðlilegar.

„Það er augljóst að allt í kringum Samherjaskjölin hringir bjöllum. Þetta hefur grafið undan þinginu hér á þann hátt að breytingar voru samþykktar á lögum um sjávarauðlindirnar, að því er virðist, til þess eins að gagnast þessum viðskiptum sem voru í gangi, að gagnast íslenska útgerðarfélaginu og enginn hér áttaði sig á því að í fyrsta lagi voru þessar lagabreytingar slæmar því þær veittu ráðherranum aukin völd og í öðru lagi að það mátti tengja við ákveðið fyrirkomulag sem miðaði að því að auðga örfáa,“ segir hann.

„Þetta voru býsna klár viðskipti á vissan hátt; en eina ástæðan að upp um þau komst var samviskubit eins manns sem ljóstraði upp í smáatriðum hvað hefði verið í gangi.“

Eftir situr fólkið

Fyrir einungis fáum árum var Samuel Kapepo maður sem stór hluti íbúa gettóanna í höfuðborg Namibíu hræddist. Hann er alinn upp hér á götunum og gekk snemma til liðs við eitt af gengjum hverfisins, varð alræmdur fyrir vikið.

Strákar að leik í Ombili. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Það hefur breyst enda hefur Samuel breyst. Í hverri viku, fæðir súpueldhúsið sem hann starfrækir, gríðarlegan fjölda barna í þessum fátækasta hluta Katatura-hverfisins. Kofaborginni Ombili.

Þar býr fátækasti og berkjaldaðisti hópur þjóðarinnar. Ombili hefur staðið í 27 ár. Það er búið að taka 27 ár að reyna að koma þaki yfir höuðið á fólkinu sem býr hérna við einhverjar þær ömurlegustu aðstæður sem hægt er að ímynda sér. Í Ombili er ekkert vatn, ekkert rafmagn og þar eru lifrarbólga og aðrir sjúkdómar landlægir. Nafnið Ombili þýðir friður og Katatura þýðir í raun staður þar sem þú vilt ekki vera. En hér er samt allt þetta fólk.

„Hér er engin almennileg hreinlætisaðstaða. Svona er þetta í Namibíu,“ segir Samuel. „Þau borða allt, meira að segja hunda og froska, asna og jafnvel slöngur. Það er ekki gott fyrir heilsuna. Þau eru ekki ánægð með þetta en hafa ekki um neitt að velja.“

Sandra Benjamin er eitt þeirra barna sem býr í Ombili.

„Það eru mörg fátæk börn hér og sum búa ekki einu sinni í húsum. Þau búa þarna hinumegin, í runnunum,“ segir hún. „Og okkur vantar líka mat, hér er engan mat að fá. Það hafa ekki allir efni á því að borða og einkum hér hjá okkur sem búa hérna megin í gettóinu. Flestir borða bara einu sinni í viku.“

Sandra Benjamin býr í Ombili. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Gróðrarstía fyrir sjúkdóma

„Þú getur spurt fólkið sem hefur ekki salerni en þú getur séð klósettpappír víða því við þurfum að ganga örna okkar þarna í runnunum. Og alstaðar eru sjúkdómar en það eru engin salerni og okkur vantar salerni svo að við komust hjá því að smitast. Og svo er það loftið; þegar rignir kemur fnykur frá árfarveginum. Og lyktin frá árfarveginum hefur áhrif á fólkið hér og smitar af lifrarbólgu E,“ segir Sandra.

Á ferð okkar um Ombili hlaupa tveir litlir strákar á eftir boltanum sínum ofan í skurð, þetta er leikvöllurinn þeirra en líka opið ræsi sem tekur við því sem skilið er eftir í kamrinum á bakkanum. Það eru þessar aðstæður sem valda því að lifrarbólga E sem smitast einna helst með saurmenguðu vatni og mat er landlæg hér í Ombili. Rétt eins og illa loftræstir kofarnir eru gróðrarstía fyrir berkla.

