Í fundargerð sem Samherjamenn gerðu eftir heimsókn á búgarð sjávarútvegsráðherrans, sem fram fór með mikilli leynd, stendur tvennt upp úr: Tilvitnun í ráðherrann um „comfort“ til handa Samherja og svo hvernig grunnur virðist lagður að því að koma Samherja fram hjá kröfum um namibískt eignarhald.

Samherjaskjölin

Hákarla-
greiðslur

Samherjaskjölin

Hákarla-
greiðslur

Sú stefna að Nambíumenn eigi forgang í sjávarauðlindina var mörkuð snemma og bundin í lög.

Lausnin á því var innan Samherja kölluð því smekklega nafni að setja „svart andlit”  á starfsemina, „fá heimamenn í eignarhöldin sem frontur“ eins og sagt var orðrétt. Hákarlarnir veittu liðsinni. Stafræn fingraför núverandi dómsmálaráðherra Namibíu eru sjáanleg á drögum að þessari fléttu.

Samherji varð með henni minnihlutaeigandi í útgerð sinni Kötlu í Namibíu. Meirihluti í fyrirtækinu skráð á nafn fyrirtækis í eigu Namibíumanns.

Í gögnunum sést að svona var þetta þó ekki raunverulega. Meðeigandanum lýst sem front fyrir James og félaga” og sagt að með baksamningum tryggði Samherji sér yfirráð yfir félaginu, og nærri 75% „efnahagslegan hlut”.

Í minnisblaði til Þorsteins Más stuttu seinna, segir svo: „komnir í samvinnu við ráðherrann og er hann hluthafi í fyrirtækinu.“

Jóhannes segir að þetta hafi verið áfangi fyrir Samherjamenn.

„Það var viss áfangi að fá sjávarútvegsráðherrann og hans fólk sem hluthafa í fyrirtækinu. Það er enginn af þeim hluthafar á pappírnum, þeir nota bara frontmenn eins og tíðkast þarna í spillingunni. Svona virkar bara Samherji þannig að maður vann bara eftir þeirri stefnum og ordrum,“ segir hann.

Vildu komast í sjófrystikvóta

Allt snérist þetta um að komast yfir þennan verðmæta sjófrystikvóta. „Það var alveg skýr stefna hjá yfirmönnum mínum að það ætti bara að komast yfir sjófrystikvótann eins ódýrt og hægt er og með hvaða leið sem er. Samherji lenti ekkert í því að greiða mútur í Namibíu,“ svarar Jóhannes.

Beðinn um að nefna dæmi, svarar Jóhannes:

„Fyrsta greiðslan til sjávarútvegsráðherrans, þá fékk ég beiðni frá tengdasyninum að hvort það ætti ekki að borga ráðherranum pening því hann væri búinn að leggja sitt af mörkum til að styðja Samherja að komast inn í Namibíu. Ég spyr hversu mikið og hann talar um 60 þúsund US dollara á þeim tíma, þannig að ég segi að ég verð bara að hringja í mína yfirmenn og ég hringdi í Aðalsteinn Helgason og ég spyr hann og það kom mér dálítið á óvart hvað hann tók þessu bara sem sjálfsögðum hlut. Orðaði þetta einhvern veginn þannig að „ef þú hefur tækifæri til að borga sjávarútvegsráðherra þá skaltu borga honum strax.“ Ég sá til þess að hann fékk þessar 60 þúsund US.“

Jóhannes segist hafa afhent peningana í íþróttatösku á Hilton hótelinu í Windhoek.

„Ég þurfti að fara frá Walvis Bay til Windhoek. Byrja á því að koma mér á hótel, fer síðan að kaupa tösku, og ég er búinn að senda þá oftast beiðni inn í bankanum að hafa peninga klára og fá þessa peninga og það er eitt útibú í Windhoek sem afgreiðir svona upphæðir og maður mætir og svo fer maður inn í öryggisherbergi og gefur sín skilríki og upplýsingar og þá fær maður peningana og setur þá bara í tösku og fer síðan upp á hótel, lét tengdasoninn vita og þar læt ég hann hafa töskuna,“ segir hann.

„Þetta gerðist stuttu eftir fundinn á búgarðinum.“

Samkvæmt yfirliti af bankareikningum Samherja í Namibíu var samsvarandi upphæð og Jóhannes vísar til tekin út í reiðufé á þessum sama tíma. Afdrif slíkra úttekta er þó vonlaust að rekja frekar.

Senda reikninga

Þannig er þó ekki farið með stærstan hluta greiðslna sem Jóhannes segir að hafi runnið frá Samherja til þessa hóps á næstu árum.

