Undanfarin áratug hefur Samherja tekist að komast yfir tugmilljarða virði af kvóta og hagnast vel í Namibíu. Þessi verðmæti hafa frekar skilað sér til Íslands en til samfélagsins í Namibíu.

Samherjaskjölin

Hjartað í Kýpur

Samherjaskjölin

Hjartað í Kýpur

Sem dæmi var aflaverðmæti Samherja í Namibíu sagt vera   hátt í sex milljarðar íslenskra króna, í gögnum fyrirtækisins árið 2015. Tölur fyrir fleiri ár liggja ekki á lausu en ljóst er að aflaheimildir Samherja jukust enn frekar í kjölfarið.

Strax í upphafi voru lagðar línur um tvennt: Að ná í aflaheimildir og koma ávinningnum úr landi: „Áskorun að ná sem mestum hagnaðinum úr landi en það er 33% skattur af hagnaði (hægt að fara ýmsar leiðir, charter agreement, hugsanlegt management agreement, sales agreement og fl).”

Á sama tíma var forstjóri Samherja að teikna upp allt aðra mynd af starfsháttum fyrirtækisins.

Í Kastljósi, um það bil hálfu áru eftir að þessi póstur var sendur, sagði hann: „Enda erum við að reka fyrirtæki þar sem eru siðuð þjóðfélög, það er ekki hægt að fjarlægja peninga út úr þessum fyrirtækjum nema í gegnum arðgreiðslur.“

Jóhannes segir að strax og starfsemi Samherja hafi verið byrjuð í Namibíu árið 2012 að finna leiðir til að koma hagnaði úr landinu.

„Þá bara fer vinna strax af stað, bara full vinna og með þá Ingvari Júlíussyni hjá Samherja og fleirum að finna bara leiðir. Það var bara verið að gera allt sem hægt var til að forðast að borga skatta í Namibíu, bara ordur frá Aðalsteini og Þorsteini um að það ætti bara ekki að borga skatta þarna. Mér skilst að fram til ársins 2019 það eru nánast engir skattar borgaðir,“ segir hann.

Leiðirnar fólu allar í sér að færa hagnað til landa þar sem  skattar eru lágir eða engir. Með ýmis konar viðskiptum við Samherjafélög sem þar voru staðsett.

Þessi flóknu innanfélagsviðskipti voru í höndum Ingvars Júlíussonar, aðalendurskoðanda Samherja og stjórnanda fjölmargra Samherjafélaga sem staðsett eru víðsfjarri öllum miðum og mörkuðum útgerðarinnar.

Miðja starfseminnar á Kýpur

Á eynni Kýpur fer fram umfangsmikil fisksala og þar eru tugmilljarða eignir geymdar í tíu félögum Samherja. Öll skráð til húsa hér á sama stað. Á Kýpur er þó engin útgerð, ekkert starfsfólk og þangað kemur aldrei neinn fiskur.

Kýpur gegnir stóru hlutverki í útgerð Samherja í Namibíu.

Skipin sem þar veiða eru leigð frá Kýpur. Afli sömu skipa, er seldur af öðru Kýpurfélagi, jafnvel þó hann fari nær allur til Kongó. Namibíska útgerðin hefur líka greitt af lánum og fyrir aðra þjónustu til Kýpur.

Allt fer þetta fram milli félaga í eigu eins og sama fyrirtækisins. Samherja.

Leið eignarhaldsins frá Íslandi og til Namibíu er ekki einfaldari. Frá eigendunum í gegnum tvö íslensk félög, til Kýpur, í gegnum önnur tvö félög þar og þaðan til Afríku. Ekki þó til Namibíu, heldur út á mitt Indlandshaf. Til eyjunnar Máritíus.

Á pappírunum mætti ætla að þar fari fram umfangsmikil starfsemi Samherja.

Hentugir samningar

„Það var mjög hentugt fyrir Samherja að stofna félag á Máritíus því að Máritíus og Namibía eru með tvísköttunarsamning og þar af leiðandi er hægt að koma fjármagni mjög ódýrt út. En Samherji er ekki með nokkurn mann á Máritíus. Þetta er bara ein leið til að komast í það, hjá því að borga skatta,“ segir Jóhannes.