Paulo, íbúi í Ombili segir að þetta sé einfaldlega það sem börnunum bjóðist. „Þetta er leikvöllurinn okkar og hér er lifrarbólga af e-stofni, nákvæmlega hérna. Börnin stökkva og hoppa. Þau veikjast þótt við reynum okkar besta til að senda þau á spítala. Og þarna eru snákar, snákar og sporðdrekar. Eitthvað slæmt,“ segir hann.

John Grobler, namibískur rannsóknarblaðamaður, segir ástandið sé tilkomið vegna rána, gripdeilda og spillingar. „Vegna þessara rána og gripdeilda og spillingarinnar hefur þjóðartekjunum bara verið skotið undan. Til aflandseyja, til Dúbaí og Marshalleyja,“ segir hann.

Framkvæmdastjóri ACC í Namibíu. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Skattasniðganga rannsökuð

Stór hluti af rannsókn namibískra yfirvalda er í höndum skattayfirvalda og beinist að Samherja. Möguleg skattalagabrot fyrirtækisins hlaupa á hundruðum milljónum króna, hið minnsta.

Það að Samherji hafi stofnað skúffufélag á eynni Máritíus til þess eins að rukka hundruð milljón króna árlega frá Namibíu í kostnað sem sagður var vegna starfsmanna, stjórnenda og sölustarfsemi auk annars, en fór reyndar aldrei fram á Máritíus, er ekki síst talinn grunsamlegur og benda til skattaundanskota.

Auk þess eru til rannsóknar fjölmargar aðrar leiðir að hafa nýtt sér til að komast hjá skatti í Namibíu, fiskkaup, vaxtagreiðslur, skipaleiga og fleira. Noa segir þetta lykilatriði í rannsókninni.

„Það er einn mikilvægasti anginn í rannsókninni. Og er afar áríðandi. Grunur er um skattaundanskot, gefinn er upp minni hagnaður, svo að skatturinn verði lægri. Og því er ekki nokkur von til að rannsaka málið almennilega ef rannsóknin beinist ekki að skattaþættinum. Af því skattaundanskot er liður í peningaþvætti,“ segir hann.

Afhjúpun Esau sláandi

En það eru ekki bara skattskil Samherja sem menn vilja láta skoða. Frásagnir Bernhard Esau, fyrrverandi Sjávarútvegsráðherra af eigin skattskilum hafa líka vakið spurningar.

Hopwood, hjá IPPR, segir mál Esau sláandi. „Það tekur út yfir allt, að hann skuli stela svona miklu fé og svo vill hann ekki borga skatt af illa fengnu fénu. Það er eins og kjaftshögg á almenning í Namibíu,“ segir hann.

„Samkvæmt reynslu okkar er sjávarútvegsráðuneytið versta stjórnarstofnunin í Namibíu þegar að því kemur að fá upplýsingar um hvaða fyrirtæki ráði yfir veiðiheimildum og kvótum,“ segir Graham.

„Það ríkir mikil reiði meðal fólks í Namibíu og það voru mótmæli í síðustu viku þar sem fólk hélt til embættisins gegn spillingu. Mótmælin gætu virst smá í sniðum en mótmæli eru óalgeng svo að það kom skýrt fram að fólk vildi að þarna yrði eitthvað gert.“

Gagnrýnd fyrir seinagang

Spillingarlögreglan ACC hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki gripið til neinna aðgerða í málinu fyrr en nú á síðustu dögum, þrátt fyrir að hafa haft undir höndum gögn málsins og framburð vitna í að verða ár.

Sú staðreynd að einn svokallaðra „hákarla“ var æðsti yfirmaður embættisins hefur eðlilega vakið spurningar.  Þessi vandræðalega staðreynd blasti nokkuð skýrt við þegar yfirmaður embættisins fór með okkur í kynnisferð um höfuðstöðvarnar. Sýndi okkur meðal annars fjölda mynda frá starfseminni í anddyri hússins.  Meðal annars eina af Sacky.