„Fyrir allar mútugreiðslurnar þá eru bara gerðir reikningar til að geta réttlætt fyrir þetta í bókhaldinu. Í sumum tilfellum þá voru gerðir ráðgjafasamningar ogg síðan var líka gerður húsaleigusamningur. Þetta var allt til málamynda og fyrst og fremst fyrir bókhaldið svo það fari ekki að vakna einhverjar spurningar í kringum þetta,“ segir Jóhannes.

Í þessu samhengi lék ríkisfyrirtækið sem Íslendingar stofnuðu með heimamönnum lykilhlutverk.

„Fishcor er langstærsti kvótahafinn í dag í Namibíu. Fyrir nokkrum árum voru þeir með engan kvóta en út af því að hákarlinn og sjávarútvegsráðherrann og fleiri breyttu lögunum að í dag þá eru þeir örugglega með hátt í einn þriðja af hrossamakrílskvótanum,“ segir hann.

Árið 2014 varð óvænt stefnubreyting hjá Fishcor. Esau sjávarútvegsráðherra skipaði fyrst öllum að óvörum, James Hatuikulipi, náfrænda tengdasonar síns, stjórnarformann Fishcor, að því er virðist þvert á starfsreglur fyrirtækisins. Því fylgdi Esau svo eftir með því að úthluta hrossamakrílskvóta í fyrsta sinn til Fishcor.

Hvort tveggja gerðist raunar svo lítið bæri á, en Samherjamenn fylgdust hverju skrefi.

Kvótann tók ráðherrann af fyrirtæki sem starfað hafði í Namibíu í fjölda ára og byggt upp starfsemi á sjó og í landi. „Og það fyrirtæki er bara farið í dag. Yfir þúsund störf töpuð og þetta var fyrirtæki sem borgaði alla sýna skatta í landinu, þessu fyrirtæki var bara fórnað til að hleypa Samherja að og hákarlarnir fengu aðgang að kvóta,“ segir Jóhannes.

Breyttu lögunum

Kvótaúthlutun ráðherrans til Fishcor reyndist síðan ólögleg, eins og hæstiréttur Namibíu komst að ári síðar. Dómurinn hafði ekki meiri áhrif en svo að ráðherrann vatt sér nú í að breyta lögunum.

Samskipti sýna að hákarlarnir hafi lengi stefnt að lagabreytingunum í samráði við Samherja, sem taldi þær augljóslega í sína þágu. „Þær breytingar sem að eru í vinnslu vegna hugsanlegra nýrra laga og reglugerða í sjávarútveginum eru vegna ráðherrans, Sacky, James og Kötlu,“  sagði í minnisblaði Jóhannesar til Þorsteins Más.

Samskipti bera með sér bein afskipti Samherja af lagasetningunni, meðal annars með því að halda að samstarfsfélögum sínum íslenskum lögum um kvótaþakt einstakra aðila. Jóhannes segir að Samherji hafi ekki aðeins verið áhorfandi. „Samherji var að hlutast til að innannríkismálum með því að skipta sér af öllum lagasetningum og breytingum,“ segir hann.

Þegar lögin gengu í gegn sendi Jóhannes Þorsteini Má tölvupóst og sagði honum að lögin væru gengin í gegn og James væri búin að lofa langtímasamningi. Stofna þyrfti fyrirtæki með þeim og skipta prósentum. Lagabreytingin varð til þess að verðmætur kvóti, allt að 80 þúsund tonn árlega, fóru nú til Fishcor, frá ráðherranum og þaðan til Samherja, á sannkölluðum vildarkjörum.

Borguðu framhjá

Þegar ráðherrann úthlutaði ríkisfyrirtækinu kvóta ólöglega ári áður, var honum skipt milli Samherja og annars ótengds fyrirtækis, nema hvað Samherji greiddi 20 prósent lægra verð. Kjörin urðu enn hagstæðari eftir lagabreytinguna. Allt að helmingur af markaðsvirði. Stór hluti kvótaverðsins var enda greiddur fram hjá ríkisfyrirtækinu.

Tuttugu milljóna króna greiðslur til félags að nafni ERF 1980 samhliða fyrstu kvótaviðskiptum Samherja og Fishcor, eru dæmi um þetta.

Í fyrstu voru greiðslurnar sagðar fyrir „ráðgjöf“ en þeir reikningar síðan afturkallaðir og í staðinn gefnir út tveir nýir, annars vegar fyrir húsaleigu og svo fyrir kostnað vegna breytinga á húsnæðinu sem sagt var frystigeymsla á þessari lóð í Walvis Bay.

„Ég hef aldrei séð þetta húsnæði og þegar ég var að standa í þessu fyrir hönd Samherja þá var þetta bara alveg ljóst að það var bara verið að finna einhvern dummy samning til að dekka reikningana í bókhaldinu,“ segir Jóhannes.

