Fleiri þurfa að spyrja spurninga

„Við erum búin að birta gögn, við erum búin að greina gögn, við erum búin að leita að svörum. Við komumst ákveðið langt. Það þurfa fleiri að reyna.“

Fleiri þurfa að spyrja spurninga

„Það þurfa fleiri að vera einhvers konar aðhald. Það þurfa fleiri að ýta á svör um rannsókn. Það þurfa fleiri að spyrja spurninga, hvort sem það er í Noregi, Máritíus, Namibíu, Angóla, Kýpur, Dúbaí, Kanarí, Kanada, Bandaríkjunum, Færeyjum, Grænlandi.“

Þetta segir Aðalsteinn Kjartansson, umsjónarmaður síðustu tveggja Kveiksþátta. Aðalsteinn, Helgi Seljan, umsjónarmaður, og Stefán Aðalsteinn Drengsson, pródúsent, hafa kafað í Samherjaskjölin undanfarna mánuði og flett ofan af vafasömum starfsháttum Samherja í Namibíu.

„Við búum til ákveðna afurð, reynum að gera eins vel og við getum, höfum þetta eins rétt og hægt er að hafa þetta, og auðvitað viljum við að aðrir miðlar taki við og fjalli um þetta. Við erum Kveikur, við kveikjum upp í umræðunni,“ segir Stefán og bætir við: „Þetta er úti um allan heim. Þannig það er eflaust eitthvað meira í gögnunum sem að þá aðrir, heimurinn, getur skoðað og fundið eitthvað út.“

„Já, og líka samhengi sem við kannski höfðum ekki eða þekkjum ekki, ég þekki ekki alla kima starfsemi Samherja,“ segir Aðalsteinn. „Við þekktum ekki einu sinni hvað var uppsjávarfiskur og hvað ekki,“ svarar Stefán.

Í næstu viku verður Kveikur til umfjöllunar í hlaðvarpinu og rætt við þáttagerðarmenn um hann. Hlaðvarpið er í öllum helstu hlaðvarpsöppum og í appi og á vef RÚV. #Kveikur er fyrir alla þá sem vilja taka virkan þátt í umræðunni og [email protected] fyrir ábendingar.