Mynd af Sacky í höfuðstöðvum ACC. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Ef við hefðum haft þessar upplýsingar og þrátt fyrir að ráðherra hefði verið í embætti þá hefði rannsókn okkar farið fram,“ segir Noa en viðurkennir aðspurður að það sé auðveldara að rannsaka málið nú þegar Sacky er ekki lengur yfir stofnuninni.

Eitt af því sem bent hefur verið á er hversu langan tíma tók fyrir ráðuneyti Sacky Shangala að afgreiða beiðnir frá rannsakendum í Namibíu um aðstoð erlendis frá.  Forstjóri ACC viðurkennir að ráðuneyti dómsmála hafi dregið lappirnar og þannig tafið rannsóknina á sjálfum ráðherranum.

„Einhver seinkun hefur orðið á því en ég vil ekki segja að það sé vegna ráðherrans sem gegndi embætti. Af því það eru embættismenn sem sinna slíku,“ segir hann.

Þeir eru kannski að hlífa yfirmanni sínum?

„Ég segði það ekki þannig. Allavega voru beiðnirnar sendar en þær ekki afgreiddar eins skjótt og við hefðum viljað,“ svarar Noa.

Enga aðstoð að fá

Þurrkatímabil sem nú hefur varað í 6 ár í Nambibíu og ekki skilað svo mikið sem dropa úr lofti í rúmt ár hefur ásamt versnandi efnahag komið verst niður á þeim sem síst skyldi. Fyrir skemmstu var ákveðið að falla frá 1,5 milljarða framlagi til uppbyggingar spítala í landinu vegna niðurskurðar.

Katatura-ríkisspítalinn. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Þetta er vel sjáanlegt á Katatura-ríkisspítalanum, stærsta spítala landsins. Þangað fara fátækustu íbúar landsins sem ekki geta farið á einkasjúkrahús. Þar skortir lyf, tæki og starfsfólk. Úr sér gengin tæki og tól eru ekki endurnýjuð. Ruslahaugurinn við bakdyr spítalans segir sína sögu. Á sama tíma er stjórnmálahreyfingin SWAPO að byggja sér sex milljarðs króna höfuðstöðvar handan götunnar.

Grobler segir spillinguna lífshættulega: „Spillingin blátt áfram kálar fólkinu. Aðstaðan er bara ekki fyrir hendi. Svo að fólk er yfirgefið á börum úti á gangi.“

Undir það taka Willow og Paulo, íbúar í Katatura. „Maður mætir þar með augað úti, með iðrin í plastpoka þá verður að fara í biðröðina,“ segir Paulo og Willow bætir við: „Ef ekki er nein lyf að fá farið þá heim. Hafi maður ekki pening til að fara í apótekið, farið þá heim. Svo veikist maður og deyr.“

Fá bara parasetamól

Erica Gebhardt er fréttamaður á sjónvarpsstöðinni One Africa TV í Namibíu. Hún hefur fjallað um ástandið á spítalanum.

„Við höfum heyrt um tilvik þar sem fólk hnígur niður fyrir utan spítalann og engir sjúkrabílar eru til staðar. Flestir sem hafa leitað til sjúkrahússins nýlega segja að einu lyfin sem þar sé að hafa... blóðþrýstingslyf eru öll búin, þeir hafa ekki slík lyf. Maður fær bara panodil eða parasetamól töflur. Það er með ólíkindum,“ segir hún.

Grobler segir að enginn þingmaður og ráðherra þora að stíga fæti inn fyrir dyr almenningssjúkrahúsanna.

John Grobler rannsóknarblaðamaður. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

„Þeir leita til rándýrra einkasjúkrahúsa þar sem krafist er fimmtán þúsunda í fyrirframgreiðslu eða það er ekki tekið við manni. Annars sækir sjúkrabíllinn þig og skilur þig eftir við Katutura-sjúkrahúsið þar sem maður deyr líklega í biðröðinni,“ segir hann.

Kennt undir tré

Í stjórnarskrá Namibíu segir skýrt og greinilega að grunnmenntun sé réttur allra og eigi að vera gjaldfrjáls. Nýlega var hins vegar byrjað að rukka börn fyrir bækur og ritföng. „Skólarnir, skólakerfið hér í Namibíu; ég fæ ekki skilið að ætlast sé til að börnin læri við slíkar aðstæður. Sumum er kennt undir trjám,“ segir fréttakonan Erica um aðstæðurnar sem börnum er boðið uppá .