Raunverulegur tilgangur þessara greiðslna var svo ræddur opinskátt í töluvpóstsamskiptum  fjármálastjóra Samherja í Namibíu og Jóhannesar. Fjármálastjórinn sagðist búinn að gleyma hvað þetta ERF1980 væri, sem tengdist „James og félögum“.

„Þetta er ein og hálf milljón fyrir flokkinn og hálf fyrir Seaflower (fishcor) -kvótann,“ svarar Jóhannes.

Endanlegir eigendur ERF 1980, í gegnum sjóð í þeirra eigu eru þeir Sacky Shanghala og James, stjórnarformaður Fishcor.

Greiðslur eins og þessar samhliða kvótaviðskiptum við ríkisfyrirtækið, áttu bara eftir að aukast. Oftast sagðar ráðgjafarkostnaður, byggður á samningum tengdasonarins við Samherja sem stjórnarformaður Fishcor vottaði jafnvel.

Hluti fer til hákarlanna

Samhengi kvótaviðskipta Samherja og Fishcor við slíkar ráðgjafagreiðslur, er athyglisvert.

Í byrjun árs 2016, fékk Samherji 5.000 tonna kvóta frá Fishcor á verði sem var 50 milljónum króna lægra en í samskonar viðskiptum stuttu áður. Samhliða fékk félag að nafni JTH Trading 30 milljónir króna greiddar frá Samherja. Að því er sagt var fyrir ráðgjöf.

Það félag er í eigu tengdasonar ráðherrans. Samkvæmt drögum að ráðgjafasamningi átti félagið  að vera Samherja innan handar við að ná sér í verkefni og fá fyrir ótilgreindar árangursgreiðslur. Félagið hefur ítrekað fengið greitt samhliða kvótaviðskiptum Samherja við Fishcor.

Í mars 2017 greiddi Samherji 25 milljónir króna til ríkisfyrirtækisins og 30 milljónir til JTH Trading. Í ágúst sama ár, fara 40 milljónir til Fishcor en 50 milljónir til JTH. Svipað mynstur er sjáanlegt árið 2018 og fram á þetta ár.

Síðastliðin þrjú ár hefur Samherji greitt JTH Trading um það bil 300 milljónir íslenskra króna á þennan hátt. Þrátt fyrir að vera skráð á tengdasoninn hægt að rekja greiðslur þaðan og til félaga í eigu hinna hákarlanna tveggja.

Jóhannes segir að hluti verðsins hafi í raun verið greitt framhjá ríkisfyrirtækinu. „Í staðinn fyrir að vera að borga 100% rétt verð til Fishcor þá var bara borgað til dæmis 65% og 35% beint inn á reikning hákarlana. Við vorum að borga undir markaðsvirði þótt við værum búnir að taka allan kostnaðinn saman. Fishcor er að tapa á þessu og ríkið er að tapa á þessu,“ segir hann.

Ráðgjafagreiðslur eins og þessar hafa verið rauður þráður í rekstrinum í Namibíu síðastliðin ár. Á fimm árum hefur Samherji greitt andvirði 600 milljóna króna til fjögurra namibískra Hákarlafélaga. Ýmist í tengslum við viðskipti Samherja og ríkisins eða í kjölfar fyrirgreiðslu ráðherrans og hans manna.

Vel þekkt aðferð

Greiðslur eins og þessar eru af alþjóðastofnunum eins og OECD sögð skýr merki um lögbrot. Daniel Balint-Kurti, yfirrannsakandi hjá Global Witness, hefur kynnt sér gögnin sem lekið var til Wikileaks og umfjöllun þessi byggir meðal annars á.

„Að nota orðið ráðgjöf til að lýsa greiðslum til vel staðsettra milliliða í samningum um náttúruauðlindir er dæmigerð og frumstæð spilling. Aftur og aftur sjáum við milligöngumenn taka við ólögmætum greiðslum sem bókaðar eru sem ráðgjöf. Oft er auðséð að ekkert ráðgjafarstarf var unnið, að milliliðirnir þjóna bara því hlutverki að koma hlutunum í framkvæmd, að fá fólk í valdastöðum til að gera það sem viðkomandi þarf að láta að gera,“ segir Daniel Balint-Kurti, yfirrannsakandi hjá Global Witness.

„Þetta líta út fyrir að vera mútur. Ég held að Samherji þurfi að svara erfiðum spurningum til að afsanna það. Maður þarf að líta á það hvernig Fishcor fékk réttinn til að áframselja hrossamakrílkvóta. Breyta þurfti lögum til þess að Fishcor fengi þann rétt og hverjir voru hvatamenn að þeim lagabreytingum? Jú, það voru þessir sömu hákarlar. Svo fá þessir hákarlar greitt eftir á.“

Fyrri hluti:
← Af hverju Namibía?

Næsti hluti:
Milliríkjasamningurinn →