Ingvar Júlíusson og Bernhard Bogason, lögmaður og sérfræðingur í skattamálum, lýsa því nokkuð opinskátt í tölupóstum á árinu 2015 2014 að markmiðið með stofnun útibúsins á Máritíus sé einfalt: Að koma hagnaði frá Namibíu til Kýpur með sem minnstum kostnaði.

Það að færa peningana beint frá Namibíu til Kýpur, hefði kostað skatt. Það að færa þá fyrst til Máritíus og þaðan til Kýpur, þýddi að hægt væri að spara sér eða komast alveg hjá skatti. Taka snúning á því, eins og Ingvar kallaði það.

Hugverkasamningar voru leiðin. Samherji hafði eins og áður segir gert samninga við sín eigin félög í Namibíu um að borga það sem sagt var: „Þekking, stjórnendareynsla, stjórnendateymi, þar á meðal starfsmenn, sölumenn, stjórnendur og annað auk notkunar á vörumerki Samherja.“

Allt var þetta þjónusta sem nú var sögð í útibúi Samherja á Marítus og útgerðarfélög Samherja í Namibíu greiddu nú fyrir heil 5 prósent af allri innkomu í Namibíu.

Aðferð sem er þekkt og hefur ítrekað verið harðlega gagnrýnd og sögð misnotkun á tvísköttunarsamningi þjóðanna.

Bankamiðstöðin í Noregi

Til að gera myndina enn flóknari fer meginþorri bankaviðskipta í gegnum enn eitt landið, Noreg, ríkisbankann DNB.

Allir peningarnir sem virðast streyma í gegnum Kýpur, frá Afríku til Evrópu og öfugt, koma aldrei þangað. Þeir eru í Noregi. Þessir norsku bankareikningar eru í raun lífæðin í starfseminni. Safnhaugur arðs af veiðum Samherja víða um heim. Og það er af þessum reikningum sem peningar fara frá Samherja til Dúbaí.

Fimmtán sinnum eru peningar millifærðir til Dúbaí af þessum norsku reikningum samherjafélaganna Esju Seafood og Noa Pelagic á Kýpur. Samkvæmt heimildum Kveiks sýnir skoðun á Dúbaí félaginu að einu peningarnir sem því berast séu þessir - frá Samherja.

Bankaviðskipti Samherja í DNB hafa vakið athygli starfsmanna bankans. Viðskipti Samherja við DNB hafa þó ekki hætt. Það var síðast á þessu ári sem Samherjafélagið Noa Pelagic millifærði bandaríkjadali, jafnviði fimm milljóna króna, til Dúbaí-félagsins Tundavala.

Nánar verður fjallað um þessa reikninga í Stundinni, miðvikudaginn 13. nóvember.

Markmiðið ljóst

Samtökin Tax justice network útnefndu í sumar Máritíus og Dúbaí, þau tvö skattaskjól heimsins sem valda Afríkuríkjum mestum skaða. Þangað fari gríðarlegur hagnaður auðlinda ár hvert fram hjá sköttum. Á Máritíus fæst tvennt: Óhemju lágir og jafnvel engir skattar ásamt algjörri leynd.

Alvin Mosioma, framkvæmdastjóri Tax justice network Africa, hefur kynnt sér gögn Wikileaks.

„Samherji fór til Namibíu í tvennum ólíkum tilgangi. Annars vegar til að nota mútur og spillingu til þess að auka áhrif sín og komast yfir fiskveiðikvóta í Nambíu, sem félagið og gerði, blygðunarlaust. Hins vegar til þess að haga starfseminni þannig að félagið geti borgað namibíska ríkinu eins lága skatta og hægt er. Þetta gerðu Íslendingar sömuleiðis blygðunarlaust með því að stofna dótturfyrirtæki í tveimur skattaskjólum,“ segir hann.

„Nýlegar rannsóknir sýna að meginland Afríku tapar allt að fimmtíu milljörðum dollara árlega vegna ólöglegs fjárstreymis sem að mestu helgast af skattsvikum og því hvernig fjölþjóðleg fyrirtæki forðast skattgreiðslur. Það sem hefur gerst í Namibíu er bara dæmi um það hvernig auðlindir sem eru í eigu og ættu að vera í eigu Afríkuríkja sogast úr landi af völdum vel tengdrar viðskiptaelítu og spilltra stjórnmálamanna sem taka höndum saman.“

Fyrri hluti:
← SWAPO flokkurinn

Næsti hluti:
Uppljóstrarinn →