Milljarðar um „varasöm“ félög

Einn angi rannsóknarinnar sem hafin er í Noregi vegna Samherjaskjalanna beinir sjónum að því hvernig fjármálafærslurnar sem því tengjast gátu átt sér stað. Horft er á það sem virðast vera veikar varnir og aðgerðir norska ríkisbankans DNB við peningaþvætti.

Milljarðar um „varasöm“ félög

Kýpverskur fyrirtækjaklasi Samherja, sem er hjarta starfsemi félagsins víða um heim, hefur geymt meginþorra peninga sinna á reikningum í norska bankanum DNB.

Hvers vegna peningar úr Afríkustarfsemi Samherja streymdu um norska bankareikninga er lítið vitað um. Gögn innan úr DNB sem Wikileaks birtir í kvöld sýna að jafnvel starfsmenn bankans veltu því fyrir sér.

Óljósar tengingar

Skoðun DNB á reikningum sem bankinn taldi víst að væru tengdir Samherja tóku meðal annars til félagsins JPC Shipmanagement sem sá um ráðningarsamninga starfsmanna á skipum félagsins víða um heim.

Launagreiðslur til áhafnarmeðlima á skipum Samherja í Afríku fóru í gegnum Cape Cod Fs. (Mynd/Al Jazeera)

Það var sagt móðurfélag annars félags, Cape Cod Fs, á Marshall-eyjum, sem DNB taldi raunar í eigu Samherja. Enda hafði starfsmaður fyrirtækisins verið meðal prókúruhafa reikningsins og stofnandi.

Sjá einnig: Það sem Samherji hafði að fela

Árið 2017 lét bankinn gera svokallaða „know your client“ athugun á JPC Shipmanagement. Rauð ljós kviknuðu, en ekkert virðist hafa verið aðhafst. Hvorki vegna þess eða Cape Cod.

Þetta kemur fram í nýjum gögnum sem Wikileaks birtir nú í kvöld og Kveikur vinnur úr ásamt norska ríkissjónvarpinu NRK og Stundinni. Gögnin benda til að eftir þessa skoðun hafi bankinn áfram leyft milljörðum að fara um reikninga félaganna tveggja.

Fengu athugasemd frá New York

Svo virðist sem bankinn hafi í raun ekki brugðist við stöðunni fyrr en bandaríski bankinn Bank of New York Mellon stöðvaði millifærslu til Bandaríkjanna. Árið 2018. Um ári eftir að DNB komst að því að hann vissi í raun ekkert um eigendur félagsins.

Vísbendingar eru um að greiðslur hafi farið til Bandaríkjanna fyrir mistök, jafnvel þó að starfsmenn bankans vissu að það ætti ekki að afgreiða þær.

Allt er þetta þvert á markmið með eftirliti um peningaþvætti sem á að fara fram innan fjármálastofnana. Bæði í Noregi og annars staðar í Evrópu.

Talsmenn bankans hafa neitað að svara spurningum um málið, bæði nú og í sumar. Það vill norska efnahagsbrotalögreglan Ökokrim ekki heldur gera.

Hedvig Moe, settur forstjóri Ökokrim. (Mynd/NRK)

Tjá sig ekki

Hedvig Moe, settur forstjóri Ökokrim, settist þó niður með NRK á mánudag. En svörin voru almenn eðlis. „Ég get hvorki játað því né neitað að rannsókn sé í gangi á þessum málum og get því ekki farið nánar út í það,“ sagði hún.

Hún segir það líka vera DNB að meta hvað bankinn geti sagt um málið.

„Bankinn verður að útskýra túlkun sína á reglunum. Ég get ekkert sagt um það. En það gilda strangar reglur um þagnarskyldu, einnig fyrir bankana samkvæmt lögunum um peningaþvætti,“ sagði Moe.

„Ég get staðfest að við höfum haft samband við DNB og það er ekki óalgengt að við höfum samband við aðila þegar upp koma aðstæður sem þessar.“

Launagreiðslur um Marshall-eyjar

Tilgangur Cape Cod Fs virðist fyrst og fremst hafa verið að borga laun starfsmanna Samherja og síðar starfsmanna útgerðar rússneska auðjöfursins Vitalys Orlov, eftir að hann keypti hluta af Afríkustarfsemi Samherja.

Starfsmennirnir voru á samningum sem starfsmannaleigan JPC Shipmanagement á Kýpur, sem er í eigu samnefnds þýsks félags, hélt utan um og svo virðist sem afnot af Cape Cod Fs hafi fengist í gegnum starfsmannaleiguna.

Yfirlit yfir bankaviðskipti Samherja sýna að milljarðar flæddu frá félögum tengdum útgerðarrisanum til Cape Cod. Og, ekki bara til félagsins til að standa straum af launagreiðslum, heldur hafa fjármunir einnig borist Samherjafélögunum frá Cape Cod.

9,2 milljarðar króna streymdu frá Kýpurfélögunum Esju Seafood og Noa Pelagic, til Cape Cod á meðan það var í viðskiptum við DNB, frá 2010 til 2018. Þetta eru sömu félög og sáu um greiðslur til stjórnarformanns namibíska ríkisútgerðarfélagsins Fishcor, sem Kveikur fjallaði um 12. nóvember síðastliðinn.

Reikningunum lokað

Bankanum þótti þetta á endanum óþægilegt. Ekki síst af ótta við að bandarísk yfirvöld myndu sekta DNB fyrir að standa sig ekki í eftirlitshlutverkinu. Það var því gerð ný greining á Cape Cod Fs. Og, hinu meinta móðurfélagi, starfsmannaleigunni JPC Shipmanagement.

Niðurstaðan var sú að umræddum reikningum var lokað. Enda benti bankinn sérstaklega á að engin þörf virðist vera á að þessi félög ættu bankareikninga í norskum banka.

Áhættumat sem DNB framkvæmdi árið 2018. (Grafík/Sævar Guðmundsson)

„Ég get sagt að við höfum séð fjölgun á tilkynningum um grunsamlegar færslur sem berast frá upplýsingaskyldri starfsemi til efnahagsbrotadeildar og þar á meðal bönkum. Við sjáum því að þeir eru vakandi fyrir þessu og verja mannafla og fé í þessa þætti,“ segir Moe, forstjóri Ökokrim.

Talsmaður DNB segir í skriflegu svari við viðtalsbeiðni Kveiks að bankinn sé að skoða Samherjaskjölin og að ekki sé hægt að útiloka að DNB hafi verið misnotaður af glæpamönnum. Bankinn setji varnir gegn peningaþvætti í forgang og nefnir að á síðasta ári hafi fleiri en 1500 málum verið vísað til lögreglunnar.