Samherji keypti útgerðina Sjólaskip fyrir 12 milljarða króna árið 2007. Afríkuútgerðin hefur reynst Samherja arðbær og var sögð standa undir þriðjungi af allri veltu og hagnaði félagsins næstu árin. Hagnaður Samherja undanfarinn áratug er yfir eitt hundrað milljarðar króna.

Samherjaskjölin

Af hverju
Namibía?

Samherjaskjölin

Af hverju
Namibía?

Í kaupunum fylgdu sex togarar, þar á meðal risatogarinn Heinaste. Togararnir eru í raun líkari fljótandi verksmiðjum sem koma ekki í land nema á tveggja ára fresti. Til 2010 veiddu þeir árlega hundruð þúsunda tonna við strendur Marokkó og Máritaníu.

Það ár breyttust forsendur og kvóti lá ekki lengur á lausu. Fyrirtækið þurfti því að treysta á að Marokkómenn myndu úthluta þeim kvóta. Í því verkefni miðju lenti Jóhannes.

Þrátt fyrir mikla vinnu og tilraunir forseta Íslands til að hlutast til um samningagerðina við Marokkómenn, meðal annars í gegnum tengsl Ólafs Ragnars við valdamikinn bankamann í landinu, tókst Samherja ekki að fá það sem sóst var eftir. Sjófrystikvóta.

„Það eru mikil verðmæti í Hrossamakrílskvóta og þá fyrir sjófrystingu, þetta er mjög einfalt í uppsetningu eins og í tilfelli Samherja, þeir komu bara með skipin, veiða, frysta, landa í fraktskip. Þetta er engin fyrirhöfn og það er ekkert verið að fjárfesta í landinu,“ útskýrir Jóhannes.

Niður til Namibíu

Aðalsteinn Helgason, sem verið hafði háttsettur innan fyrirtækisins og setið í stjórn þess árum saman, var framkvæmdastjóri Afríkustarfsemi Samherja, sem snerist nú um að leita sunnar eftir kvóta. Honum til aðstoðar voru auk Jóhannesar, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur og í Afríku.

Namibía virtist henta best. Þar var mikið af hrossamakríl; um 350 þúsund tonna árskvóti.

Það var þó ekki hlaupið að því að fá sjófrystikvóta á verði sem Samherja hugnaðist. Það virðist hafa breyst í nóvember árið 2011 þegar ungur maður hitti þá Aðalstein og Jóhannes á þaki fimm stjörnu Hilton hótelsins í miðju Windhoek, höfuðborgar Namibíu.

Ungi maðurinn sem ætlaði sér í samstarf við þetta fjölþjóðlega sjávarútvegsfyrirtæki hafði þó enga reynslu í greininni og kom í rauninni ekki með neitt að borðinu sem virtist geta nýst Samherja í útrásinni hér í Namibíu. Hann kom hins vegar með eitt á fund hér á Hilton hótelið í Windhoek, fjölskyldualbúm sem hann lagði á borðið fyrir framan Samherjamenn.

„Hann sýnir okkur myndaalbúm á iPadinum sínum þar sem að er mynd af honum og dóttur sjávarútvegsráðherrans. Þarna var kominn tengdasonur sjávarútvegsráðherrans og það var nóg til að taka nokkra fundi í viðbót og svo fyrir Aðalstein til að semja við hann,” rifjar Jóhannes upp.

Þetta var Tamson Hatuikulipi. Hann er alltaf kallaður Fitty, af vinum og fjölskyldu. Fitty er líka ritað á einkanúmerið á hvíta Benz bílnum sem hann ekur nú um á.

Aðalsteinn Helgason samdi skriflega við Tamson, fyrst og fremst vegna vensla hans, að sögn Jóhannesar. Hlutverk hans var ekki skilgreint nánar en svo að Tamson gæti og ætlaði að tryggja Samherja hrossamakrílskvóta.

Það gerði Tamson með því að kynna Samherja fyrir tengdapabba sínum eins og segir í minnisblaði Jóhannesar til yfirmanna sinna stuttu síðar.

Katla „er með gott samband við Sjávarútvegsráðherrann og hans menn (það vita mjög fáir og er meðhöndlað sem algjört trúnaðarmál). Hann styður Kötlu í Namibíu […] Hann hefur óskað eftir að það verða bein samskipti á milli Kötlu og hans, eða þau fari ekki í gegnum skrifstofu ráðherrans. Ráðherrann er að vinna vinnu til að aðstoða Kötlu í dag.”

Áhersla á leynd er margítrekuð þarna, fyrr og síðar.

Í góðu sambandi

Í gögnunum sem Kveikur hefur rannsakað ber strax mikið á umræðu um tengsl við ráðamenn. Vísað er í gott samband Samherja á æðstu stöðum og vinsamlegs andrúmsloft til Íslands, eftir áratuga þróunarstarf.

Sambandið er sagt „mjög dýrmætt enda kvótaúthlutanir pólitískar“ í Namibíu. Á öðrum stað er svo fullyrt að Samherji sé að fá kvóta „í gegnum Swapo”, sem hefur farið með stjórn Namibíu allt frá sjálfstæði landsins árið 1990. Þannig yrði kvótinn ódýrari, einungis þyrfti að greiða það sem kallað er „kvótagjald“ til flokksins.