Sandra Benjamin ætlar sér að verða læknir. Hún reynir að eyða mestum tíma í að læra, jafnvel þó það sé oft erfitt í rafmagnsleysi og blankheitum sem leyfa stundum ekki að keypt sé kerti fyrir hana að lesa við í myrkrinu.

Að alast upp í Ombili felur ekki bara í sér óttann við hungur og farsóttir. Alkóhólismi, ofbeldi og hörmungar sem fylgja eru brauðið sem kalla má daglegt hér. Sandra er þó ákveðin ung kona, hún ætlar sér að skapa sér og sínum betri framtíð.

„Við þurfum húsnæði, við þurfum salerni, við þurfum mat. Við þörfnumst þess að fólk komi hingað og hjálpi okkur, hjálpi foreldrum að annast börnin sín og koma í skóla,“ segir Sandra.

„Sum börnin fara ekki í skólann, eru bara svona á götunni. Þau lifa bara á götunni. Við greiðum líka skólagjöld núna. Við þurftum aldrei að gera það. En hlutirnir eru að breytast eins og hjá mér í skólanum. Þegar við byrjuðum höfðum við ekki neinar námsbækur. Við lærum bara í skólanum en heima höfum við ekki neinar námsbækur eða hjálpargögn.“

Staða SWAPO veikari

Áður en við komum í þessa stuttu ferð til Namibíu höfðum við gengið frá því að ræða við tvo ráðherra í ríkisstjórn landsins. Þeir hættu hins vegar báðir við þau viðtöl á síðustu stundu.  Forsetinn, Hage Geingob, var líka of upptekinn við kosningabráttu sína til að hitta okkur, að sögn aðstoðarmanns hans.

Við spurðum framkvæmdastjóra ACC hvort það gæti verið að jafn víðfemar áætlanir, eins og Samherjaskjölin virðast afhjúpa, gætu verið í gangi án þess að forsetinn vissi af því. „Ég get ekki sagt neitt um það hvort hann vissi eða ekki. Forsetinn er sá borgari þessa lands sem vill alls ekki skipta sér af stofnuninni gegn spillingu. Ekki í eitt einasta skipti,“ segir Noa ákveðinn.

Málið hefur valdið titringi í stjórnmálunum og er óvíst að staða SWAPO og forsetans sé jafn sterk og áður, að mati blaðamanna The Namibian.

„Ef þú hefðir nefnt þetta fyrir mánuði segði ég að óháður fulltrúi SWAPO tæki 10 prósent atkvæða frá núverandi forseta. Það hefði þótt mikil tíðindi. Nú lítur út fyrir að það verði ein þrjátíu prósent, ég giska á það. En tilfinningin er að fólk hefur fengið sig fullsatt. Að það hafi verið vaðandi spilling, vaðandi spilling,“ segir Tangeni.

Erica Gebhardt,fréttamaður One Africa TV. (Kveikur/Stefán Aðalsteinn Drengsson)

Erica tekur undir það. „Það er einfaldlega ömurlegt. Þetta er sorgardagur í Namibíu. Miðað við íbúafjölda landsins hefðum við getað komið ótrúlegum hlutum í verk í krafti auðlinda okkar fyrir fólkið í landinu,“ segir hún.

Hopwood er bjartsýnn á að uppljóstrunin geti haft jákvæð áhrif. „Í mínum huga gæti þetta orðið þáttaskil í Namibíu. Ef við ráðumst af alvöru gegn spillingu þá gæti þetta orðið augnablik aðgerða eða þá að við hreinlega gefumst upp í slagnum,“ segir hann.

Grobler sér sömu tækifæri: „Í fyrsta skiptið í þrjátíu ár eygi ég tækifæri. Og já, þetta verður ferli og breytingin verður ekki á einni nóttu en hjólin hafa tekið að snúast.“