Mútur eru líka óhikað nefndar og sagt að: „Spilling sé mikil í landinu” og ekki þyki óeðlilegt að „borga aðilum fyrir aðstoð við að klára mál - svokallað „facilitation fee“.

Þrátt fyrir margíterkaða leynda var rætt opinskátt um fyrirhugaða landvinninga í Namibíu á árlegum stjórnendafundi Samherja, sem haldinn var hér á Hilton-hótelinu í Frankfurt þann 22. mars árið 2012. Stjórnendafundir Samherja eru árviss viðburður. Hátt í þrjátíu stjórnendur víða um heim koma saman og ráða ráðum sínum. Namibía var fyrst á dagskrá.

Aðalsteinn Helgason hafði augljóslega gert nokkur drög að kynningu sinni. Í einni þeirra lýsir hann landi og þjóð svona: „Fagurt land með gott fólk. Lítil þjóð í stóru landi – Lífsglaðir letingjar.“ Kynning Aðalsteins í Frankfurt innihélt hófsamari lýsingu á landi og þjóð, eftir athugasemdir undirmanna hans við orðfærið.

Eftir hefðbundna yfirferð um land og staðhætti sagði hann hins vegar: „veruleg spilling er ríkjandi” í landinu og við flennistóra mynd af sjávarútvegsráðherra Namibíu: „ráðherra getur breytt tonnum á hvern aðila eftir geðþótta“.  Og í gegnum þennan ráðherra ætlaði Samherji að stytta sér leið, samkvæmt kynningunni. Án þess að keppa um kvóta á markaði. Það væri of dýrt.

Til væri ódýrari leið fyrir Samherja í gegnum „menn sem eru nátengdir ráðherranum og öðrum mönnum í æðstu stöðum”.

Aðalsteinn segir þá og ráðherrann sjálfan hafa lofað Samherja ódýrari kvóta en almennt bjóðist. Samherji sé „nálægt ráðherranum“ og hafi nú „tækifæri sem við fáum ekki aftur,” eins og segir í lokaorðum kynningarinnar.

Hákarlanir

Mennirnir sem Aðalsteinn sagði nátengda ráðherranum, voru auk Tamsons, náfrændi hans, James Hatuikulipi, stjórnandi fjármálafyrirtækis, og Sacky Shanghala, háttsettur SWAPO-liði og núverandi dómsmálaráðherra Namibíu, sem á þessum tíma sat í valdamiklu embætti formanns lagaendurskoðunarnefndar landsins.

Þremenningarnir voru líka kallaðir „Hákarlarnir“.

James og Sacky hafa efnast vel á viðskiptum tengdum einkaréttarsamningum ríkisins og fyrir vikið verið harðlega gagnrýndir og sakaðir um spillingu. Nokkuð sem Sacky hefur þvertekið fyrir en jafnframt sagt: „pólitík og viðskiptalíf bólfélaga, sem fátt fái skilið að.”

Hákarlarnir voru kannski nýgræðingar í sjávarútvegi en verðmætir engu að síður.

„Öll innstu leyndarmál eru í þessum hópi með ráðherranum,“ sagði í minnisblaði Jóhannesar til Þorsteins Más og Aðalsteins sem dagsett var í ágúst 2012. Þar er mikilvægi hvers og eins lýst. Tamson sagður hafa reynst mjög vel og fært skilaboð á milli ráðherrans og Samherja. James gegni þar stóru hlutverki og  Sacky sagður áhrifamikill og hafa reynst vel, enda einn af þeim sem skrifi lög landsins.

Samherjamenn launuðu hákörlunum enda ríkulega og styrktu sambandið á næstu árum. Minnst þrisvar hefur Samherji flogið þeim til Íslands og pungað út milljónir króna fyrir, eins og reikningar og kvittanir fyrir flugferðir og hótelgistingar, hér og í Lundúnum sýna.

Á djamminu í Reykjavík, í heimsóknum til forstjóra Samherja, sem sérstakir gestir á árshátíð fyrirtækisins árið 2016 og í vélsleðaferð í Eyjafirðinum – allt í boði Samherja. Auk þess sem Þorsteinn Már og ráðherrann hittust tvisvar í Namibíu, með leynd í bæði skiptin. Á heimili tengdasonarins í október 2015, þar sem vel fór á með þeim.

Fundur sjávarútvegsráðherra Namibíu og Þorsteins Más á heimili tengdasonar ráðherrans. (Wikileaks)

Fyrsti fundur þeirra var þó í maí árið 2012, þar voru viðstaddir þeir Aðalsteinn og Jóhannes auk hákarlanna. Fundurinn gat ekki farið fram á Hilton-hótelinu eða heimili ráðherrans, þar spölkorn frá. Heldur var leitað í næði, á búgarðinn Dakota House, 200 kílómetra vestur af borginni.

„Fundurinn á búgarði sjávarútvegsráðherrans árið 2012 var gríðalega mikilvægur. Þorsteinn og Aðalsteinn komu sérstaka ferð til Namibíu og það var séð til þess að þetta væri á búgarði sjávarútvegsráðherrans svo það yrði leynd yfir þessu. Þarna er verið að byggja traust. Traust sem er svo mikilvægt þegar fram líða stundir. Og sjávarútvegsráðherrann lofaði líka Samherja comfort um að komast í kvóta og á betri verðum heldur en gekk á á þessum tíma,“ segir Jóhannes.

Fyrri hluti:
← Yfirlit

Næsti hluti:
Hákarlagreiðslur →